Íhaldskonur eru bestu elskendurnir

Valur Gunnarsson.
Valur Gunnarsson. Ljósmynd/Sigtryggur Ari

Rithöfundurinn Valur Gunnarsson var að senda frá sér bókina Síðasti elskhuginn. Í bókinni spyr hann margra spurninga eins og hvort rómantíkin sé ennþá til? Alls staðar leitar fólk síðasta elskhugans sem gerir alla aðra óþarfa. Valur Gunnarsson hefur elt ástina heimsálfanna á milli. Hér fyrir neðan eru nokkur brot úr bókinni:

Það versta við fræðimennsku á Íslandi er hvað hún flækir samskiptin við ættingjana. Það var aðeins eftir hrun að ég hafði tímabundið verið tekinn í sátt. Mitt í öllu atvinnuleysinu og vonleysinu þótti ég duglegur að vera þó í námi, en svo gott ástand gat ekki enst. Brátt fór allt aftur í sama horf og ég hugleiddi að hætta að mæta í fjölskylduboðin; það eru takmörk fyrir hvað maður getur þolað mikið af Bjarnfreðarsonarbröndurum á einu kvöldi. Hélt samt áfram að mæta fyrir því.

            Fjölskyldur eru eins og Sjálfstæðisflokkurinn. Sama hversu mikið ber á milli, ávallt er það meira sem dregur fólk saman í þessu vanhelga bandalagi yfirþyrmandi föðurímynda og hlédrægra eiginkvenna, barinna barna og skuggalegra frænda. Ástin er frekar eins og vinstristjórn, birtist afar sjaldan og þá með fögur fyrirheit, en um leið og ástarbríminn hverfur leysist hún upp í gagnkvæmri tortryggni og heift.

                                                                       ***

            Meginlandsást er grindahlaup, það er auðveldara að komast af stað en síðan mæta manni stöðugt fleiri hindranir eftir því sem maður kemst lengra. Íslensk sambönd eru fremur eins og hástökk. Þetta virðist vonlaust úr fjarlægð séð, en eitt gott tilhlaup og þá er þetta komið.

            Þrettán mínútna múrinn var rofinn, kamasútran segir að til séu 64 leiðir til þess að njóta ásta en Paul Simon nefnir aðeins 50 leiðir til þess að yfirgefa elskhuga sinn. Kannski eru hlutföllin með okkur þrátt fyrir allt.

           ... Og kvöld eitt að friðarsamningum loknum sátum við á svölum í Vesturbænum með hvítvínsglas í hendi og Keflavík fyrir augunum. Keflavík er líklega íslenskasti bær landsins. Útlönd eru hvergi jafn nálæg og hvergi jafn fjarlæg og einmitt þar.

            „Þarna hitti ég hann fyrst,“ sagði Helga og virtist vera mikið niðri fyrir. Hún leit á glasið mitt og gætti að því að það væri fullt.

            „Hvern þá?“

            „Barnsföður minn,“ sagði hún og leit undan.

                                                           ***

Suður í Evrópu er ástin áhugamál, eitthvað til að njóta á hlýjum og dimmum sumarnóttum, eitthvað sem fer vel með hvítvíni og kertaljósum eða rauðvíni og rómverskum rústum. Hér höfum við hvorki dimmar sumarnætur né rómverskar rústir, aðeins endalausa vetur og gnauðandi vindinn. Hér er ástin ekki áhugamál, hér er hún spurning um líf og dauða. Án hennar drepumst við öll úr C-vítamínskorti og skammdegisþunglyndi.

            Kannski var það þess vegna sem við Helga tókum við hvort öðru eins og ferðalangar sem hafa verið of lengi í eyðimörkinni án þess að verða annarra varir. Þegar við kysstumst var

það með ákafa þess sem loksins finnur sér vatnsból en getur þó með engu móti verið viss um hvort það sé raunverulegt eða hillingar. Ef til vill áttum við ekkert sameiginlegt nema þörfina fyrir að vera elskaður, en þó fyrst og fremst þörfina fyrir að elska. Kannski vorum við eina fólkið sem svo var komið fyrir. Og við elskuðum eins og við værum síðasta fólkið á jörðinni. Jöklarnir eru að bráðna. Flóðið er að koma. Elskum hvert annað meðan við getum. Það er ekki mikill tími til stefnu.

            Og þó sagði ég ekki neitt. Stundum þegar ég leit á hana í morgunsólinni var ég næstum búinn að missa það út úr mér en náði svo stjórn á mér á ný og settist við morgunverðarborðið eins og ekkert hefði í skorist.

            Ég hafði lagt öll áform um Noreg á hilluna, en Helga hélt af stað í sumarfrí sitt til Parísar sem hafði verið skipulagt löngu áður en ég kom til skjalanna. Það var ekki laust við að mér væri hálfórótt þegar Helga hélt af stað til stórborgar sem var full af Frökkum, en hún sneri brátt aftur og við héldum áfram þar sem frá var horfið. Það var eins og við værum tvö ein í heiminum, en ég var brátt minntur á að svo var ekki.

                                                           ***

Almættið, sem virtist hafa verið sérstaklega í nöp við Íslendinga frá landnámsgosi og Sturlungaöld og svarta dauða og móðuharðindum og haftaárunum og allt fram yfir hrun, virtist nú hafa ákveðið að taka þjóðina í sátt. Efnahagurinn var hægt og rólega að rétta út kútnum, við komumst áfram í Eurovision og þetta reyndist eitthvert sólríkasta sumar síðan land byggðist.

            Kannski höfðum við valið rétt eftir allt saman, þrátt fyrir gjaldeyrishöft og Icesave. Kannski lá framtíðin einmitt hér, á þessu landi sem var svo nýbúið að uppgötva siðmenninguna að það vissi ekki alveg hvað það átti við hana að gera. En einmitt þess vegna gátum við mótað hana að vild. Við höfðum ekki St. Lawrence-fljót, frúna við höfnina eða Leonard Cohen. En við höfðum Megas, Hlemminn þar sem gamla gasstöðin stóð og endalausar Reykjavíkurnætur. Það var þó eitthvað.

            Við gengum meðfram sjónum þessi sumarkvöld og horfðum á þegar sólin íhugaði að setjast en hætti svo við. Við drukkum hvítvín á kaffihúsum Austurvallar þar til borðin voru tekin inn og héldum svo saman í Vesturbæinn þar sem nóttin tók öllum kvöldum fram. Íhaldskonur eru bestu elskendurnir. Ekki láta neinn segja þér neitt annað.

            Eins og Mensi hafði spáð tók þjóðfélagið mér opnum örmum, nú þegar ég var kominn með kærustu. Ég fékk betri þjónustu á kaffihúsum og gott ef ég brosti ekki til afgreiðslufólksins, konur í strætóskýlum færðu sig ekki lengur undan ef ég stóð við hlið þeirra, enda ekkert með því meint. Jafnvel foreldrar mínir litu mig öðrum augum þegar þeir komu í heimsókn, og það örlaði fyrir einhverju í andliti þeirra sem ég hafði ekki séð áður. Gat það verið stolt? Einhvers staðar í myrkum hugarfylgsnum var ég viss um að barnabörnin væru þegar farin að fæðast.

Síðasti elskhuginn eftir Val Gunnarsson.
Síðasti elskhuginn eftir Val Gunnarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda