Alveg er það ágætur siður að strengja nokkur áramótaheit og fara inn í nýtt ár með fögur fyrirheit um hitt og þetta sem viðkemur lífi hvers og eins. Væntanlega vilja flestir bæta sig á hinum ýmsu sviðum og margir fara bratt af stað, allir í ræktinni í janúar og febrúar, en svo vill fækka eftir því sem á líður. En hversu vel sem gengur að halda sig við heitin, þá er um að gera að fara af stað með góðum hug. Þeir sem vita ekki alveg hvar bera skal niður geta farið inn á ofangreinda vefsíðu og fengið hugmyndir þar. Þar kemur fram að tíu vinsælustu áramótaheitin í henni Ameríku eru þessi:
1. Verja meiri tíma með fjölskyldu og vinum.
2. Taka sig á í líkamsræktinni.
3. Hemja vömbina (léttast).
4. Hætta að reykja.
5. Njóta lífsins betur.
6. Hætta að drekka.
7. Koma reglu á fjármálin.
8. Læra eitthvað nýtt.
9. Hjálpa öðrum.
10. Skipuleggja sig betur.
Á þessari ágætu síðu eru svo linkar inn á tengd mál, t.d. hvernig eigi að fara að því að halda áramótaheitin, hvernig skuli losa sig við slæma ávana, ókeypis stjörnuspá fyrir nýja árið o.s.frv. Góða skemmtun!