Fjölmiðlakonan og fyrirlesarinn Sirrý Arnardóttir segir að verstu kaupin hafi verið hlaupabretti sem hún keypti eitt sinn og er nú einmana niðri í kjallara hjá henni. Á dögunum hélt hún fyrirlesturinn „Að laða til sín það góða“ í Heilsuborg fyrir fullu húsi. Hinn 22. nóvember verður hún með annan fyrirlestur á sama stað.
Hvert er besta sparnaðarráðið?
„Besta stóra sparnaðarráðið er að treysta ekki bönkunum. Trúa ekki auglýsingum þeirra. Smærra í sniðum en mikilvægt sparnaðarráð er að drekka íslenskt kranavatn. Það sem er best fyrir heilsuna og umhverfið er oft einnig best fyrir fjárhaginn.“
Í hvaða vitleysu eyðir þú peningum?
„Ég eyði peningum á snyrtistofu og læt dekra við hendurnar á mér. Það er óþarfi en þess virði.“
Bestu kaupin?
„Flugmiðar til útlanda í gegnum tíðina. Ferðalög eru svo skemmtileg.“
Verstu kaupin?
„Bíll á bílaláni hjá fjármögnunarfyrirtæki. Og hlaupabretti sem ég á í kjallaranum. Er til í að gefa það: Fyrstur kemur fyrstur fær.“
Sparar þú meðvitað?
„Ég spara meðvitað á þann hátt að ég fer vel með og hef ekki gaman af því að verja miklum tíma í búðum. Vil nota tímann í annað.“
Ef þú ættir milljón á lausu, hvað myndir þú kaupa?
„Rafbók, föt, flugmiða, nuddtíma, út að borða, málverk eftir Hring Jóhannesson og svo væri ég með sektarkennd yfir því að hafa eytt þessu öllu í sjálfa mig þegar margt þarfara væri hægt að fá fyrir peninginn.“