Hvergi er betra að stofna fjölskyldu en á Íslandi samkvæmt nýrri könnun Asher & Lyric. Bandaríkin eru aftur á móti í 34. sæti á lista 35 OECD-ríkja um hvar sé best að stofna fjölskyldu samkvæmt könnuninni, en aðeins Mexíkó fær lægri einkunn.
Greint var frá könnuninni á vef Forbes, en þar kemur fram að Norðurlandaþjóðirnar Ísland, Noregur, Svíþjóð og Finnland tróni á toppi listans.
Könnunin var unnin út frá 35 OECD-ríkjum og var lögð áhersla á 30 þætti, meðal annars öryggi, hamingju, menntun, kostnað og tíma. Ísland var talið öruggast allra 35 ríkjanna, var í fjórða sæti listans yfir kostnað og í fyrsta sæti á heildina litið. Mexíkó aftur á móti var neðst á listum yfir öryggi, heilsu og menntun, í 30. sæti í hamingju og neðst á heildarlistanum.
Bandaríkin komu ekki mikið betur út en Mexíkó og voru í 34. sæti í heild. Foreldrar með meðaltekjur í Bandaríkjunum þurfa að jafnaði að eyða um 31,79% tekna sinna í beinan kostnað vegna barneigna en á Norðurlöndunum fara 3-10% heildartekna að jafnaði í beinan kostnað vegna barna. Þá eru bandarískar mæður tvisvar sinnum líklegri til að látast af barnsförum en mæður í Kanada, þar sem kostnaður vegna fæðingar á sjúkrahúsi er þó þrisvar sinnum lægri.
Þá voru Bandaríkin einnig í neðsta sæti listans yfir tíma, en þar tryggir ríkið ekki fæðingarorlof, veikindaleyfi eða greitt orlof og vinnuveitendur eru ekki skyldugir til að greiða starfsfólki sínu fyrir umræddan tíma.
Heildarlisti yfir ríki þar sem best er að ala upp börn:
1. Ísland
2. Noregur
3. Svíþjóð
4. Finnland
5. Lúxemborg
6. Danmörk
7. Þýskaland
8. Austurríki
9. Belgía
10. Tékkland
11. Holland
12. Portúgal
13. Frakkland
14. Ástralía
15. Slóvenía
16. Írland
17. Spánn
18. Nýja-Sjáland
19. Kanada
20. Pólland
21. Ungverjaland
22. Sviss
23. Bretland
24. Ítalía
25. Japan
26. Ísrael
27. Slóvakía
28. Suður-Kórea
29. Grikkland
30. Rúmenía
31. Búlgaría
32. Tyrkland
33. Síle
34. Bandaríkin
35. Mexíkó