Íslensk börn sofa mörg hver of lítið

Dr. Erla Björnsdóttir fékk hugmyndina að svefnfiðrildunum þegar hún svar …
Dr. Erla Björnsdóttir fékk hugmyndina að svefnfiðrildunum þegar hún svar að segja syni sínum frá mikilvægi svefns. Ljósmynd/Aðsend

Dr. Erla Björnsdóttir segir að íslensk börn sofi mörg hver of lítið og vandinn aukist þegar börn komast á unglingsaldur. Erla gaf á dögunum út bókina Svefnfiðrildin sem fjallar á skemmtilegan og fræðandi hátt um mikilvægi svefns og hvíldar. 

Erla er sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum og stofnandi Betrisvefn.is. Hún sérhæfir sig í rannsóknum á svefni og meðferðum gegn svefnleysi. 

Erla segir í viðtali við mbl.is að hana hafi lengi fundist vanta fræðsluefni um svefn fyrir börn. „Í raun finnst mér alveg ótrúlegt hversu lítil áhersla er á fræðslu um svefn í íslensku menntakerfi. Það er því miður staðreynd að íslensk börn sofa mörg hver of lítið og vandinn eykst þegar börn komast á unglingsárin. Mér finnst því mikilvægt að efla forvarnir og fræða börn um svefn strax á leikskólastigi,“ segir Erla. 

Hugmyndin að bókinni kviknaði þegar Erla hafði verið að segja syni sínum Bjarti, sem þá var 5 ára ævintýri um svefn og minna hann á allt það mikilvæga sem er að gerast í líkama og heila á nóttunni. 

„Hann var svo áhugasamur og spurði mig margra spurninga og honum fannst þetta allt svo merkilegt, að líkaminn væri eiginlega bara á verkstæði á nóttunni þar sem verið væri að gera við og undirbúa líkamann fyrur komandi dag, hreinsa til í heilanum, flokka minningar, festa lærdóm í sessi og fleira. Ég áttaði mig á því þarna hversu áhugasöm börn á þessum aldri eru og hversu spennandi og mystískur svefninn í rauninni er. Mér fannst því mjög viðeigandi að skrifa fallegt ævintýri sem börn gætu haft gaman af sem myndi á sama tíma minni þau á mikilvægi svefnsins,“ segir Erla. 

Svefnfiðrildin fjalla um stelpuna Sunnu sem veit fátt skemmtilegra en að leika við Bjart, besta vin sinn. En undanfarið hefur Sunna verið lasin og mamma hennar ákveður að fara með hana til læknis sem segir Sunnu frá svefnfiðrildunum. Þau hjálpa okkur að sofna og hvílast vel á nóttunni.

Hvernig geta foreldrar notað bókina til að hjálpa börnum sínum að sofa og hvílast betur?

„Það er hægt að nýta bókina á ótal vegu til að hjálpa börnum að skilja mikilvægi svefns og líka að átta sig á hvaða hlutir eru ekki æskilegir fyrir svefn, eins og t.d skjánotkun, sykurneysla, mikil birta á kvöldin, orkudrykkir og fleira. Ég hef fengið marga skemmtilega pósta frá foreldrum sem segja mér sögur af því hvernig bókin hafi nýst til að hvetja börn til að fara fyrr að sofa og til að sjá svefninn í jákvæðu ljósi. Nýlega fékk ég t.d póst frá konu sem sagði mér að 8 ára dóttir hennar hafi alla tíð þurft að sofa með ljós en eftir að hún las um svefnfiðrildin þar sem fram kemur t.d að þau eru sérstaklega viðkvæm fyrir ljósi á kvöldin þá tekur hún ekki í mál lengur að sofa með ljós . Ég er einnig með sérstakan fróðleik fyrir foreldra aftast í bókinni þar sem ég fer yfir þætti sem skipta máli varðandi nætursvefn barna. Einnig er svefndagbók aftast þar sem hæt er að setja jákvæð markmið um nætursvefn með börnum og skrá niður og gefa límmiða eða stimpla fyrir góðan árangur,“ segir Erla.

Hvaða máli skiptir á þessum tímum að halda rútínu hjá börnunum hvað varðar svefn og annað sem hefur áhrif á svefn og hvíld? 

„Rútína er algert lykilatriði þegar kemur að svefni og það þarf að huga mjög vel að henni núna þegar margir stunda nám og vinnu að heiman. Nýjustu tölur virðast benda til þess að börn séu að sofa lengur nú en fyrir Covid sem er mjög áhugavert. Nú er minna að gera, bæði hjá fullorðnum og börnum og tómstundir og félagslíf taka ekki jafn mikinn tíma og álag að mörgu leiti minna og það er mögulega að skila sér í lengri svefni. Einnig geta þeir sem vinna heima eða unglingar sem eru í skóla að heiman vaknað aðeins seinna á morgnana en venjulega þar sem ekki þarf að ferðast til og frá vinnu eða skóla. Mér finnst almennt að skóladagur unglinga ætti að byrja seinna og rannsóknir sýna að slíkt skilar lengri nætursvefni en íslenskir unglingar eru því miður flestir að sofa langt undir viðmiðum sem er áhyggjuefni,“ segir Erla.

Svefnfiðrildin fjalla um Sunnu og Bjart.
Svefnfiðrildin fjalla um Sunnu og Bjart. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda