Hvergi í heiminum er betra að vera móðir en í Noregi, á Íslandi og í Svíþjóð. Þetta kemur fram í árlegri greiningu samtakanna Barnaheilla - Save the Children, sem taka saman heilsufar, menntun og efnahagslega stöðu kvenna og barna í 165 löndum.
Niðurstaðan er sú að best sé að vera móðir í Noregi, en Ísland er í öðru sæti listans og færist upp um eitt sæti. Svíþjóð er í því þriðja. Verst er að vera móðir í Níger, Afganistan og Jemen, samkvæmt úttekt Save the Children. Bandaríkin eru hinsvegar í 25 sæti.
Sláandi samanburður
Samanburðurinn er sláandi á hag kvenna og barna í þeim löndum þar sem aðstæður eru bestar og þar sem þær eru verstar. Íslenskar og norskar konur njóta t.d. faglegrar hjálpar heilbrigðisstarfsmanna í fæðingu í næstum 100% tilfella. Í Níger er hlutfallið ein á móti hverjum þremur. Íslensk stúlka gengur í skóla að meðaltali í 20 ár til móts við 4 ár í Níger.
Hættan á að móðir láti lífið af barnsförum á Íslandi er 1 á móti 9.400, í Noregi 1/7.600 en ein af hverjum 16 nígerskum konum deyr af völdum þungunar eða fæðinga í heimalandi sínu. Á Íslandi er hættan á að barn láti lífið fyrir fimm ára aldur 1 á móti 500, Í Noregi 1/333 en 1/7 í Níger.
Aðstæður barna bestar á Íslandi
Þetta er 13. árið sem skýrslan kemur út. Í henni eru aðstæður mæðra í 165 löndum bornar saman og fengin út svokölluð mæðravísitala. Hún tekur tillit til ýmissa þátta sem hafa áhrif á líf mæðra, svo sem heilsu, menntun og efnahag. Aðstæður barna eru skoðaðar sérstaklega með tilliti til áhrifavalda á borð við heilsu, menntun og næringu. Ísland er í efsta sæti þess lista. Þá er staða kvenna metin og vermir Ísland 5. sæti listans um stöðu kvenna í heiminum.
Þau 10 lönd heims þar sem best er að vera móðir eru sem áður segir Noregur, Ísland og Svíþjóð, þá Nýja-Sjáland og Danmörk, Finnland, Ástralía, Belgía, Írland og saman í 10. sæti sitja Holland og Bretland.
Fram kemur á vef Barnaheilla að næring og fæða séu til sérstakrar skoðunar þegar velferð barna og mæðra er skoðuð. „Vannæring er undirliggjandi orsök að minnsta kosti fimmtungs dauðsfalla mæðra og þriðjungs barna í heiminum. Meira en 171 milljón barna þjáist af falinni vannæringu sem hefur varanleg áhrif á líkamlegan og andlegan þroska þeirra og gerir þeim ókleift að ná þeim árangri sem þau gætu annars.“ Staðan verður til umræðu á G8-fundinum sem haldinn verður í Bandaríkjunum 18.-19. maí. Af þeim tíu löndum sem skipa neðstu sæti listans í mæðraskýrslunni, er hungusneyð í sjö.
Sjá nánar á vef Barnaheilla.