Fjórða hjónaband írsku söngkonunnar Sinead O’Connor entist aðeins í 16 daga og nú hefur O'Connor tjáð sig opinberlega um ástæðuna fyrir því að hún hefur farið fram á ógildingu þess: Henni leið eins og í líkkistu. Söngkonan giftist Barry Herridge í litlu hvítu kapellunni í Las Vegas í byrjun desember en batt enda á hjónbandið rúmum tveimur vikum síðar. Hún viðurkennir nú að sambandið við Herridge, sem hún hafði aðeins þekkt í þrjá mánuði, hafi verið dauðadæmt frá byrjun.
Í samtali við breska tímaritið Sun segir O’Connor að henni hafi liðið eins og hún væri lokuð ofan í líkkistu og hún vissi að eins myndi fara fyrir Herridge, þetta gæti aldrei gengið. Hún hafi ákveðið að ljúka hjónbandinu af virðingu og ást í hans garð. Söngkonan skrifaði á bloggsíðu sína strax í kjölfar giftingarinnar að annað fólk stæði í veginum fyrir hamingju þeirra, bæði fjölskylda og vinir. Í viðtali við Sun viðurkennir hún að það hafi kannski ekki verið mjög skynsamlegt af henni að eyða brúðkaupsnóttinni í Las Vegas í að útvega sér hass, það kunni að hafa fælt eiginmanninn frá.
Hjónakornin tóku að sögn söngkonunnar leigubíl á afvikinn, skuggalegan stað í borginni og þar fékk hún afhentan stóran hassvöndul. Eiginmaðurinn var að sögn logandi hræddur og sjálf spyr hún sig hvað hún hafi eiginlega verið að hugsa að draga manninn með sér á þennan hættulega stað, hann starfi jú eftir allt við ráðgjöf við eiturlyfjasjúklinga. O'Connor kveðst vona að hjónabandinu ljúki formlega sem allra fyrst. Ferlið getur þó tekið allt að fjögur ár á Írlandi en söngkonan getur hugsanlega flýtt því með því að rökstyðja ákvörðun sína og reka á eftir málinu í Las Vegas.