Jessica Simpson iðrast þess nú sárlega að hafa leyft myndbirtingu af fjögurra mánaða gamalli dóttur sinni Maxwell sem sýndi barnið í agnarlitlu, gulu, handprjónuðu bikiníi, þar sem glitti í bleyjuna undir brókinni. Bæði barnaverndarsamtök og bloggarar brugðust strax við og sögðu myndina óviðeigandi með öllu og til skammar fyrir söngstjörnuna.
Simpson var gestur í nýjum spjallþætti Katie Couric á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC í vikunni og ræddi þar meðal annars nýja móðurhlutverkið. Söngkonan leyfði Couric að birta nýjar ljósmyndir af fjögurra mánaða gamalli dótturinni, sem sýndu hana með bleyju og í bikiníi.
Simpson sat enn stolt í sófanum hjá Couric þegar netheimar byrjuðu að loga með harðorðum athugsemdum um ljósmyndirnar. Flestir virtust sammála um að þær væru ósmekklegar og óviðurkvæmilegar og Simpson ekki til sóma.
Bresku barnaverndarsamtökin Kidscape brugðust einnig hart við og haft er eftir forsvarsmanni samtakanna, Claude Knigts, í breska dagblaðinu Daily Mail að myndin af dóttur Simpson sé gagnrýniverð.
„Það er afar óhugnanlegt að sjá ljósmynd af kornabarni í bikiníi, sem að auki er gerð opinber almenningi,“ segir Knights. „Stórstjörnur hafa mikil áhrif á hegðun annarra og margir taka þær sér til fyrirmyndar.
Með myndbirtingunni gefur Simpson vítavert og hættulegt fordæmi. Dótturinni er ekki teflt fram sem ungbarni heldur sem kynveru og það er auðvitað forkastanlegt.“