Þetta hefði ekki þurft að gerast

Horft fram á veginn. Hafrún Anna Sigurbjörnsdóttir og Óskar Veturliði …
Horft fram á veginn. Hafrún Anna Sigurbjörnsdóttir og Óskar Veturliði Sigurðsson vilja segja söguna í von um að það fyrirbyggi svipuð atvik í framtíðinni. Haraldur Jónasson/Hari

„Stórt gapandi sár á milli augna og upp á næst­um mitt enni. Virðist vanta húðflipa í. Tveggja cm sár á of­an­verðri hægri kinn. Djúp­ir skurðir við gagn­augu beggja vegna. Bit á hægri fram­hand­legg. Bit í vinstri lófa. Sár niður með nefrót beggja vegna. Tveggja cm sár vinstra meg­in á enni. Er í upp­námi og end­ur­tek­ur að hann sé of lít­ill til að deyja núna.“

„Þegar ég tók hjálminn af honum blasti við mér stórt …
„Þegar ég tók hjálm­inn af hon­um blasti við mér stórt gapandi sár frá miðju enni og niður að nefrót þannig að sást í höfuðkúp­una. Það vantaði stórt stykki í and­litið á barn­inu og þaðan fossaði mesta blóðið,“ rifjar Hafrún, móðir Sólons, upp. Ljós­mynd/​Aðsend

Þetta er meðal þess sem kem­ur fram í færsl­um um Sólon Brimi, fimm ára gaml­an dreng í Kópa­vogi, sem ritaðar voru í sjúkra­skrá hans á bráðamót­töku Land­spít­al­ans síðdeg­is föstu­dag­inn langa í ár, skömmu eft­ir að hann varð fyr­ir árás hunds ná­granna síns. Sólon litli, sem reynd­ar er nú orðinn sex ára, hef­ur þegar farið í þrjár aðgerðir í and­liti, með svæf­ingu, fyr­ir hon­um ligg­ur að fara í a.m.k. jafn­marg­ar til viðbót­ar og hann er enn að fást við ýms­ar af­leiðing­ar árás­ar­inn­ar, ekki síst sál­ræn­ar.

„Við erum ein­fald­lega óend­an­lega ham­ingju­söm yfir því að ekki fór verr,“ segja móðir hans og stjúp­faðir Hafrún Anna Sig­ur­björns­dótt­ir og Óskar Vet­urliði Sig­urðsson. Hjón­in segj­ast hvorki vera reið né bit­ur út í neinn vegna árás­ar­inn­ar og vilja segja sögu Sólons í von um að það fyr­ir­byggi svipuð at­vik.

Hálf­gert ísk­ur, síðan ösk­ur

Þau höfðu um skeið haft áhyggj­ur af ógn­andi hegðun hunds­ins, sem var af Alask­an Malamu­te-kyni. Þau segja að marg­ir í ná­grenn­inu hafi haft var­ann á sér gagn­vart hund­in­um, hann hafi virst vera eft­ir­lits­laus í ógirt­um garði, tjóðraður við ketil­bjöll­ur, sem hann ætti auðveld­lega að geta dregið á eft­ir sér. Þá hafði hund­ur­inn margoft verið laus í hverf­inu og vakið ótta bæði full­orðinna og barna.

Þenn­an dag, 30. mars síðastliðinn sem var föstu­dag­ur­inn langi, voru hjón­in heima við ásamt ætt­ingj­um sín­um. Hafrún var barns­haf­andi, hún var kom­in tíu daga fram yfir og til stóð að hún færi á fæðing­ar­deild­ina þar sem setja átti hana af stað. Óskar og bróðir Hafrún­ar fóru út til að dytta að og Sólon fór með, enda ein­stak­lega gott veður þenn­an dag. „Hann vildi líka vinna eins og við og setti vatn í litl­ar hjól­bör­ur sem hann keyrði um alla lóð. Við ætluðum síðan út að hjóla og ég sagði hon­um að setja hjálm­inn á sig. Við mág­ur minn sett­umst aðeins út í sól­ina og þá heyrði ég skrýtið hljóð. Hálf­gert ísk­ur, síðan fylgdu há­vær ösk­ur frá Sóloni. Þetta var þannig hljóð að ég vissi að eitt­hvað mikið var að,“ seg­ir Óskar.

