Danska verslunarkeðjan Bilka hefur hætt sölu á stuttermabol með áletruninni „Girls don't shout“ eða „stúlkur hrópa ekki“ eftir mikla gagnrýni.
Í frétt danska ríkisútvarpsins um málið segir að bolurinn hafi verið kynntur til sögunnar í tilboðsbæklingi keðjunnar í þessari viku. Þar mátti sjá unga stúlku klæðast honum en við hlið hennar stendur drengur í bol með áletruninni „ready set go!“ eða „viðbúinn, tilbúinn, nú!“ Einnig má sjá mynd af öðrum pilti í bol sem á stendur: „Are you ready“ eða „ertu tilbúinn?“
Fjölmargir létu í sér heyra og fannst verslunin ekki vera að senda börnum uppbyggileg skilaboð. Var jafnvel hvatt til þess að verslunin yrði sniðgengin.
Framkvæmdastjóri hjá Bilka segir í samtali við BT að áletranirnar séu aðeins hugsaðar sem skreyting á bolina. „En ef viðskiptavinir eða aðrir sjá þetta sem óviðeigandi skilaboð eða móðgandi þá hörmum við það.“
Hann segir það ekki hafa verið ætlun Bilka að móðga neinn og því hafi sölu stúlkubolsins verið hætt.