Jack lenti hjálmlaus í reiðhjólaslysi

Röngtenmynd af höfuðáverkum Jacks litla
Röngtenmynd af höfuðáverkum Jacks litla Ljósmynd/skjáskot

Bresk lögreglukona varar fólk við að sleppa reiðhjólahjálmi eftir að hafa haldið á alblóðugum 13 ára gömlum dreng í fangi sínu fyrr í sumar, eftir að hann féll af reiðhjóli án hjálms, og var nær dauða en lífi.

Karen Stanton fann Jack Riley liggjandi á götunni meðvitundarlausan og með verulegar blæðingar eftir að hafa fallið af hjóli sínu hjálmlaus á töluverðri ferð. Flogið var með hann í skyndi á sjúkrahús í þyrlu með alvarlega áverka á höfuðkúpu og hrygg. Hinn ungi reiðhjólamaður, sem býr í Hemsworth í Jórvíkurskíri, lifði sem betur fer þessa þrekraun af en Karen ákvað að deila lífsreynslu sinni og vangaveltum með stuðningi móður Jacks, Vicki Riley, til að auka meðvitund um mikilvægi hjólahjálma og þá staðreynd að þeir geta bjargað mannslífum.

Karen hefur starfað sem lögreglukona í 16 ár og segir hún á innleggi sínu á Facebook að áverkar drengsins hefðu klárlega verið minni hefði hann notað hjálm og bætir við að innleggið sé ekki hugsað sem gagnrýni á foreldra heldur miklu frekar mikilvæg áminning til þeirra.

Hún fór út með dóttur sinni eftir 10 tíma vakt þegar hún rakst á Jack í blóði sínu, eitthvað sem hún lýsir sem verstu martröð allra foreldra. Hún áttaði sig á að hún var fyrsta manneskjan á vettvang mjög alvarlegs slyss þar sem Jack, sem þá var meðvitundarlaus, féll af hjólinu beint á höfuðið.

Hún segist fyrst hafa brugðist við sem móðir, en eftir að hafa notið aðstoðar konu sem kom aðvífandi og lokaði götunni, hafi lögreglukonan í henni tekið völdin.

Skurðurinn á höfði Jacks eftir aðgerðina.
Skurðurinn á höfði Jacks eftir aðgerðina. Ljósmynd/skjáskot

„Ég reyndi eftir bestu getu að sannfæra vini Jacks og bílstjóra sendilbíls sem hafði stoppað að Jack myndi lifa af þó svo ég fyndi fyrir greinilegum höfuðáverkum og óttaðist að hann myndi deyja í höndum mér. Ég talaði til Jacks í 12 mínútur og hvatti hann til að berjast, beið þess að neyðarvarnir líkama hans myndu taka yfir, og passaði upp á að hann myndi ekki hreyfast. Dóttir mín fylgdist með mér í 12 mínútur reyna að bjarga dreng sem hún hafði aldrei séð áður. Loksins komu sjúkraliðar og lögregla, hetjurnar mínar þennan dag. Jack var á lífi þegar ég settist í bílinn minn með hendur mínar alblóðugar en hann var fluttur með þyrlu spítala.“

Karen svaf ekkert eftir slysið og óttaðist hið versta. En hún hafi beðið kollega sína í lögreglunni að halda sér upplýstri um líðan Jacks. Næsta morgun fékk hún þær fréttir að drengurinn var á lífi og að hann hafði farið strax í bráðaaðgerð á höfði og hrygg.

„Hann er á lífi, og það er algert kraftaverk“ skrifaði hún í innleggi sínu á Facebook. „En hann á eftir að feta langan og erfiðan bataveg næstu mánuði.“

Lögreglukonan, sem hefur síðan verið í góðu sambandi við Jack og fjölskyldu hans, hvetur alla foreldra til að skikka börnin sín til að nota hjálm þegar þau hjóla.

„Skikkið börnin og unglingana til að nota hjálma þó þeim finnist það asnalegt. Verið það foreldri sem á barnið í hópnum sem ÞARF að nota hjálm – og leitið leiða til að minnka möguleikann á því að fá samskonar símtal og mamma Jacks, Vicki, sem þurfti að bíða eftir syni sínum í aðgerð án þess að vita hvernig færi.“

Karen Stanton ásamt hetjunni honum Jack sem komst lífs af …
Karen Stanton ásamt hetjunni honum Jack sem komst lífs af frá ótrúlega erfiðum höfuðáverkum. Ljósmynd/skjáskot

Hún segir að það eigi ekki að skipta máli hvort hjálmar séu svalir eða ekki. Ekki heldur rök barna og unglinga eins og „enginn vina minna notar hjálm“. „Þetta eru börnin okkar, augasteinarnir okkar og við verðum að gera allt sem við getum til að vernda þau. Ég get alveg lofað því að engum af vinum Jacks fannst hann vera neitt sérlega svalur þegar hann barðist fyrir lífi sínu í lok júní í vegarkantinum þar sem hann datt.“

Í samtali við Mirror Online segir mamma Jacks, Vicki, að líf hennar hafi hrunið þegar hún fékk símtalið um slysið. Hún tekur undir orð Karenar og segir: „Ekkert foreldri ætti að þurfa að fara í gegnum það sem ég og eiginmaðurinn þurftum að ganga í gegnum sl. 10 daga. Foreldrar eru oft ekki nógu mikið á varðbergi gagnvart öryggi barna sinna og bregðast of oft við bara þegar eitthvað svona skelfilegt gerist. Við höfum heilmikið vald og getum komið í veg fyrir að svona nokkuð gerist. Það þarf bara að vera skylda að vera með hjálm. Bregðist við núna, áður en það er of seint!“ segir Vicki að lokum.

Heimild: Mirror Online

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda