Aðalmálið er að fermingarbarnið finni til sín á þessum degi

Fermingin er alltaf stór dagur fyrir fermingarbörnin.
Fermingin er alltaf stór dagur fyrir fermingarbörnin. mbl.is/Gallerí 17

Svava Johansen, forstjóri NTC, sem rekur meðal annars Galleri 17, segir að þau hafi unnið mikið brautryðjandastarf þegar þau settu fókusinn á fermingarföt 1983. Hún segir að börnin verði að fá að hafa eitthvað um það að segja í hverju þau eru á fermingardaginn og minnist sinnar eigin fermingar með mikilli hlýju en hún fór fram 19. mars 1978. 

Svava Johansen er einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar þegar kemur að …
Svava Johansen er einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar þegar kemur að tísku. mbl.is/Árni Sæberg
Galleri 17 hefur síðan 1983 lagt áherslu á fatnað fyrir þá viðburði sem eru í gangi í landinu hverju sinni, eins og til dæmis fyrir fermingar en líka útskriftir, verslunarmannahelgina, skólaföt og svo framvegis. Það er gaman að segja frá því að fermingarfatnaðurinn varð strax mjög vinsæll hjá okkur, bæði fyrir stráka og stelpur. Með árunum hefur umstangið í kringum fermingarfatnaðinn aukist og það er alltaf gaman að sinna þessu verkefni. Við höfum haft það vinnulag að undirbúa okkur sex mánuðum áður, ákveða liti, efni og snið en við látum til dæmis framleiða allan herrafatnaðinn enda erfitt að finna minnstu stærðirnar tilbúnar erlendis. Kvenfatnaðurinn er bæði framleiddur sér fyrir okkur, enda breytist tískan hratt hjá stelpunum milli ára, sem og keyptur að utan frá okkar vinsælu merkjum,“ segir Svava og bendir á að það skipti máli að auglýsa fermingarfatnaðinn vel og að þeir sem sitji fyrir séu á fermingaraldri.

Aðspurð hvernig fermingartískan sé í dag nefnir hún samfestinga fyrir stelpur og líka ljósa sumarlega kjóla. Hún segir að blúndukjólar séu alltaf vinsælir ásamt silkisatíni. Þegar kemur að strákafatnaði eru jakkaföt vinsæl en líka stakar buxur og jakki.

„Stelpurnar eru líka að taka buxnadragtir eða staka blazer-jakka í ljósum litum og eru þá í hvítu undir. Við þetta er vinsælt að vera í svörtum víðum buxum. Stelpurnar fara bæði í flotta hvíta strigaskó og fínlegri bandaskó í fallegum litum. Fermingartískan hjá strákunum hefur sennilega aldrei verið fjölbreyttari. Strákarnir eru bæði að velja sér „suit“-jakkaföt í bláum tónum eða gráum og jafnvel með svörtum boðungum eða bara alveg svört. Þeir geta valið um mjög mismunandi skyrtur og svo er misjafnt hvort þeir vilja slaufu eða bindi eða sleppa því, en eru þá með smartan vasaklút. Þeir geta valið um hvíta strigaskó eða flotta leðurskó. Það fer alveg eftir týpunni hvað viðkomandi velur sér. Við hlustum á óskir og aðstoðum við að heildarútlitið sé flott. Stakir jakkar og svartar eða ljósar gallabuxur eru líka mjög vinsælt saman og sumir velja röndótta boli undir eða einhvern skemmtilegan lit á skyrtu undir. Litaðir gallajakkar hafa líka verið í boði fyrir þá sem vilja vera enn meira „casual“ og eru þá fínni stakar buxur teknar við,“ segir hún.

Blár er alltaf flottur á fermingardaginn.
Blár er alltaf flottur á fermingardaginn. mbl.is/Gallerí 17

Hvað finnst þér skipta máli þegar fermingarföt eru annars vegar?

„Aðalatriði er að fermingarbarninu líði vel í fatnaðinum og að það finni til sín á þessum degi. Það má ekki gleyma hversu ólík við erum og fataval er túlkun á hver þú ert svo það er ekki heppilegt að foreldrar stýri of mikið hverju ungi einstaklingurinn klæðist þennan dag. Mér finnst að við eigum leyfa þeim að ráða sjálf ef þau hafa skoðun á því. Síðan má ekki gleyma að fermingarmyndin lifir og er svo oft sett upp á vegg. Við eigum að brosa yfir góðum degi þegar við horfum á hana. Notagildi skiptir líka miklu máli og leggjum við mikla áherslu á að krakkar geti notað fötin sín og skó eftir ferminguna við hversdaglegri tækifæri.“

Þegar Svava er spurð út í sinn fermingardag segir hún að það sé orðið langt síðan hún fermdist en viðurkennir að fermingarmyndin lifi ennþá góðu lífi.

„Ég var í ljósgrárri smáköflóttri ullardragt frá Karnabæ, ljósbleikri silkiskyrtu og ljósbleikum fylltum smáhælaskóm. Kraginn á skyrtunni var frekar stór. Ég horfi stundum á þessa mynd og man hve vel mér leið og hvað mér fannst þetta flott, en hlæ inni í mér í dag og spái hvað var ég að pæla,“ segir hún og hlær og bætir við:

„Aðalatriðið er að mér leið vel og þetta var góður dagur. Ég fermdist 19. mars 1978 og var fermingarveislan haldin heima. Mamma og pabbi að reyna að gera þetta allt svo fínt fyrir mig fermingarbarnið sem tókst heldur betur. Það voru um 80 gestir, matur og þjónustufólk frá Hótel Sögu. Vá hvað maður varð allt í einu fullorðinn og ég man enn tilfinninguna,“ segir hún.

Hvítur blúndukjóll fyrir ferminguna.
Hvítur blúndukjóll fyrir ferminguna. mbl.is/Gallerí 17

Kórónuveiran hafði töluverð áhrif á sölu á fermingarfatnaði. Hvernig bregðist þið við þessum skrýtnu tímum?

„Í byrjun árs, í janúar og febrúar, var salan eðlileg en í mars stoppaði fermingarsalan alveg. Í lok mars og byrjun apríl komu foreldrar að óska eftir að leggja inn fermingarfatnaðinn og fá innleggsnótu því þau vissu ekki hve lengi það þurfti að bíða að fermingardagurinn rynni upp. Krakkarnir stækka mjög ört á þessum tíma og skiptir hálft ár því miklu máli. Það er ekki óalgengt að krakkar vaxi upp um eina eða tvær fatastærðir á hálfu ári og þá kannski sérstaklega strákarnir. Við höfum svo verið að fá krakkana aftur inn í ágúst og það er skemmtilegt að sjá breytinguna á sumum börnunum sem eru allt í einu orðin fullorðin. Þetta er svo yndislegur aldur að fylgjast með. Við vonum bara að fermingardagurinn renni upp núna í ágúst eða september hjá krökkunum og að athöfnin í kirkjunni og svo veislan fái að vera ánægjuleg og eftirminnileg fyrir krakkana.“

Litrík og skemmtileg á fermingardaginn.
Litrík og skemmtileg á fermingardaginn. mbl.is/Gallerí 17
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda