Bresk kona sem hélt að hún væri bara að fitna áttaði sig ekki á því að hún væri ólétt fyrr en klukkutíma fyrir fæðingu sonar síns. Konan fór upp á spítala vegna magaverkja og neitaði því að vera ólétt. Stuttu seinna fóru hún og maðurinn hennar heim með ungbarn.
Sonur parsins kom í heiminn hinn 1. september. Rúmlega klukkutíma áður en hann fæddist fóru þau á spítala. Ástæða spítalaheimsóknarinnar var miklir magaverkir fyrr um nóttina. Parið var í áfalli þegar þau komust að raunverulegri ástæðu verkjanna.
„Ég fann ekki fyrir neinni morgunógleði né öðrum einkennum. Rétt í lokin, um sólarhring áður en hann kom í heiminn, þandist maginn á mér út. En svo fékk ég mikla magaverki og pissaði ekki í 24 tíma svo við héldum að það væri eitthvað að,“ sagði konan í viðtali við Daily Mail.
Þegar komið var á spítalann spurði hjúkrunarfræðingur hana hvort hún gæti verið ólétt. Hún svaraði því neitandi. Það var ákveðið að athuga það. „Við vorum í miklu áfalli þegar hann kom.“
Hin nýbakaða móðir gekk með barnið í 41 viku og fór á blæðingar allan tímann. Hún fitnaði meðan á útgöngubanni stóð en kenndi því um að hún vann mikið heima hjá sér og borðaði mikið. Fór ekkert í ræktina á meðan né stundaði aðra hreyfingu.