Valgerður Halldórsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, starfar sem sérfræðingur í málefnum barna og sáttamaður hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Hún er einnig í eigin rekstri og er hennar sérsvið skilnaðir og stjúptengsl. Málefni barna sem eiga tvö heimili eru henni hugleikin. Hún verður með erindi á námstefnu fagdeilda félagsráðgjafa í sáttamiðlun í samstarfi við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu sem haldin verður á Grand hóteli 1. mars. Yfirskrift námstefnunnar er: Meira en mynd og grunur. Á námstefnunni ætlar Valgerður að fjalla um hvað börnin segja hjá sýslumanni.
Það er réttur barna að segja það sem þeim býr í brjósti
Valgerður segir námstefnuna aðallega fyrir fagfólk, en hún á von á að almenningur sem hefur áhuga á málefnum barna muni einnig fjölmenna.
„Í mínu erindi mun ég fara yfir hvað fram hefur komið í viðtölum við börn hjá embættinu. Ég skimaði rúmlega 40 viðtöl við börn hjá sýslumanninum í Reykjavík og ræddi við aðra sérfræðinga um hvaða skilaboð börnin eru með til okkar fullorðna fólksins. Þetta er því ekki rannsókn, en skimunin gefur fullt tilefni til að gera rannsóknir á þessu sviði.“
Valgerður segir að þeir foreldrar sem ekki ná að semja um mál barna sinna sjálfir þurfi að fara í gegnum sáttameðferð áður en úrskurðað er í málum eða farið í dómsmál.
„Samkvæmt barnalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á að tjá sig í málum er þau varða og er því rætt við börn til að mynda í forsjár- og lögheimilismálum, sem og í umgengnismálum. Um 58% foreldra ná sáttum í sáttameðferð hjá embættinu sem telst góður árangur og er sambærilegur og á hinum Norðurlöndunum.“
Valgerður segir að deilur foreldra séu börnum skaðlegar, ef þeim tekst ekki að halda börnunum utan deilna.
Dæmi um börn sem sýna forðun
„Börn vilja ekki að láta þrýsta á sig þegar kemur að ákvörðun um umgengni og þau vilja ekki velja á milli heimila. Dæmi eru um að börn reyna að forðast það foreldri sem þrýstir á þau og eru sífellt að ræða ágreininginn við þau. Því miður áttar foreldri sig ekki á því að það er mögulega að skaða tengsl sín við barnið með eigin framkomu en kennir mögulega hinu foreldrinu um að barnið vilji ekki fara á milli heimila. Börn hafa oftast einhverja skoðun á því hvernig þau vilja hafa hlutina en mörg vilja ekki særa foreldra sína með því að tala hreint út.
Deilur foreldra smitast oft inn í daglegt líf barna og sum hver óttast hreinlega brottnám hafi foreldrar mætt í skóla eða á leikvöllinn óundirbúið. Sum barnanna vilja ekki mæta í skóla eftir það. Það sem börnin vilja er að foreldrar leysi málin sín á milli. Þau vilja ekki særa foreldra sína en þurfa stundum svigrúm til að vera aðeins meira hjá öðru foreldri en báðum.
Skoða þarf hvert mál fyrir sig og hollt er hverjum og einum að skoða hvað hægt er að gera til að bæta samskiptin og aðbúnað barns á eigin heimili.“
Valgerður segir að algengasta umkvörtunarefni barna í stjúpfjölskyldum vera að þau fái ekki tíma ein með foreldri sínu.
„Sum kvarta yfir að foreldrið sé alltaf að vinna og ekkert pláss á heimilinu sem þau geta kallað sitt og langt í vini. Svo vantar stundum upp á tengsl við barnið sem vinna þarf í. Sumir foreldrar glíma við alkóhólisma og aðrir beita ofbeldi.“
Valgerður segir mikilvægt að tryggja öryggi barnsins og að það fái rými til að vinna upp traust. Sem dæmi eftir áfengismeðferð foreldris. Valgerður segir að tálmun eigi sér stað einnig í samfélaginu þar sem vegið er mjög alvarlega að mikilvægustu tengslum barnsins í lífinu – þar eð tengsl við annað foreldri sem það fær ekki að umgangast.
Hún segir það einmanalega stöðu fyrir börn að vera í þegar foreldrar deila. „Þessum börnum líður ekki vel á öðru heimilinu eða báðum og treystir sér oft ekki til að ræða vanlíðan sína af ótta við að rugga bátnum. Foreldrar þurfa því oft aðstoð til að halda áfram.“
Margir foreldrar ná að setja börnin í forgrunn
Valgerður segir að í upphafi skilnaða tali sumir foreldrar stundum illa um hvort annað, þá sé stundum reiði og heift, en hún vil benda á að stór hluti foreldra reyni að vanda sig þrátt fyrir ágreining barnanna vegna. Hún segir mikilvægt að styðja við að foreldrar séu í góðum tengslum við börnin sín og að oft séu foreldrar þá báðir eða annar að gera hluti sem skaðar börnin án þess að gera sér grein fyrir því.
„Athuganir mínar sýna að deilur foreldra geta smitast yfir á öll svið í lífi barna. Börn sem eiga foreldra sem halda áfram að deila eftir skilnað þurfa að skipta barnæskunni á milli tveggja aðila. Það er þá tími móðurinnar og tími föðurins og þessir staðir verða átakasvæði og allt í kringum skipulagið verður stirt.“
Eins bendir hún á að þegar stjúpforeldrar eru komnir inn í myndina þótt vel gangi þá flækist enn þá meira veröld barnanna sem flest eru á því að þau vilji að hlutirnir gerist hægar.
Valgerður segir mikilvægt að sinna ákveðnu forvarnastarfi þegar kemur að börnum sem eiga tvö heimili og forðast hún að setja merkimiða á börn út frá hegðun foreldra. Vill hún að talað sé um börn fráskilinna foreldra í stað skilnaðarbarna eða börn alkóhólista í stað „alkabarna“ ef við teljum okkur þurfa að greina þau eftir reynslu þeirra og aðstæðum.
„Þetta eru bara venjuleg börn sem eiga tvö heimili og með reynslu sem getur sett mark sitt á þau en það má ekki gleyma því að flestum vegnar vel. Eins er mikilvægt að við áttum okkur á að það eru alls konar ástæður fyrir því að börn eiga fleiri en eitt heimili og því óþarfi að flokka börn eftir stöðu foreldra sinna á þennan hátt. Samfélagið verður hins vegar að taka mið af þessari staðreynd.“
Börn vilja gæðastundir með foreldrum sínum
Valgerður segir að ef við hugsum um velferð barnanna þarf allt efni frá skólum, samfélaginu og ríkinu að taka mið af því að fjöldinn allur af börnum eiga fleira en eitt heimili. „Ef eitt af verkefnum í skólanum er að teikna mynd af heimilinu, af hvaða heimili eiga börn sem eiga tvö heimili að teikna? Það eru um 1.200 börn árlega sem upplifa skilnað foreldra sinna. Við erum ekki að tala um nokkur börn á ári. Ef við ætlum að hafa hagmuni barna okkar að leiðarljósi, þá verðum við að skoða hvað þau eru að segja okkur. Þau vilja ekki vera öðruvísi eða á jaðrinum. Þau vilja að foreldrar setji persónulegan ágreining sinn til hliðar og að foreldrar þeirra viti að þeim geti mögulega fundist flóknara að upplifa breytingar á eigin foreldri sem komið er í nýtt ástarsambandi og mynda ný tengsl við stjúpforeldra og börn þeirra, en í gegnum skilnað foreldra sinna. Þau vilja að foreldrar fari hægt í gegnum breytingar, inn í ný sambönd og fleira í þeim dúrnum og síðan vilja þau tíma með foreldrum sínum án þess að þurfa að deila tímanum með öðrum aðila, eins og nýjum maka – öllum stundum. Það eru til góðar leiðir og lausnir í öllum málum, ef hagsmunir barnanna okkar eru settir í fyrirrúm.“
...