Fræðslunefnd Fjarðabyggðar leggur til að öllum nemendum grunnskóla Fjarðabyggðar verði bannað að mæta með snjallsíma og önnur snjalltæki í skóla nema með sérstöku leyfi skólastjóra.
Forsenda fyrir þessari ákvörðun er að keypt verði fleiri snjalltæki fyrir skólana, til afnota fyrir nemendur í kennslustundum. Miðað er við að breytingin geti orðið í byrjun næsta árs.
Hugmyndin að þessum breytingum kom frá bæjarráði rétt fyrir kosningar í vor. Núverandi bæjarráð tók jákvætt í tillögu fræðslunefndar sem felur í sér bann við snjallsímum í öllum grunnskólunum sveitarfélagsins en málið hefur þó ekki verið afgreitt.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að sérfræðingar Skólaskrifstofu Austurlands telja að snjallsímanotkun barna og ungmenna sé almennt of mikil og að hún geti haft neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra ásamt því að trufla tilfinninga- og félagsþroska.