Börn eru alltaf börn

Ekki er boðlegt að börn týnist í kerfinu sem hefur …
Ekki er boðlegt að börn týnist í kerfinu sem hefur því miður gerst. AFP

Þrátt fyrir að réttindi barna séu almennt vel tryggð á Norðurlöndunum er víða pottur brotinn hjá barnaverndaryfirvöldum að tryggja rétt barna sem eru á flótta og hafa sótt um alþjóðlega vernd.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, varðandi málefni barna sem hafa sótt um alþjóðlega vernd á Norðurlöndunum.

Tryggja þarf betur þjónustu og eftirfylgni með málum allra fylgdarlausra barna og koma í veg fyrir að þau „gleymist“ í kerfinu líkt og viðmælandi í skýrslunni bendir á. Barnaverndaryfirvöld verða að uppfylla skyldu sína samkvæmt lögum og tryggja að þessi börn, líkt og önnur börn á Íslandi, eigi sér sterkan málsvara sem gætir hagsmuna þeirra og sem tryggir að stjórnvöld vinni að umsóknum þeirra um alþjóðalega vernd með réttindi þeirra í fyrirrúmi, líkt og lög kveða á um. Þetta er meðal þess sem UNICEF leggur til varðandi málefni barna sem eru á flótta og hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Niðurstaða skýrsluhöfunda er að í öllum ríkjunum fimm sé tilhneiging til þess að láta lög um útlendinga ganga fram fyrir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Skiptir þar engu að í flestum ríkjunum er búið að setja sáttmálann inn í landslög.

Eva Bjarnadóttir sérfræðingur hjá UNICEF á Íslandi.
Eva Bjarnadóttir sérfræðingur hjá UNICEF á Íslandi. mbl.is/Hari

Eva Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá UNICEF, segir að niðurstaða skýrslunnar sýni að löggjöfin varðandi málefni barna og um leið útlendinga sé nokkurn veginn í lagi á Íslandi, enda  nýlega búið að setja útlendingalög sem standast ákveðið gæðamat út frá því sem fram kemur í skýrslunni. Aftur á móti vilji það brenna við hér, líkt og annars staðar á Norðurlöndunum, að útlendingalög séu látin ganga fram yfir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Tæplega ein milljón barna

Frá árinu 2015 hefur tæplega ein milljón barna komið til Evrópu á flótta undan stríði, átökum og fátækt. Þrátt fyrir að þeim hafi fækkað í fyrra halda börn og fjölskyldur þeirra áfram að koma til Evrópu í leit að lífi þrátt fyrir að á flóttanum eigi þau á hættu að verða fórnarlömb misnotkunar, ofbeldis og harðræðis, segir meðal annars í skýrslunni Vernduð í raun?

Öll ríkin fimm hafa tekið á móti fjölmörgum börnum á flótta frá árinu 2015 í samanburði við mörg önnur ríki í Evrópu. Þar skipar Svíþjóð fyrsta sætið, Noregur er í fjórða sæti, Finnland er í áttunda og Danmörk í níunda af 29 ríkjum Evrópu. Alls hafa  45.765 börn, sem voru ein á flótta, fengið hæli á Norðurlöndunum fimm árið 2015 af þeim 88.250 börnum sem voru ein á flótta í Evrópu það ár.

Fjöldi barna á flótta.
Fjöldi barna á flótta. mbl.is/Kristinn Garðarsson

Eva segir að þegar flóttafólki fjölgaði á árinu 2015, meðal annars vegna stríðsins í Sýrlandi, hafi orðið mikil breyting á afstöðu yfirvalda í Svíþjóð og víðar. Staða barna á flótta hafi áður verið betri í Svíþjóð og eins í Noregi. Þar unnu starfsmenn UNICEF náið með stjórnvöldum við að gera aðstæður sem bestar fyrir börn á flótta fyrir þann tíma. En eftir 2015 hafa bæði lög og enn frekar framkvæmdin breyst mikið og aðstæður barna versnað til muna.

„Ísland fór aftur á móti í þveröfuga átt við hin Norðurlöndin þar sem hér voru samþykkt ný lög um útlendinga sem styrkja réttindi barna á flótta. En áður en þessi lög tóku gildi á Íslandi var margbrotið á réttindum barnanna,“ segir Eva og tekur fram að á því ári sem liðið er frá því vinna við skýrsluna hófst hafi átt sér stað ótrúlegar framfarir á þessu sviði hér á landi. „Ég held að nýju lögin eigi mikinn þátt í því. En skýrslan sýnir að það er ekki nóg að vera með góða löggjöf heldur þarf framkvæmdin að vera í samræmi við hana og upp á það vantar töluvert hér á landi.  

Eins þurfum við að breyta viðhorfi sem ríkir og horfa á börn sem börn fyrst og fremst, ekki sem útlendinga. Hér er engin sameiginleg sýn á það hvernig við ætlum að virða rétt barna og sem dæmi má nefna að hversu sjaldan er litið til Barnasáttmálans þegar kemur að dómskerfinu,“ segir Eva.

Í skýrslunni er einmitt harðlega gagnrýnt hvernig norræn barnaverndaryfirvöld hafi leyft útlendingastofnunum landanna að taka ákvarðanir um afdrif barna sem eru að sækja um alþjóðlega vernd þrátt fyrir að landslög séu skýr varðandi að gæta eigi hagsmuna barna og verja þau með ráðum og dáð.

Börn eru alltaf börn, ekki útlendingar.
Börn eru alltaf börn, ekki útlendingar. AFP

Í skýrslu UNICEF er fjallað um þær breytingar sem átt hafi sér stað. Til að mynda aðgerðarleysi danskra yfirvalda í að axla sameiginlega ábyrgð með Grikkjum og Ítölum líkt og Evrópusambandið hefur óskað eftir að aðildarríkin geri.

Svíþjóð hefur eins og áður sagði hert reglur um veitingu alþjóðlegrar verndar til hælisleitenda og lögin sem sett voru árið 2016 þykja mjög andsnúin börnum á flótta en lögin áttu að gilda tímabundið. Þau eru enn í gildi.

Finnska útlendingastofnunin hefur jafnvel gengið enn harðar fram í að draga úr komum hælisleitenda til landsins og eiga eldri börn á hættu að vera vísað úr landi þar um leið og þau verða 18 ára.

Fylgdarlaus börn vistuð í móttökumiðstöð í Hafnarfirði

Umboðsmaður barna í Noregi segir í skýrslunni frá áhyggjum sínum af stöðu barna sem búa í móttökumiðstöðvum fyrir flóttafólk í lengri tíma. Meðal annars hafa yfir 500 börn búið í slíkum móttökustöðvum í meira en þrjú ár þar í landi.

Eitt af því sem UNICEF leggur til er að Ísland skýri og endurskoði hvernig íslensk barnaverndaryfirvöld uppfylla tilsjónarhlutverk sitt og skoða samband þeirra við yfirvöld innflytjendamála og málefna hælisleitanda.

Þróa þurfi skýra verkferla sem tryggja að fylgdarlausu barni sé vísað til barnaverndaryfirvalda strax eftir komuna til landsins og tryggja að það sé aldrei hýst í móttökumiðstöð ásamt fullorðnum.

Fjallað er ítarlega um Barnahús í skýrslunni, uppruna verkefnisins og að um 50 slík hús hafi verið sett upp annars staðar á Norðurlöndunum að íslenskri fyrirmynd.

Barnahús annast viðtöl við börn á flótta sem hingað koma og á árinu 2017 voru tekin könnunarviðtöl við 20 hælisleitandi börn, þarf af 13 sem voru fylgdarlaus.

Börn sem eru ein á flótta.
Börn sem eru ein á flótta. mbl.is/Kristinn Garðarsson

Að sögn Evu vantar upp á að börn njóti þeirrar verndar sem þau eigi rétt á þegar þau koma hingað til lands og eru til dæmis fylgdarlaus börn vistuð í móttökumiðstöð Útlendingastofnunar í Bæjarhrauni.

„Ný lög um útlendinga, sem tóku gildi í byrjun síðasta árs, heimila að vista fylgdarlaus börn, 15 ára og eldri, í móttökumiðstöðinni í Hafnarfirði. Það hafði ekki verið gert áður, en varð fljótlega að reglu í stað undantekningar.

Móttökumiðstöðin er fyrsti viðkomustaður allra umsækjenda um alþjóðlega vernd á fyrstu stigum umsóknarferilsins. Þar eru saman í húsnæði barnafjölskyldur, fylgdarlaus börn og karlar sem eru einir á ferð.

UNICEF fékk að heimsækja mótttökumiðstöðina í Bæjarhrauni á síðasta ári og þá voru þar nokkrir drengir á þessum aldri og mikill samgangur milli barna og fullorðinna,“ segir Eva og bætir við að þetta sé ekki ákjósanlegt.

Breyta þurfi ákvæði í lögum um útlendinga sem heimilar vistun barna 15 ára og eldri í móttökumiðstöð. Koma þurfi á fót viðeigandi búsetuúrræði fyrir fylgdarlaus börn á vegum barnaverndaryfirvalda.

