Það er afar erfitt að elska ekki Disney–kvikmyndir. Þær eru skemmtilegar fyrir bæði börn og fullorðna, hafa fylgt okkur síðastliðin 99 ár og hafa oftar en ekki hugljúfan, þroskandi og yndislegan boðskap. Margir eru þó á því að einhverjir söguþræðir og skilaboð sem er að finna í Disney–kvikmyndum gætu mögulega haft neikvæð áhrif á börn. Það eru uppi háværar raddir um að Disney stuðli að neysluhyggju, neikvæðum staðalímyndum kvenna, eitraðri karlmennsku og óraunhæfum líkamsviðmiðum.
Börn mótast gífurlega af umhverfi sínu og vinsælum miðlum. Þar spila sjónvarpsþættir, kvikmyndir og samfélagsmiðlar gríðarlega stórt hlutverk enda verja börn megninu af tíma sínum fyrir framan skjá af einhverri stærðargráðu. Börn horfa yfirleitt á sömu kvikmyndir og sjónvarpsþætti aftur og aftur enda ekki óalgengt að þau taki ástfóstri við ákveðnar persónur. Uppáhaldspersónur þeirra fást oft við hefðbundin kynhlutverk og því er líklegt að það byrji að móta ákveðnar hugmyndir hjá þeim á kynhlutverki sínu eða gagnstæða kyninu sem eru oftast nær mjög einfaldar eða skakkar.
Disney–prinsessur, sérstaklega þær sem urðu til á upphafsárunum líkt og Mjallhvít og Öskubuska, sýndu ungar konur sem syngjandi, þrífandi og hógværar manneskjur sem gátu vart áorkað neinu án mikillar hjálpar. Mjallhvít hafði dvergana sjö, sem mörgum þykir mjög móðgandi þar á meðal Game of Thrones–leikaranum, Peter Dinklage. Hún þurfti þá til þess að vernda sig gegn vondu stjúpmóðurinni. Öskubuska hefði aldrei komist á ballið án guðmóður með töfrasprota og nokkrum velviljuðum músum.
Það er þó annað en sætar syngjandi prinsessur sem fólk finnur athugavert við hinar ýmsu Disney–kvikmyndir og má þar telja niðrandi orðalag, kynþáttafordóma, skort á fjölbreytni og óraunhæfa staðla.
Disney hefur þó verið að vinna sig út úr þessu mynstri á undanförnum árum og meðal annars endurgert margar af sínum eldri myndum með nýjum áherslum og sömuleiðis gefið út kvikmyndir sem leggja meiri áherslu og gildi á færni og greind kvenpersóna, jafna út mun kynjanna og hafa einnig aukið við fjölbreytni karaktera sinna. Má þar nefna kvikmyndir á borð við Moana, Raya og Encanto.
Í framhaldi setti Disney+ takmarkanir á suma titla sína, þar á meðal Dúmbó (1941), Pétur Pan (1953), Hefðarkettina (1970) og Hefðarfrúnna og umrenninginn (1955). Uppfærslan kom sem hluti af herferð Disney til þess að endurskoða kvikmyndasafn sitt. Foreldrar geta þrátt fyrir það leyft krökkum sínum að horfa á þessa titla en þau munu sjá eftirfarandi skilaboð: „Þessi kvikmynd inniheldur neikvæðar myndir og/eða illa meðferð á fólki eða menningu,“ segir i viðvöruninni.
„Þessar staðalímyndir voru rangar þá og eru rangar núna. Í stað þess að fjarlægja efnið viljum við viðurkenna skaðleg áhrif þess, læra af því og hefja samtal til að skapa skaðlausari framtíð saman. Disney er staðráðið í að búa til sögur með hvetjandi og uppbyggjandi þemu sem endurspeglar þann ríka fjölbreytileika sem er að finna um allan heim.“