„Vinkona mín sem er prestur segir að það sé sér hollt að jarða reglulega. Ekkert minnir mann eins á mikilvægi lífsins eins og að kveðja einhvern úr þessari jarðvist. Ég fór á jarðarför í vikunni og varð hugsað til þessara orða hennar,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir í nýjasta pistli sínum á mbl.is. Hún hefur kennt í MBA-námi síðan elstu menn muna og í náminu lætur hún nemendur sína alltaf skrifa eigin minningargrein.
„Ég hef í mörg ár látið nemendur mína gera „ímyndaða“ minningargrein um sig sjálfa. Þá sjá þeir fyrir sér hvað vinir, fjölskylda og aðrir muni skrifa um þá eftir fráfall þeirra. Flestum finnst þetta vera erfið æfing en eftir að heyra að verkefnið sé metið til einkunna skila þeir því af sér.
Ég legg þetta verkefni fyrir því það leiðir í ljós gildi okkar, fyrir hvað við viljum standa og hvernig við ætlum að vinna að því. Það sem við skiljum eftir í þessum heimi er ekki það sem mölur og ryð fá grandað heldur það sem skilið er eftir í hjörtum þeirra sem eftir lifa.
Helstu heimspekingar heimsins hafa lagt á það áherslu að það sé mikilvægara að spyrja réttu spurninganna en að svara spurningum. Hér eru þrjár slíkar sem hægt er að svara í ímyndaðri minningargrein: Í fyrsta lagi: Sýndi ég kærleik í verki? Hér er mikilvægt að svara hvort maður sjálfur hafi elskað heitt og sýnt kærleik, EKKI hvort aðrir hafi elskað mann eða sýnt manni kærleik. Ef maður er fastur í þeirri villu að setja mælistikuna fyrst á aðra en ekki sjálfan sig þá er kærleiksljósið alltaf sett í skugga. Í öðru lagi: Lifði ég til fulls? Hér verður hver og einn að skilgreina fyrir sig hvað það þýðir. Í þriðja lagi: Skipti ég máli? Hafði líf mitt áhrif til góðs? Hvernig metur maður það? Aftur svari hver og einn fyrir sig.“
HÉR er hægt að lesa pistilinn í heild sinni.