Leikkonan Keira Knightley opnaði sig um fæðingu dóttur sinnar í bréfi til hennar sem hún skrifar í bókina Feminists Don't Wear Pink. Dóttir Knightley kom í heiminn árið 2015 og gagnrýnir hún meðal annars Katrínu hertogaynju í texta sínum en Katrín, sem eignaðist Karlottu prinsessu einum degi eftir að Knightley eingaðist dóttur sína, er vön að láta mynda sig í sparifötunum nokkrum tímum eftir fæðingu.
„Píkan á mér rifnaði,“ svona hefst lýsing Knightley á fæðingu dóttur sinnar er kemur fram á vefnum Refinery29 en pistill leikkonunnar heitir The Weaker Sex eða Veikara kynið. „Þú komst út með augun opin. Hendur upp í loft. Öskrandi. Þau létu mig hafa þig, alla í blóði, húðfitu, höfuð þitt afmyndað eftir fæðingarveginn. Titrandi, másandi, öskrandi.“
Meðal þess sem Knightley lýsir er fyrsta brjóstagjöfin og er lýsingin ekki sykurhúðuð. Leggur hún áherslu á hversu kvenlíkaminn er ótrúlegur og spyr stórra spurninga. „Þú læstir þig strax á brjóst mitt, ég man sársaukann. Munnurinn krepptist utan um geirvörtuna mína,“ skrifar leikkonan.
„Ég man skítinn, æluna, blóðið, saumana. Ég man vígvöll minn. Vígvöll þinn og hjartslátt. Að lifa af. Er ég veikara kynið? Ert þú?“
Knightley gagnrýnir að Katrín hertogaynja hafi verið komin í fín föt, búin að mála sig og tilbúin í myndatöku aðeins sjö tímum eftir fæðinguna. Tilbúin með andlitið sem heimurinn vill sjá.
„Feldu. Feldu sársauka okkar, líkama okkar rifna, brjóst okkar leka, ofsafengna hormóna okkar. Líttu fallega út. Líttu flott út, ekki sína vígvöll þinn, Katrín. Sjö klukkutímum eftir bardaga upp á líf og dauða, sjö klukkutímum eftir að líkami þinn opnaðist upp á gátt og blóðugt, öskrandi líf kemur út. Ekki sýna. Ekki segja. Stattu þarna með stelpuna þína og láttu taka mynd af þér með fullt af karlkynsljósmyndurum.“
Knightley talar einnig um kynjamisréttið sem hún upplifir í vinnunni. Hún segir að karlmenn geti mætt allt of seint í vinnunna og sleppt því að læra textann sinn. Þeir geti mætt drukknir í vinnuna eða sleppt því að mæta en hún sem kona mæti alltaf á réttum tíma þrátt fyrir að hafa verið vakandi alla nóttina með dóttur sína.
Hún segir að karlmenn geri lítið úr sér og hafi ekki áhuga á að hlusta á sig. Það eina sem hún eigi að gera er að vera falleg og mjó en ekki of mjó, kynþokkafull en ekki of kynþokkafull.