Bók Orra Páls Ormarssonar, Hemmi Gunn - sonur þjóðar, kom út á dögunum. Hér fyrir neðan er kafli úr bókinni sem segir frá árum Hemma Gunn í Sumargleðinni:
Ég hafði engan metnað sem söngvari og skemmtikraftur, var bara að þessu fyrir vini mína. Þess vegna kom það eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar ég fékk símhringingu frá engum öðrum en Ragnari Bjarnasyni vorið 1984, þar sem hann bauð mér að ganga til liðs við vinsælasta hóp skemmtikrafta á landinu á þeim tíma, Sumargleðina. Þorgeir Ástvaldsson hafði hætt og þá vantaði mann í staðinn. Mig!
Ég komst að því síðar að þetta var útpælt og þrælplanað hjá Ragga. Haustið áður hafði Sumargleðin lokið yfirreið sinni um landið með dagskrá á Hótel Sögu og meðal atriða þar var svokallað lukkuhjól. Gestir í sal voru dregnir út og fengnir upp á svið. Ég lenti í þessu og vippaði mér upp, þrælspenntur en feiminn enda með litla reynslu af því að standa á sviði frammi fyrir fullum sal af fólki. Komst þó í gegnum þetta. Seinna viðurkenndi Raggi að hann hefði viljandi látið draga mig út. Hvers vegna? Jú, til að „máta þig við sviðið“. Þá hafði hann haft augastað á mér í einhvern tíma.
Ég þekkti Ragga ekki mikið á þessum tíma og baðst undan þessu, þetta væri ekkert fyrir mig og við skyldum bara gleyma þessu strax.
„Látt'ekki sona,“ sagði Raggi þá bara, „þú ferð létt með'etta. Syngur eitthvert sjóaratrums (trums er annað orð sem Raggi notar gjarnan yfir dægurlög), eins og þú hefur verið að gera, og kynnir dagskrána með mér. Ekkert pex með það!“
Síðar áttaði ég mig á því að þegar Raggi Bjarna segir „ekkert pex“ er búið að taka ákvörðun og ekki verður aftur snúið.
Þar með var það ákveðið. Engu tauti varð við Ragga komið og ég féllst á að mæta á æfingu og hitta mannskapinn. Þarna var einvalalið tónlistarmanna og skemmtikrafta, hver fagmaðurinn upp af öðrum. Karl Möller og Jón Sigurðsson bassi sáu um tónlistina og landskunnir skemmtikraftar á borð við Ómar Ragnarsson, Magnús Ólafsson og Bessa Bjarnason, auk Ragga sjálfs, sem stjórnaði öllu af sinni alkunnu snilld og stimamýkt. Síðar komu Diddú og fleiri inn í hópinn.
Raggi er ofboðslega jákvæður maður að upplagi, hann sér alltaf það besta í fólki. „Það er eitthvað við þennan gæja, eitthvað í röddinni,“ segir hann gjarnan þegar enginn annar hefur trú á viðkomandi. Það hefur alltént enginn maður haft aðra eins trú á mér og urginu í röddinni minni. Hann og Rúnar Júl. Það er ekki amalegt að vera með vottorð frá þessum tveimur höfðingjum.
Raggi hefur líka einstakt lag á því að hrífa fólk með sér og allir vilja vinna með honum. Það hefur verið mikill heiður að kynnast og starfa með Ragga sem er hálfgerður fósturfaðir minn í skemmtanabransanum.
Í Sumargleðinni fékk ég einnig tækifæri til að vinna með öðrum manni sem er mér afskaplega kær, Ómari Ragnarssyni.
Við Ómar kynntumst þegar ég var unglingur. Þá var ég í sumarvinnu hjá Gróðrarstöðinni Alaska og tók meðal annars þátt í að ganga frá lóð við háhýsi við Austurbrún, þar sem Ómar bjó. Edvard, bróðir Ómars, var þá verkstjóri og Ómar greip stundum í skóflu með okkur. Hann var þá orðinn landsþekktur skemmtikraftur og ók ýmist um á þriggja eða fjögurra hjóla bílum, hverjum öðrum smærri. Það fór eftir aðstæðum. Undirleikaranum var troðið aftur í.
Meðal þess sem við þurftum að gera þetta sumar var að bera skarna, sem lyktaði ferlega illa. Til að beina athyglinni frá lyktinni fórum við gjarnan í leiki, svo sem „Hver er maðurinn?“ og lék Ómar þá gjarnan á als oddi. Hann var mjög hugmyndaríkur og hermt er að hann hafi samið heilu lögin í lyftunni á leið upp hæðirnar í blokkinni.
Mikil og góð vinátta tókst með okkur Ómari þetta sumar og hefur hún haldist síðan, í meira en hálfa öld. Ég lít á Ómar sem trúnaðarvin minn og við höfum stundum talað um að við höfum tilfinningaskyldu hvor gagnvart öðrum, ekki tilkynningaskyldu. Ég veit hvaða sál býr innra með Ómari Ragnarssyni, hún er margslungin.
Æfingar Sumargleðinnar voru heimur út af fyrir sig. Menn kunnu sína rullu upp á hár og ekkert annað gert á æfingum en að hlæja – í tvo klukkutíma. Síðan fóru menn bara heim. Það var ótrúlegt að fylgjast með þessum mönnum á sviði og ekki hægt að hugsa sér betri lærimeistara. Ég lærði ótrúlega margt af þeim, ekki síst Bessa sem var menntaður leikari og stórkostleg persóna. Bessi var ekki bara meinfyndinn, heldur líka hrekkjóttur og uppátækjasamur og hafði einstakt lag á því að koma manni í opna skjöldu. Við urðum miklir vinir.
Raggi og Ómar eru líka fæddir skemmtikraftar og keppnismenn og bættu alltaf í ef salurinn var erfiður eða fáir mættir. Kalli og Jón héldu af mikilli fagmennsku utan um tónlistina og það er svo merkilegt að af öllum þessum mönnum var enginn fyndnari í rútunni en Kalli Möller. Hann fékk mann bókstaflega til að emja úr hlátri. Samt var engin leið að fá hann til að segja brandara á sviði.
Margt af því sem fór manna á milli í rútunni á ekkert erindi á prent!
Sitthvað var brallað og menn ötuðust hverjir í öðrum, allt til gamans. Raggi er afskaplega hrekklaus maður sem auðvelt er að plata. Það gerðum við óspart enda tekur hann slíku yfirleitt vel. Eitt af því sem við gerðum var að búa til hjón, Þröst og Bíbí, sem við vorum sífellt að tala um við Ragga. Þau misstu varla af skemmtun með Sumargleðinni og voru okkar mestu aðdáendur. Lengi stóð til að Raggi fengi að hitta Þröst og Bíbí en alltaf greip hann í tómt, þau voru alltaf nýfarin úr húsi. Raggi var alveg ómögulegur yfir þessu, þótti svo leiðinlegt að missa alltaf af þeim. Svona gekk þetta í heilt sumar.
Ómar er líka frekar trúgjarn og einu sinni tókst mér að gera hann alveg vitlausan. Hann var sífellt að stríða mér á því að það væri eintómt KFUM-fólk í Val og ég spurði á móti hvort það væru ekki bara þurfalingar í Fram. Gabbið hjá mér snerist um Herrakvöld Fram, ég sagði það hafa farið fram kvöldinu áður og hvort hann hefði ekki örugglega verið á staðnum. „Nei,“ sagði Ómar hissa, þar hafði hann ekki verið. Vissi raunar ekkert um málið sem olli honum hugarangri enda var Ómar Ragnarsson fastagestur á öllum Herrakvöldum hjá Fram. „Hvernig veistu að það var Herrakvöld hjá Fram í gærkvöldi?“ spurði hann gáttaður. „Tja,“ svaraði ég með hægð, „það var slökkt á öllum ljósum í Bjarnaborginni á Hverfisgötunni!“
Þetta þótti Ómari ekki fyndið.
Fleiri voru hrekktir. Margrét Guðmundsdóttir leikkona og eiginkona Bessa kom oft með okkur í þessar ferðir og vildu þau hjónin gjarnan vera út af fyrir sig. Tjölduðu þá bara úti í móa í staðinn fyrir að vera með okkur galgopunum á hótelunum. Einu sinni tjáði ég Möggu grafalvarlegur á svip að ekki væri pláss fyrir mig á hótelinu og Bessi hefði tekið vel í að leyfa mér að sofa á milli þeirra í tjaldinu. Möggu brá við þetta og fór beint í Bessa. „Bessi, er það satt að Hemmi eigi að sofa á milli okkar í nótt?“
Bessi kom auðvitað af fjöllum.
Jón Ragnarsson, bróðir Ómars, var rútubílstjórinn okkar og miðasali. Eldheitur Framari, rallkappi og bílafrömuður. Jón er mikill keppnismaður, eins og bróðir hans, og fyrir lokaball í Aratungu eitt sumarið skoraði hann á mig í hundrað metra hlaup. Var það kynnt sem einvígi aldarinnar og tilstand mikið, Ómar stikaði hundrað metrana og hvaðeina. Ég var býsna frár á fæti og ágætlega á mig kominn, nýhættur að spila fótbolta, og hafði í fyrstu ekki miklar áhyggjur af þessu. Um leið og Ómar ræsti okkur gerði ég mér hins vegar grein fyrir því að Jón var verulega fljótur að hlaupa.
Ég var sneggri af stað en heyrði alltaf andardráttinn í Jóni og skynjaði að hann dró óðfluga á mig. Í þann mund sem hann var að fara framúr var Jón hins vegar svo óheppinn að renna á rassinn og eftirleikurinn var auðveldur hjá mér. Jón var alveg eyðilagður yfir þessu og hamaðist lengi vel í mér að endurtaka leikinn. Ég hélt nú ekki, einvígi aldarinnar yrði bara háð einu sinni og hann yrði bara að sætta sig við það að ég væri fljótari en hann að hlaupa.
Menn fengu margvísleg verkefni hjá Sumargleðinni og eitt af því sem mér var falið var að hanna og kaupa ný föt á hópinn. Breytti ég talsvert um stíl í þeim efnum og svo var Halldór vinur minn Einarsson í Henson alltaf reiðubúinn að útbúa á okkur æfingagalla á ferðalögunum og auðvitað allt ókeypis, eins og hans var von og vísa.
Keyrslan í Sumargleðinni var mikil, sýning eftir sýningu, og varla tími til að kasta mæðinni. Þetta var erfitt í fyrstu fyrir óvanan mann, ég var til dæmis fljótur að sprengja röddina og þurfti að troða upp þegjandi hás. Það vandist með tímanum. Öll þreyta leið líka ósjálfrátt úr kroppnum þegar við vorum að fara á svið og Raggi fór með hvatningarorðin: „Let's give it to them!“
Eitt sumarið vorum við á Laugum, þar sem endurreisa átti einhverja héraðshátíð. Það var varla kjaftur þar um daginn og við lögðum að Ragga að drífa okkur bara eitthvað annað, þetta væri vonlaust. Raggi hélt nú ekki.
„Við förum í'etta og riggum upp. Liðið kemur, hafið engar áhyggjur!“
Það stóð heima, við fengum 900 manns á skemmtunina. Svona þekkti Raggi landið eins og lófann á sér.
Eitt af mínum atriðum í skemmtidagskránni var að fara með íþróttalýsingu sem ég hafði sett saman. Lýsingin var tómar ýkjur og vitleysa, keppni í æðiskasti og þar fram eftir götunum, en gerði yfirleitt stormandi lukku þar sem ég skrifaði heimamenn inn í lýsinguna hverju sinni, Jón í Skarði, Gústa á Vöglum og hvað menn mögulega hétu í hverri sveit. Menn sem allir þekktu og því var mikið hlegið. Fyrir sýningu fékk ég bara húsvörðinn eða einhvern kunnugan á staðnum til að koma með nöfnin. Þetta brást aldrei – nema einu sinni.