„Sólon litli er of lít­ill til að deyja“

Hafrún sat á efri hæð húss­ins ásamt móður sinni þegar hún heyrði að Sólon kom inn og að hann gaf frá sér ein­kenni­legt hljóð. „Ég sá and­litið á hon­um í spegli í and­dyr­inu og ég trúði ekki því sem ég sá. Það fyrsta sem mér datt í hug var að hann hefði dottið á hjól­inu. Ég hljóp niður og þar var blóð úti um allt. Hann var með hjóla­hjálm­inn, and­litið þakið blóði og hend­urn­ar blóðugar. Þegar ég tók hjálm­inn af hon­um blasti við mér stórt gapandi sár frá miðju enni og niður að nefrót þannig að sást í höfuðkúp­una. Það vantaði stórt stykki í and­litið á barn­inu og þaðan fossaði mesta blóðið. Ég sá ekki í fyrstu hvort það væri í lagi með aug­un á hon­um og ég spurði hann aft­ur og aft­ur; hvað gerðist, hvað gerðist?“ seg­ir Hafrún. „En hann gat engu svarað. Ég spurði hann; Beit hund­ur­inn þig? og þá kinkaði hann kolli, fékk þá málið og sagði aft­ur og aft­ur: „Ég er of lít­ill til að deyja. Ég er of lít­ill til að deyja. Sólon litli er of lít­ill til að deyja. Þetta end­ur­tók hann í sí­fellu, líka eft­ir að hann var kom­inn í sjúkra­bíl­inn.“

Kátur og kraftmikill. Sólon litli hefur staðið sig einstaklega vel …
Kát­ur og kraft­mik­ill. Sólon litli hef­ur staðið sig ein­stak­lega vel eft­ir árás­ina, en tím­inn verður að leiða í ljós hvort hann nær sér að fullu. Har­ald­ur Jónas­son/​Hari

Leitaði að hlut­an­um sem hund­ur­inn beit úr and­lit­inu

Hafrún fór með Sóloni í sjúkra­bíl á sjúkra­húsið en Óskar varð eft­ir til að taka á móti lög­regl­unni. Blóðslóð lá frá staðnum þar sem hund­ur­inn réðst á Sólon og að heim­il­inu og hann fór að leita að hlut­an­um sem hund­ur­inn beit úr and­lit­inu, en fann hann ekki. „Ég vildi láta eig­end­urna vita hvað hefði gerst, fór að hús­inu og var dauðhrædd­ur við hund­inn. En hann sat þarna hinn ró­leg­asti, ég hafði aldrei séð hann jafn­ró­leg­an,“ seg­ir Óskar. Eng­inn svaraði á heim­il­inu þegar hann knúði dyra, ekki náðist í hunda­eft­ir­lits­mann til að fjar­lægja hund­inn og þá ákvað lög­regl­an að kalla til sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra. Óskar sendi eig­end­um hunds­ins skila­boð um hvað gerst hafði og komu þeir skömmu síðar.

Hund­in­um var lógað nokkr­um dög­um síðar.

Þakk­lát fyr­ir hlýhug

Sólon fór strax í aðgerð þar sem hægt var að loka flest­um sár­um hans, en ekki því stærsta. Það var ekki hægt fyrr en fimm dög­um síðar þegar hann fór í aðgerð þar sem tek­inn var húðflipi fyr­ir aft­an eyrað á hon­um og hann saumaður á ennið og á milli augn­anna. Í frétt mbl.is þann 3. apríl af árás­inni kom m.a. fram að 80 spor hefðu verið saumuð í and­lit Sólons en Óskar seg­ir að þau séu lík­lega tals­vert fleiri, lík­lega vel á annað hundrað, þegar allt er talið sam­an. Þau fengu ekki að vita fyrr en að lok­inni fyrri aðgerðinni, seint um kvöldið, að hægra augað í hon­um væri óskemmt og heilt. „Það var mik­ill létt­ir, ég get ekki lýst því,“ seg­ir Hafrún.

