Söngvarinn Eyþór Ingi þurfti að leggja mikið á sig þegar Eurovisjón-myndbandið við lagið, Ég á líf, var tekið upp. Myndbandið var tekið upp um borð í litlum bát og er Eyþór Ingi í hlutverki sjómanns í myndbandinu. Myndbandið flakkar á milli raunveruleika og óraunveruleika. Eyþór Ingi er bæði maður og teiknimyndapersóna sem hefur ýmsa fjöruna sopið. Í myndbandinu þurfti Eyþór að fara ofan í 2ja gráðu heitan sjóinn og var viðbúnaður mikill við tökurnar.
Myndbandið verður frumsýnt í höfuðstöðvum Vodafone kl. 12.00 á morgun en það er framleitt af Purki ehf og Pipar/TBWA auglýsingastofu fyrir Evróvisionhóp ársins.
Leikstjóri þess er Guðmundur Þór Kárason en Jón Tómas Einarsson framleiðir það.