„Móttökumiðstöð Útlendingastofnunar er ekki heppilegur dvalarstaður fyrir börn og ungmenni sem eru ein á ferð. Þar eru fullorðnir og fylgdarlaus börn vistuð í sama húsnæði og engir ábyrgir fullorðnir á staðnum sem barn getur leitað til í neyð, fyrir utan öryggisvörð og starfsfólk Útlendingastofnunar. Þar er ekkert félagsstarf fyrir börn og ungmenni, skortur er á leiðbeiningum og aðstoð við daglegt líf,“ samkvæmt þeim úrræðum sem UNICEF leggur til í kjölfar útgáfu skýrslunnar.

Samkvæmt skýrslunni búa einnig karlar sem eru einir á flótta í sama húsnæði og börnin. Þetta séu ekki bestu mögulegu aðstæður fyrir börn að búa við og bæði Útlendingastofnun og umboðsmaður barna hafa greint frá því við skýrsluhöfunda að beðið sé svara frá Barnaverndarstofu við fyrirspurn þeirra um að setja á laggirnar viðeigandi móttökumiðstöð fyrir börn á flótta þar sem aðbúnaður og starfsfólk sé fullnægjandi.

Eva segir að UNICEF hafi fengið ábendingar um að börnin séu meðal annars hýst í úrræðum Barnaverndarstofu sem sem ætluð eru ungmennum sem ekki geta búið heima hjá sér af ýmsum ástæðum, svo sem vegna hegðunar- og vímuefnavanda. Hún segir að það ætti ekki að vista börn í slíkum úrræðum eingöngu á grundvelli þess að þau séu fylgdarlausir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Lögin geri ráð fyrir að aðeins börn með alvarlegan vanda séu vistuð á sérhæfðum heimilum og stofnunum og að þetta geti reynst báðum ungmennahópum erfitt.

Börn sem hingað koma hafa jafnvel verið lengi á flótta …
Börn sem hingað koma hafa jafnvel verið lengi á flótta og misst fjölskyldu sína. AFP

Börnum gefin kostur á að áfrýja niðurstöðu aldursgreiningar

Eitt af því sem fjallað er um í skýrslu UNICEF varðandi móttöku og aðbúnað barna á flótta á Norðurlöndunum er að verkferlar við aldursmat byggi á heildrænu mati. Eins verði ungmennum gefinn kostur á að áfrýja niðurstöðu aldursgreiningar.

„Samkvæmt lögum ætti tanngreining á aldri barns að vera metin í samhengi við fleiri forsendur í máli barns og allur vafi um aldur að vera metinn því í hag. Tryggja þarf að löggjöfinni sé í raun fylgt eftir með því að styðjast við heildrænt mat á aldri barns.

Á Íslandi er eingöngu stuðst við tanngreiningar og hefur sú aðferð verið gagnrýnd harkalega m.a. af UNICEF og Rauða krossinum. Í skýrslunni er mælt með því að stjórnvöld taki upp aðferðafræði þar sem stuðst er við mat á andlegum þroska barnsins. Þá er lögð áhersla á þá lykilforsendu að barn fái að njóta vafans. Einnig er þörf fyrir að sett verði á fót áfrýjunarferli vegna niðurstöðu aldursgreiningar, í ljósi þess hve alvarlegar afleiðingar slíkt mat getur haft á umsókn barns um vernd og þá þjónustu sem þeim býðst hér á landi,“ segir í tillögum UNICEF að úrbótum í málefnum barna á flótta.

Eva segir að í skýrslunni ekki tekin afstaða til þess hvort beita eigi aldursgreiningum á tönnum eða beinum til þess að ákvarða aldur barna, en UNICEF á Íslandi og Rauði krossinn hafa kallað eftir því að tanngreiningum verði hætt. „Heldur kallar skýrslan eftir því að félagslegt og sálfræðilegt mat fari fram samfara læknisfræðilegu mati, fari slíkt mat á annað borð fram og að börnum verði gert kleift að áfrýja niðurstöðum aldursgreiningar.“

Eitt af því sem fjallað er um er að hér skorti á upplýsingagjöf til barna og ungmenna sem eru á flótta.

Að sögn Evu þyrftu að vera einfaldar og auðskiljanlegar leiðbeiningar um það ferli sem hér gildir. „Að þau fái upplýsingar sem þau skilja. Ég sé fyrir mér kort þar sem lýst er leið barns í gegnum kerfið. Að réttur þeirra sé útskýrður þannig að þau viti það sem skiptir máli,“ segir Eva en þetta er eitt af því sem ungmenni hafi talað um þegar þau voru spurð hvað mætti bæta.

Fordæmi er fyrir þessu víða m.a. í Svíþjóð þar sem lögreglumenn eru með upplýsingaefni í símum sínum sem þeir geta sýnt börnum á þeirra eigin tungumáli.

AFP

Á annað þúsund börn hafa horfið

Í ársskýrslu umboðsmanns barna í Svíþjóð fyrir síðasta ár kemur fram að 1.736 börn hafi horfið á tímabilinu janúar 2014 til október 2017 og af þeim er 1.456 enn saknað. Þetta eru börn sem hefur verið saknað í langan tíma og hluti þeirra býr á götum úti í Svíþjóð eða eru í felum.

Börn sem starfsmenn umboðsmanns barna ræddu við segja frá því að þau hafi látið sig hverfa meðal annars vegna þess að þau fá ekki að búa með systkinum sínum eða ættingjum, fá ekki að leggja stund á trú sína og verða fyrir mismunun vegna bakgrunns. Önnur segja að þau glími við áföll vegna minninga frá stríði, ofbeldi, fátækt eða þrælkun, þau hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á leið til Svíþjóðar eða eftir að þau komu þangað. Önnur lýsa löngu ferli hælis og bið eftir ákvörðun eða synjun.

Það er erfitt að búa á götunni og í skýrslu UNICEF er haft eftir einu barni sem bjó á götunni eftir að hafa látið sig hverfa: „Stundum fékk ég ekkert að borða í þrjá eða fjóra daga. Þetta voru erfiðir tímar verð ég að segja. Mér leið illa á þessum tíma.“

Hin Norðurlöndin standa framar Íslandi varðandi mansal

Engin slík tilvik eru nefnd varðandi Ísland í skýrslu UNICEF sem kemur út í dag.

Þegar kemur að mansali standa hin Norðurlöndin framar Íslandi varðandi regluverkið. „Tengsl milli alþjóðlegrar verndar og mansals hafa lengi verið þekkt. Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Íslands um mansal 2013 – 2016, segir að rannsóknir í nágrannalöndum okkar bendi til þess að meðal umsækjanda um alþjóðlega vernd séu oft fórnarlömb mansals.

Eitt af því sem fjallað er um er að hér …
Eitt af því sem fjallað er um er að hér skorti á upplýsingagjöf til barna og ungmenna sem eru á flótta. AFP

Í áætluninni er stefnt að því tryggja sérfræðiþekkingu á mansali í móttökumiðstöð og veita fórnarlömbum mansals þjónustu í Kristínarhúsi og Kvennaathvarfinu. Ekki er minnst á fylgdarlaus börn sem mögulega þolendur mansals, enda voru nær engin börn umsækjendur um alþjóðlega vernda á Íslandi á þeim tíma. Það er nauðsynlegt uppfæra aðgerðaráætlunina og meta áhættuna sem börnum steðjar að mansali,“ segir meðal annars í tillögum UNICEF sem lúta sérstaklega að Íslandi.

Eva Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá UNICEF, segir að niðurstaða skýrslunnar sýni …
Eva Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá UNICEF, segir að niðurstaða skýrslunnar sýni að löggjöfin varðandi málefni barna og um leið útlendinga sé nokkurn veginn í lagi á Íslandi mbl.is/Hari

Spurð um hver verði næstu skref segir Eva að á næstunni verði haldin hér vinnustofa fyrir þá fagaðila sem koma að málefnum barna á flótta á Íslandi. Meðal annars muni Bina D’Costa, sérfræðingur hjá UNICEF, flytja erindi en auk D‘Costa verður fulltrúi flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna viðstaddur og Guðbjörg Ottósdóttir, lektor við félagsráðgjafasvið Háskóla Íslands, mun flytja erindi. „Þar ætlum við að kafa dýpra ofan í skýrsluna og bjóða upp á umræður um hvað við getum gert betur,“ segir Eva Bjarnadóttir sem er ein þeirra sem munu fjalla um skýrsluna á fundi í hádeginu í Norræna húsinu.

Fundurinn er á vegum UNICEF og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og hefst klukkan 12. Á fundinum mun Eva kynna niðurstöður skýrslunnar um stöðu barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Norðurlöndunum. Skýrslan er samstarfsverkefni landsnefnda UNICEF á Norðurlöndunum og Innocenti, rannsóknarmiðstöð UNICEF. Ísold Uggadóttir leikstjóri mun fjalla um reynslu sína við gerð myndarinnar Andið eðlilega. Í kjölfarið munu fara fram pallborðsumræður um efni skýrslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda