Margrét Gauja er dóttir Magnúsar og Sirrýjar, systir Odds og Davíðs, konan hans Davíðs Arnars og mamma Bjarkar, Rósu og Breka. Hún er kennari og bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og framkvæmdarráðs og forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði.
Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?
„Með því að bíta á jaxlinn og láta vaða.“
Hvað er skemmtilegast við starfið?
„Að fá tækifæri til að hafa áhrif á nærsamfélagið mitt en það skemmtilegasta þó er að fá tækifæri til að kynnast og fá að starfa með ótrúlegu fólki sem brennur í skinninu eftir að móta samfélagið sitt og hefur skýrar hugsjónir. Einnig hef ég verið einstaklega lánsöm að fá að vinna með fólki sem er einstaklega fært á sínu sviði og er alltaf tilbúið að kenna manni og leiðbeina.“
En erfiðast?
„Þegar maður sér góð og vel unnin mál, sem maður trúir á, deyja því þau lenda í pólitískum ,,populisma“ og þegar stjórnmálin fara að snúast um fyrirsagnir í fjölmiðlum. Einnig er svolítið erfitt að geta ekki farið á barinn í Firðinum án þess að lenda í rökræðum þegar mann langar bara að dansa.“
Hver er munurinn á kvenkyns stjórnanda og karlkyns?
„Ég hef fengið að kynnast báðum kynjum í báðum mínum störfum og enn sem komið er finn ég ekki mikinn mun, hef verið svo lánsöm að starfa með svo kvenlegum pólitískum leiðtogum.“
Finnst þér að konur eigi að vinna meira saman til að koma sér á framfæri?
„Ekki spurning, við eigum að vera miklu duglegri að hvetja hver aðra áfram og leiðbeina. Þær sem eru reynslunni ríkari eiga að vera þeim yngri innan handar og minna okkur á að það er ekkert nýtt undir sólinni.“
Hverjir eru þínir bestu eiginleikar?
„Að sjá það fyndna í flestum aðstæðum, að trúa á sjálfa mig og ætli margir myndu ekki segja að ég væri frekja, ég vil frekar kalla það ákveðni. Einnig er ég verulega ,,blátt áfram“ og einlæg, ætli sumir myndi ekki flokka það sem galla í stjórnmálum en ég lít á það sem kost.“
Hvað einkennir góðan stjórnanda?
„Að hafa skýra sýn, húmor og vera með hjartað á réttum stað (vinstra megin). Vera hreinn og beinn í samskiptum, en mikilvægast er traust. Að treysta samstarfsfólki sínu, án trausts eru allar brýr í stjórnun brotnar og fólk visnar í starfi í stað þess að blómstra.“
Hver eru algengustu mistök sem konur gera á vinnumarkaði?
„Að hætta að vera þær sjálfar og tileinka sér viðmót og hegðun karla.“
Skiptir tengslanet máli?
„Í pólitík skiptir tengslanet máli, sérstaklega að geta leitað eftir mismunandi viðhorfum og fengið góð ráð og innsýn í málaflokka sem maður er ekki sérfróður um, því er svo mikilvægt að fólk af öllum stærðum og gerðum, með mismunandi þekkingu og bakrunn helli sér út í pólitík og að pólitíkin endurspegli samfélagið. En síðast en ekki síst er góð fjölskylda og sterkur vinahópur mikilvægastur í pólitík til að veita manni styrk og hvíld þegar illa gengur og halda manni á jörðinni þegar vel gengur.“
Í hvaða starfi værir þú ef þú værir ekki í núverandi starfi?
„Ég er í draumastarfinu mínu, ég er fyrst og fremst kennari.“