Spurt og svarað
Er barnið mitt andsetið?
Foreldrar um þrítugt á Austurlandi eru að bugast á „millibarninu“ sem er sérlega krefjandi ungur piltur:
„Við eigum gutta sem er að verða tveggja ára sem er bara eins og hann sé andsetinn stundum. Hann sko vægast sagt truflast ef hann fær ekki það sem hann vill. Hann bítur, klórar, kýlir, slær og tuffar.
Sem dæmi, þá trylltist hann nýlega í þrjú korter af því hann fékk ekki frostpinna í morgunmat. Hann missti stjórn á sér í vikunni yfir kvöldmatnum því hann vildi ekki sitja í stólnum sínum. Við tókum hann úr stólnum en hann hélt bara áfram í dágóðan tíma í kastinu. Hann er að taka að minnsta kosti fjögur köst á hverjum degi. Við erum búin að prufa setjast niður hjá honum þegar hann lætur svona og taka utan um hann og vera góð en þá yfirleitt gerir hann okkur eitthvað. Kýlir, hrækir eða eitthvað þvíumlíkt. Ég hef prufað að setja hann i skammakrók í um það bil eina mínútu en það virkar ekki neitt. Hann hleypur bara í burtu og gargar. Við erum búin að reyna verðlauna góða hegðun og refsa vonda hegðun en það virkar ekki neitt. En við gefum ekki eftir sama hvernig hann lætur, hann fær t.d ekki ís þegar honum hentar þótt ég viti að það myndi kaupa okkur frið. Við getum ekki meira, erum algerlega búin á því og finnst við hafa þvílíkt mistekist með hann. Hvað eigum við að gera?
Kæra úrvinda móðir! Ráðgjöf sem foreldrar fá úr umhverfinu sem eiga tvö, þrjú eða fleiri börn, og eitt þeirra hagar sér eins og hrafnsungi í lóuhreiðri, er yfirleitt vel meint en það er einmitt stundum gert ráð fyrir því að þessi hegðun barnsins sé vegna mistaka ykkar í uppeldinu. Og svo koma gjarna ráð eins og : „Hefur þú prófað að taka af honum allt glúten, mjólkurvörur (eða bara einhverja eina fæðutegund) út úr fæðunni hjá barninu? Passar þú að hann fái nægan svefn? Ertu búin að prófa sítrónuvatn og kókosolíu? Og þar fram eftir götunum. Ráð af þessu tagi eru vel meint en staðreyndin er hins vegar sú að það er sjaldnast eitthvað eitt sem orsakar svona erfiða hegðun. Þarna um flókið samspil þar sem erfðir og umhverfi spila saman. Ekki láta hugfallast þótt ég segi „flókið“ það samt heilmikið sem hægt er að gera.
Það mikilvægast af öllu að þið missið ekki kjarkinn og farið að efast um færni ykkar sem foreldrar. Þið eruð hæfir og góðir foreldrar sem greinilega viljið gera ykkar besta. Það er svo krefjandi og erfitt þegar okkur finnst við ekki ráða við hegðun barnsins okkar, bara sú hugsun og tilfinning getur haft mikil áhrif, þess vegna þurfið þið að ríghalda í sjálfstraustið og styðja hvort annað.
Lýsing ykkar á drengnum gefur vísbendingar um að hér sé á ferð öflugur snúður, sem er fylgin sér og óhræddur við að gera kröfur á umhverfið sitt. Allt saman góðir mannkostir sem þarf að rækta og beina í farvegi sem ekki hafa neikvæð áhrif á lífsgæði hans. Svona öflugir orkuboltar geta samt oft þreytt alla í kringum sig og þá byrjum við oft að hugsa hvernig við getum komið í veg fyrir næsta æðiskast og fyrr en varir er öll fjölskyldan farin að breyta hegðun sinni í takt við líðan eða hegðunar einhvers eins á heimilinu. Það viljum við ekki! Hvorki ykkar vegna og alls ekki hans vegna. Uppeldi snýst um daginn í dag en ekki síður hvar við viljum sjá krílin okkar eftir 5, 10, 15 eða 50 ár.