Ég hafði gert allt með sama hætti og venjulega, fengið húsvörðinn til að koma með nöfn á helstu mönnum í sveitinni og átti ekki von á öðru en þetta myndi falla í frjóan jarðveg. Það var nú eitthvað annað. Ég fann strax að eitthvað var ekki eins og það átti að vera, það hló ekki nokkur kjaftur. Ég fylltist auðvitað örvæntingu, eins og maður gerir í þessum sporum, prófaði að hækka röddina og tala hraðar en allt kom fyrir ekki. Ég beit því bara á jaxlinn og kláraði lýsinguna án þess að fá nokkra svörun frá salnum og varla nokkurt klapp í lokin.
Ég hafði veitt því athygli út undan mér meðan ég var að juða og puða við lýsinguna, svona gjörsamlega ófyndna, að félagar mínir í Sumargleðinni voru hreinlega að pissa í sig úr hlátri baksviðs. Hvernig í ósköpunum gat það verið? Jú, þá höfðu þeir áttað sig á því, sem ég gerði ekki, að það voru eintómir aðkomumenn í salnum, fólk úr allt öðrum héröðum, og þekktu fyrir vikið ekki einn einasta mann sem ég hafði verið að draga sundur og saman í háði. Félagarnir voru sumsé að hlæja að vandræðaganginum í mér. Þetta var rosaleg eldskírn!
Maður lét hafa sig út í ótrúlegustu hluti. Eitt sumarið var Pan-hópurinn, sem var erótískur danshópur, milli tannanna á fólki og þótti Sumargleðinni auðvitað upplagt að stæla hann með sínu lagi. Var ég þá af öllum mönnum settur í g-streng og skikkju, eins feiminn og ég er, og látinn dansa við tvær yndislegar og frískar stelpur, bláedrú í þokkabót. Það var agalegt.
Vínbann hafði verið sett hjá Sumargleðinni árið 1981 að frumkvæði Ómars Ragnarssonar. Hann drekkur ekki og nennti hreinlega ekki að standa í þessu nema menn væru allsgáðir. Raggi tók vel í það enda mun auðveldara að halda utan um hópinn edrú en fullan. Það segir sig sjálft.
„Það þýðir ekkert að drekka hérna,“ var hann vanur að segja, „geri menn það verða þeir bara fullir fram á haust.“
Frægt var þegar hann fann vínlykt af Þorgeiri Ástvaldssyni á Fljótsdalsheiðinni, setti hann út úr rútunni og ók á brott. Það varð kveikjan að hinu ódauðlega lagi „Á puttanum“. Það segjum við félagar hans alla vega.
Ég var þrjú sumur í Sumargleðinni. Það var stórkostlegur skóli fyrir mig og án þeirrar reynslu hefði ég aldrei getað farið í sjónvarp, eins og ég átti síðar eftir að gera.
Samtals starfaði Sumargleðin í sextán ár og það verður að teljast einstakt afrek hjá Ragga að hafa haldið þessum hópi egóista saman allan þann tíma og fengið þá til að vinna svona vel saman.
Eftir langt hlé kom Sumargleðin aftur saman á einni skemmtun í Aratungu, þar sem við enduðum alltaf í gamla daga, árið 2011. Við vissum ekkert við hverju var að búast, héldum kannski að þarna yrði bara hreppsnefndin í kökum og kaffi en hún bað okkur að koma fram. En hvað var a tarna? Salurinn var troðfullur. Gott ef gömlu grúppíurnar voru ekki fremstar í flokki með börnin sín – uppkomin. Við skildum ekkert í þessu og leið hreinlega eins og við værum heimsfrægir. Þetta var virkilega skemmtilegt.