Fyrirmyndir barna eru víða í samfélaginu, sumar hverjar sterkar og góðar en aðrar þannig að foreldrar barna verða vanmáttug og vita ekki hvað þau eiga að gera.
Ég heyrði í foreldri á dögunum sem spurði mig hvort ég hefði séð nýtt myndband með söngkonunni Ariönu Grande. Samtalið var eitthvað á þessa leið:
„Ég er miður mín. Ef þetta er það sem ungar stelpur eru að horfa á í dag, þá erum við í miklum vandræðum. Ég reyndi að horfa á þetta myndband en mér leið eins og ég væri að horfa á eitthvað sem ég ætti ekki að vera að horfa á.
Hvernig ætlum við að útskýra fyrir börnunum okkar, sér í lagi stelpum, að þær þurfa ekki að setja á sig aukaaugnhár til að þess að vera fallegar eða ganga um á hættulega háum skóm til að leggir þeirra líti vel út. Ef þetta er það sem þær eru að horfa á? Ég óttast að dóttir mín verði aldrei hamingjusöm ef þetta er ein af hennar aðalfyrirmyndum!“
Þeir sem þekkja til í uppeldisfræðum eru á því að umönnun barna á fyrstu árum ævi þeirra skipti miklu máli upp á framtíðina. Börn ættu að vera í forgangi í samfélaginu. Foreldrar barna ættu að hafa svigrúm til að sinna fjölskyldunni vel að mati fagaðila en því miður er það ekki raunin fyrir alla foreldra.
Álag á foreldrum í dag er mikið. Sumir hverjir vita lítið um fyrirmyndir barna sinna á samfélagsmiðlum, í tónlist og kvikmyndum, svo eitthvað sé nefnt. Að ræða þessi mál er hluti af forvörnum þeim sem allir foreldrar ættu að kynna börnum sínum.
Nýverið birtist grein á vef SÁÁ þar sem talað var um að börn allt niður í 12 ára ættu að fá fræðslu tengda áfengi og vímuefnum. Áhrifavaldar á samfélagsmiðlum geta náð til jafnvel yngri barna en um ræðir hér framar. Ef til vill ættu heilbrigðar fyrirmyndir að verða hluti af þessu spjalli við börnin.