Áverkar Sólons eftir árásina.
Áverk­ar Sólons eft­ir árás­ina. Ljós­mynd/​Aðsend

Hjón­in bera öllu starfs­fólki Land­spít­al­ans afar góða sög­una. Komið hafi verið fram við bæði Sólon og þau af ein­stakri nær­gætni og fag­mennsku. Það sama segja þau um starfs­fólk Sól­hvarfa, leik­skóla Sólons og í Vatns­enda­skóla þar sem Eldon, eldri bróðir hans, er í 2. bekk og Sólon mun hefja þar nám í haust. „Það er al­veg ein­stakt hvað fólk hef­ur verið gott við okk­ur. Fjöl­marg­ir úr ná­grenn­inu hafa komið til okk­ar, sumt er fólk sem við þekkt­um lítið sem ekk­ert, til að óska Sóloni góðs bata og bjóða okk­ur aðstoð sína. Það er al­veg ótrú­lega fal­lega gert,“ segja þau með þakk­læti.

Hjólahjálmurinn sem Sólon bar þegar hann varð fyrir árásinni.
Hjóla­hjálm­ur­inn sem Sólon bar þegar hann varð fyr­ir árás­inni. Ljós­mynd/​Aðsend

Báðu um að at­vikið yrði skoðað

Tveim­ur og hálf­um mánuði fyr­ir árás­ina á Sólon réðst hund­ur­inn á póst­b­urðarmann. Hann beit í hand­legg­inn á hon­um til blóðs í gegn­um úlpu þannig að hún rifnaði. Hann læsti lykla sína inni í bíl sín­um, sem var í gangi og leitaði til Hafrún­ar og Óskars sem buðu hon­um inn á meðan hann beið eft­ir neyðarþjón­ustu til að opna bíl­inn.

Sama dag til­kynntu þau at­vikið til Heil­brigðis­nefnd­ar Hafn­ar­fjarðar- og Kópa­vogs­svæðis­ins (HHK) sem ber ábyrgð á hunda­eft­ir­liti á svæðinu. Þar var þeim tjáð að þau gætu ekki lagt fram nafn­lausa til­kynn­ingu, hún yrði að vera und­ir fullu nafni þess sem til­kynn­ir, þau gætu ekki til­kynnt hunds­bit fyr­ir ann­an aðila og ekki væri hægt að til­kynna ógn­andi hegðun hunda. Ef þau vildu að eitt­hvað yrði gert, þá yrðu þau að kæra fyr­ir dýr­aníð. „Okk­ur fannst það full­mikið. Við viss­um ekk­ert um hvort hund­ur­inn sætti illri meðferð eða ekki og leið eins og við vær­um að klaga ná­granna okk­ar fyr­ir eitt­hvað sem við viss­um ekk­ert um. Þannig að við báðum um að at­vikið yrði skoðað. Það var ekki gert og núna sjá­um við eft­ir því að hafa ekki farið lengra með málið,“ seg­ir Hafrún.

Á sjúkrahúsi.
Á sjúkra­húsi. Ljós­mynd/​Aðsend

„Þarna var HHK látið vita af þessu og kaus að gera ekki neitt. Hvers vegna var ekki a.m.k. komið á staðinn og aðstæður hunds­ins kannaðar?“ spyr Óskar.

Um miðjan síðasta mánuð sendu Óskar og Hafrún er­indi til HHK þar sem þau lýstu von­brigðum sín­um með að ekki hefði verið brugðist við því þegar þau létu vita af árás­inni á póst­b­urðar­mann­inn. Þau spyrja þar enn­frem­ur hvort það, að starfsmaður HHK hafi látið hjá líða að til­kynna um at­vikið, hafi verið brot á ákvæði í lög­um um vel­ferð dýra sem kveður á um til­kynn­inga­skyldu þegar grun­ur leik­ur á að dýr sæti illri meðferð. Enn­frem­ur lýsa þau yfir undr­un sinni á því að þeim hafi ekki verið sagt, þegar þau til­kynntu árás­ina á póst­inn, að þau gætu haft sam­band við MAST í til­vik­um sem þess­um og lagt þar inn nafn­lausa ábend­ingu.

Óljóst hvernig ferlið virk­ar

Fyr­ir tveim­ur vik­um sendu hjón­in er­indi til MAST þar sem þau óskuðu eft­ir upp­lýs­ing­um um hvort stofn­un­inni hefði verið til­kynnt um árás­ina á póst­b­urðar­mann­inn. „Ef MAST vissi af þessu máli, hvað gerði MAST í því?“ seg­ir í er­ind­inu. Þar er enn­frem­ur spurt um hvað stofn­un­in geri þar sem um skýr brot á lög­um um vel­ferð dýra sé að ræða, sér­stak­lega því ákvæði þeirra sem kveður á um til­kynn­inga­skyldu þegar grun­ur leik­ur á að dýr sæti illri meðferð. „Það virðist samt eng­in til­kynn­inga­skylda eða brot á lög­um ef hund­ur ræðst á fólk eða önn­ur dýr,“ segja þau.

Ásökuðu sjálf sig

Eft­ir at­vikið með póst­b­urðar­mann­inn sögðust eig­end­ur hunds­ins ætla að halda hund­in­um inn­an­dyra þangað til þau myndu reisa girðingu fyr­ir hann á lóðinni. „Það var því miður ekki gert,“ seg­ir Óskar. Í skýrslu lög­reglu sem gerð var eft­ir árás­ina á Sólon er haft eft­ir eig­anda hunds­ins að „aldrei fyrr hafi slíkt at­vik komið upp með hund­inn og hann hafi aldrei sýnt slíka hegðun áður“. Póst­b­urðarmaður­inn sagði í viðtali við Vísi.is að hann hefði ekki viljað til­kynna at­vikið til lög­reglu, því hann hefði ekki viljað valda því að hund­ur­inn yrði tek­inn af eig­and­an­um. Hann sagðist sjá mikið eft­ir því og sagði enn­frem­ur að eig­andi hunds­ins hefði ekki bætt sér úlp­una sem rifnaði og sagt að hann gæti sjálf­um sér um kennt vegna þess að hann hefði stigið ofan á hund­inn og að það hefði verið hunda­lykt af hon­um sem hefði æst hund­inn.

Á batavegi. Sólon fór í aðgerð þar sem húðflipi var …
Á bata­vegi. Sólon fór í aðgerð þar sem húðflipi var tek­inn fyr­ir aft­an eyra hans og saumaður á enni og á milli augn­anna. Har­ald­ur Jónas­son/​Hari

Hafrún seg­ir að þau hjón­in hafi farið í gegn­um tíma­bil þar sem þau ásaki sjálf sig fyr­ir at­vikið. „Þeir einu sem við höf­um verið reið út í erum við sjálf,“ seg­ir hún. „Af hverju vor­um við ekki ákveðnari þegar við hringd­um fyrst í hunda­eft­ir­litið? Af hverju gúggluðum við ekki þessa hunda­teg­und – þá hefðum við vitað að sums staðar eru þess­ir hund­ar bannaðir og með þekkta árás­ar­hegðun? Við höf­um farið í gegn­um þenn­an dag ótal sinn­um, skipu­lagt hann upp á nýtt í hug­an­um og alltaf verið ein­hvers staðar ann­ars staðar þenn­an dag en heima með Sólon. En það er ekki hægt. Þetta gerðist,“ seg­ir Hafrún.

„Það leik­ur eng­inn vafi á að það var ekki nægi­legt eft­ir­lit með dýr­inu og það virðist ekki vera nokk­urt eft­ir­lit með því hvernig fólk hugs­ar um hund­ana sína og aðbúnaði þeirra. Þetta var ekki slys, þetta var árás sem hefði vel verið hægt að koma í veg fyr­ir ef öll­um regl­um hefði verið fylgt. Sam­kvæmt reglu­gerðum um hunda­hald eiga hund­ar, sem hafa bitið, að vera með múl og eng­inn hund­ur á að vera laus. Ég held að ef hund­ur­inn hefði ekki bitið Sólon hefði hann bitið ein­hvern ann­an. Hver ber ábyrgðina? Er það eig­and­inn sem veit að hund­ur­inn hef­ur bitið mann? Eða er það heil­brigðis­eft­ir­litið sem hef­ur lítið sem ekk­ert eft­ir­lit með hunda­haldi fólks? Það er til bann­listi með til­tekn­um hunda­teg­und­um – hvað þarf hunda­teg­und eig­in­lega að gera til að vera á þeim lista? Þetta and­vara­leysi kostaði hund­inn lífið og varð barn­inu okk­ar að heilsutjóni.“

Af hverju er ég með sár?

Fyrstu dag­ana eft­ir árás­ina var Sólon í miklu áfalli og á milli svefns og vöku. Hann spurði ít­rekað: Af hverju er ég með sár? Af hverju er ég bara með eitt auga? en eft­ir aðgerðina var annað augað al­veg lokað. Hann var á sterk­um verkjalyfj­um og fór í tvær aðgerðir með svæf­ingu með skömmu milli­bili. Spurð um hvort eða hvernig þau ræði árás­ina við hann segj­ast Hafrún og Óskar hafa tekið þá ákvörðun að leyfa hon­um að ráða ferðinni í þeim efn­um. Hann hef­ur af og til átt frum­kvæði að því að ræða árás­ina við þau en einnig við ókunn­uga sem hann hitt­ir á förn­um vegi. „Stund­um finnst hon­um óþægi­legt að tala um þetta, því hon­um finnst þetta þá vera að ger­ast aft­ur,“ seg­ir Óskar.

Martraðir um hunda og ketti

Þau segja dreng­inn vera ein­stak­lega skap­góðan og létt­an í lund, kát­an og kraft­mik­inn, og að þeir eig­in­leik­ar hafi fleytt hon­um yfir mestu erfiðleik­ana. Hann hef­ur, að sögn móður sinn­ar og stjúp­föður, staðið sig ein­stak­lega vel eft­ir árás­ina, en tím­inn muni leiða í ljós hvort hann nær sér ein­hvern tím­ann að fullu. Hann finn­ur oft fyr­ir tals­verðum sárs­auka í sár­un­um, sér­stak­lega á svæðinu á milli augn­anna þar sem húðin var grædd á, því þar er ekk­ert fitu­lag und­ir húðinni. Þau segja líka ým­is­legt benda til þess að lykt­ar­skyn hans hafi breyst.

Spurð um and­legu líðan­ina segja þau að áhersla hafi verið lögð á það frá byrj­un að þau fengju öll áfalla­hjálp og að Sólon hafi rætt við sál­fræðing. „Þetta hef­ur haft gríðarleg áhrif á hann,“ seg­ir Hafrún. „Það hef­ur orðið mik­il per­sónu­leika­breyt­ing, hann fær oft martraðir um að hund­ur sé að bíta hann eða borða hann, kött­ur að klóra hann eða ein­hver að skera hann. Fyrst eft­ir árás­ina mátt­um við ekki koma við hann, hann get­ur ekki verið einn, hann er miklu háðari okk­ur en áður og elt­ir okk­ur um allt eins og skugg­inn. Um dag­inn lagði krakki hönd­ina yfir and­litið á hon­um og hann bók­staf­lega tryllt­ist af hræðslu; grét og grét, svitnaði og fölnaði. Hann er gríðarlega viðkvæm­ur fyr­ir því að fá eitt­hvað yfir and­litið á sér.“

„Ég hélt að hann væri vin­ur minn“

Sólon hef­ur kom­ist í kynni við all­nokkra hunda í gegn­um tíðina, t.d. eiga afi hans og amma hunda sem hon­um þykir afar vænt um og tal­ar gjarn­an um sem systkini sín. Eft­ir árás­ina hef­ur hann haldið sig til hlés í návist hunda og það sama á reynd­ar við um for­eldra hans. „Hann hef­ur sagt um árás­ar­hund­inn: Ég hélt að hann væri vin­ur minn,“ seg­ir Óskar. „Ég veit ekki hvers vegna hann beit mig. En tím­inn verður bara að leiða í ljós hvernig hans viðhorf til hunda verða í framtíðinni.“

Lít­ill gleðigjafi

Fjór­um dög­um eft­ir árás­ina fædd­ist þeim Hafrúnu og Óskari son­ur. Reynd­ar var hún hálfpart­inn kom­in af stað í fæðingu hinn 30.3., en við árás­ina datt það ferli niður og fór ekki af stað fyrr en ljóst varð að Sólon væri hólp­inn. „Ég hef fengið þá skýr­ingu að adrenalínið, sem bók­staf­lega flæddi þegar þetta gerðist, hafi stöðvað allt fæðing­ar­ferlið,“ seg­ir Hafrún. „Ég sat við sjúkra­rúmið hans Sólon­ar þegar ég fann að þetta var að fara aft­ur af stað og sagði við hann að ég þyrfti að fara frá hon­um því ég væri að fara að fæða barnið.“

Sólon þurfti að vera heima við í nokkr­ar vik­ur eft­ir árás­ina og fór ekki á leik­skól­ann um skeið og var litli bróðir­inn hon­um sann­kallaður gleðigjafi.

Mun bera ör alla ævi

Núna er málið í þeim far­vegi að lög­regla skoðar hvort til­efni sé til að leggja fram kæru á hend­ur eig­anda hunds­ins. Sólon er með rétt­ar­gæslu­mann sem gæt­ir hags­muna hans, sem er að öllu jöfnu venja þegar börn eiga í hlut, og eru mál­efni drengs­ins í hans hönd­um.
Hafrún og Óskar segja að það sé mik­ill létt­ir að koma mál­inu í þetta ferli þannig að sér­hæfður aðili geti gætt hags­muna Sólons. „Sem bet­ur fer fór ekki verr, gró­and­inn er ótrú­lega hraður en samt mun hann bera ör í and­liti alla ævi,“ seg­ir Óskar.

Har­ald­ur Jónas­son/​Hari

Hafrún og Óskar segja að það sem fjöl­skyld­an hafi gengið í gegn­um und­an­farn­ar vik­ur hafi svo sann­ar­lega verið gríðar­stórt verk­efni. „Við ger­um okk­ur líka grein fyr­ir að það er svo margt sem get­ur gerst í lífi fólks, margt svo miklu verra en þetta. En stóra málið er að þetta hefði ekki þurft að ger­ast ef það hefði verið brugðist rétt við frá upp­hafi.“

Bit sem skaða ætti alltaf að til­kynna lög­reglu

Fólk fær sér stóra hunda og ger­ir sér enga grein fyr­ir því hvað það er með í hönd­un­um. Það er vís leið til óhappa. Þetta seg­ir Björn Ólafs­son hunda­at­ferl­is­fræðing­ur. „Hvolp­ar eru svo hrylli­lega sæt­ir, fólk fell­ur fyr­ir þeim og átt­ar sig ekk­ert á hvernig hund­ur­inn verður þegar hann verður stór,“ seg­ir Björn sem seg­ir að allt of fáir fari á hlýðni­nám­skeið með hunda sína eða kynni sér reglu­gerðir um hunda­hald.
Hann seg­ir að reglu­gerðir um hunda­hald séu nokkuð mis­mun­andi á milli sveit­ar­fé­laga. T.d. kveði samþykkt um hunda­hald í Reykja­vík á um að af­lífa megi hund eft­ir að hann hafi bitið eða valdið öðrum skaða í tvígang. „En það geng­ur illa að fylgja þessu eft­ir,“ seg­ir Björn. „Það er lík­lega vegna þess að við erum svo fá og það vill eng­inn valda því að hund­ur sé tek­inn af fólki.“
Að mati Björns ætti alltaf að til­kynna það til lög­reglu þegar hund­ur bít­ur þannig að hann valdi skaða. Stór­ir og sterk­ir hund­ar sem hafi verið „tals­vert í tísku“ valdi eðli­lega meiri skaða en litl­ir hund­ar. Hann seg­ir að þetta snú­ist fyrst og síðast um eig­and­ann og viðhorf hans. „Hundi sem bít­ur er viðbjarg­andi ef hann er í rétt­um hönd­um. Það er mik­il vinna að vinda ofan af svona vanda­máli, þegar hund­ur er kom­inn í þessa stöðu þarf stöðugt að fylgj­ast með hon­um og það er ekki á allra færi,“ seg­ir Björn og vís­ar í rann­sókn sem gerð var í Bretlandi meðal 17.000 eig­enda hunda sem höfðu bitið. „Það kom öll­um jafn mikið á óvart að hund­ur­inn þeirra hefði gert þetta og fáir trúðu þessu upp á hann,“ seg­ir Björn.

Hægt að koma í veg fyr­ir ýmis vanda­mál

Hann seg­ir að margt geti valdið því að hund­ar bíti. Ein þekkt ástæða sé þegar þeir séu skild­ir eft­ir tjóðraðir og eft­ir­lits­laus­ir og þá finn­ist þeim þeir þurfa að gæta húss­ins, þeir hafi ekki flótta­leið og finn­ist þeir þurfa að verja sig. Það auki á hætt­una ef þeir eru með bein eða eitt­hvert leik­fang hjá sér, því þá þurfi þeir að passa það líka. „Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á að fólk kynni sér hunda­teg­und­ina sem það ætl­ar að fá sér áður en það læt­ur til skar­ar skríða. Þannig er hægt að koma í veg fyr­ir ýmis vanda­mál og slys,“ seg­ir Björn.