Almenn ráð væri að takast á við eina hegðun í einu, þ.e. byrja t.d. á morgunmatnum, hunsa óæskilega hegðun, grípa hann „góðan“ og vera samtaka í einu og öllu. Reyna að horfa hlutlaust á hegðunina og muna að hún beinist ekki að ykkur sem einstaklingum heldur vill ungi ákveðni herrann fá ís í morgunmat hvað sem tautar og raular.
Þessi almenna ráðgjöf virkar vel á flest börn, en stundum þarf meira til. Í ykkar tilfelli tel ég svo vera og mæli eindregið með að þið sækið ykkur faglegan stuðning. Í því felst oft þetta misskylda hugtak „greining“. Þið hafið sjálfsagt heyrt eða lesið um „börn með greiningu“. Sannleikurinn er sá að ef þú ert með heila þá ertu með greiningu, þ.e. allir eru með einhverjar greiningu ef út í það er farið. Styrkleikur okkar felst í fjölbreytninni og þeirri staðreynd að enginn heili er nákvæmlega eins. Greining einstaklings má líkja við þá greiningu sem við gerum þegar við kaupum tölvu. Hvaða tegund er þetta, hvaða forrit eru í henni, hvernig er vinnsluminnið og vinnsluhraðinn? Kannski er kúturinn ykkar með „mac“ heila í „pc“ fjölskyldu. Margar skipanir virka eins en alls ekki allar. Sum börn bregðast milu betur við sjónrænum fyrirmælum en munnlegum og hjá sumum eru munnleg fyrirmæli bara bending eða „cue“ fyrir mótþróa. Þið þurfið að vita hvernig heilinn hjá snúðnum ykkar virkar og hvaða leiðir henta honum best í öllu uppeldi og námi. Þannig náum við því besta fram í honum. Annað væri næstum eins og að velja sér síma eða tölvu með lokuð augun og gera svo kröfur um sömu virkni og hjá síðasta síma/tölvu.
Fagleg aðstoð getur líka þýtt að sækja uppeldisnámskeið. Ef þið ættuð hund og mynduð ekki sækja hegðunarnámskeið myndu margir hnykla brýrnar og hnussa yfir því að þið vilduð ekki tileinka ykkur faglega ráðgjöf sérfræðinga. En ég verð því miður enn vör við að fólk telji uppeldisnámskeið frekar ósmart og ónauðsynleg. Eins og það sé auðvelt að takast á við uppeldi barna í dag í þessu endalausa upplýsingaflæði, hraða og áreiti?! Uppeldisnámskeið eru dásamleg og gefandi. Ekki síst vegna þess að þar fáum við oft staðfestingu á að við séum á réttri leið. Ég mæli alltaf með námskeiðinu „Uppeldi sem virkar, færni til framtíðar“ sem Dr. Gyða Haraldsdóttir sálfræðingur á Þroska- og hegðunarstöð innleiddi. Námskeiðin eru haldin víða bæði á vegum Heilsugæslu og sveitarfélaga. Þessi námskeið eru frábær og í raun lífstílsnámskeið, þar sem áhersla er á styrkleika barnsins og fjölskyldunnar, skipulag uppeldis, samtakamátt foreldra og hvernig þessir þættir nýtast okkur ekki bara í uppeldi heldur flestum daglegum athöfnum.
Þið getið líka leitað til heilsugæslunnar, á þjónustumiðstöðina í ykkar hverfi og svo eruð þið auðvitað líka velkomin hingað á SÓL.
___________________________________________________
Spurningum sem berast Fjölskyldunni á mbl.is svarar SÓL sálfræði- og læknisþjónusta en þar starfar hópur fagfólks sem leggur metnað sinn í að veita börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra góða þjónustu. Nánari upplýsingar á www.sol.is