Telja sig hafa brugðist rétt við

Á vefsíðu Heil­brigðis­eft­ir­lits Hafn­ar­fjarðar- og Kópa­vogs­svæðis, HHK seg­ir að eft­ir­litið fylgi eft­ir ábend­ing­um sem ber­ist um að ekki sé staðið við sett skil­yrði um hunda­hald.
Guðmund­ur H. Ein­ars­son, fram­kvæmda­stjóri HHK, seg­ir það vera sitt mat að eft­ir­litið hafi brugðist við sam­kvæmt hlut­verki sínu í þessu til­tekna máli. Hann hafi sjálf­ur svarað í sím­ann þegar áður­nefnt sím­tal barst. Þar hafi viðmæl­and­inn verið að leita sér upp­lýs­inga um hvernig bregðast mætti við ónæði frá hundi en til­efnið hafi verið árás­in á póst­b­urðar­mann­inn. Niðurstaðan hafi orðið sú að sá sem hringdi hafi fyrst viljað freista þess að ræða við ná­grann­ann. Póst­b­urðarmaður­inn hafi ekki haft sam­band sjálf­ur. „Við hjá HHK vor­um til­bú­in að skoða málið, en við get­um ekki fundið upp á sjálf að vinna í mál­um þvert á vilja þess sem fyr­ir þeim verða,“ seg­ir Guðmund­ur.

Eft­ir­lits­hlut­verk heil­brigðis­eft­ir­lits­ins lítið

Spurður hvert fólk eigi að snúa sér verði það fyr­ir hunds­biti, seg­ir hann að hafa eigi sam­band við lög­reglu. „Þegar slíkt ger­ist á hinn al­menni borg­ari að hringja í 112 rétt eins og í öðrum bráðatil­fell­um og ef nálg­ast þarf hund sem er brjálaður er það lög­reglu­mál. Lög­regla er viðbragðsaðili, við erum það ekki og höf­um í raun­inni eng­ar heim­ild­ir til þess.“ Guðmund­ur seg­ir að lög­reglu sé ekki skylt að láta HHK vita um slík­ar til­kynn­ing­ar en það ger­ist oft.

En hvert er þá eft­ir­lits­hlut­verk HHK varðandi hunda­hald? „Það er satt best að segja lítið og snýr fyrst og fremst að holl­ustu­hátt­um og ónæði. Hund­um fjölgaði tals­vert fyr­ir nokkr­um árum og við höf­um ekki fjölgað starfs­mönn­um í sam­ræmi við þessa fjölg­un.“

Á vefsíðu HHK er listi yfir þá hunda sem bannað er að halda í um­dæmi eft­ir­lits­ins. Þar eru m.a. Pitbull Terrier, blend­ing­ar af úlf­um og hund­um og nokkr­ar teg­und­ir veiði- og árás­ar­hunda. Spurður hvort til greina hafi komið að bæta teg­und­inni Alask­an malamu­te á list­ann í ljósi þess að hund­ar þess­ar­ar teg­und­ar hafa ráðist á og bitið a.m.k. þrjá ein­stak­linga á und­an­förn­um mánuðum seg­ir Guðmund­ur það ekki vera á valdsviði eft­ir­lits­ins, held­ur sé það Mat­væla­stofn­un­ar, MAST, að ákveða það.

Frá MAST feng­ust þær upp­lýs­ing­ar að stofn­un­inni hefðu ekki borist nein­ar upp­lýs­ing­ar um þetta til­tekna at­vik frá HHK. Einu upp­lýs­ing­arn­ar sem MAST hefði um at­vikið hefði stofn­un­in fengið úr um­fjöll­un fjöl­miðla. Léki ein­hver grun­ur á því að aðbúnaður eða meðferð dýra væri ekki í sam­ræmi við lög bæri að til­kynna það til stofn­un­ar­inn­ar. „En þegar hund­ur bít­ur fólk á ekki að til­kynna það til okk­ar, held­ur til lög­reglu eða viðkom­andi heil­brigðis­eft­ir­lits,“ seg­ir í svari MAST.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda