Séra Hildur Eir Bolladóttir segir að það skipti máli að skipuleggja kynlífið svo hjónabandið sé ekki bara í hlutlausum gír. Hún flutti eftirfarandi pistil í paramessu á Akureyri í vikunni:
„Ég tók ekki bílpróf fyrr en ég var orðin 21 árs, ef ekki hefði verið fyrir markvissa hvatningu tengdaföður míns er alls óvíst að ég væri akandi í dag, tengdapabbi er nefnilega að vestan, hann þolir ekkert kjaftæði. En þetta var s.s. ekki forgangsatriði þá í mínu lífi, ég hafði einhvern tímann séð myndina „Driving Miss Daisy“ og fannst það frekar smart fyrirkomulag, að hafa minn eigin einkabílstjóra.
Ég á bróður sem lærði á bíl út í Vestmannaeyjum þegar hann átti ár í þrítugt og systur sem tók bílpróf um fertugt þannig að þið sjáið að mótorsport hefur ekki átt upp á pallborðið í minni fjölskyldu í gegnum tíðina, ja ekki frekar en annað sport. En ég lét s.s. að lokum undan og skráði mig til náms hjá hreint ágætum ökukennara hér í bæ, hann er enn á lífi. Þetta var að sumarlagi, þannig að þið sjáið að við fjölskyldan höfum verið glúrin að velja okkur hagstæð skilyrði til ökunáms, eitthvað nefndi ég við kennarann svona í framhjáhlaupi að það gæti verið sniðugt að prófið færi fram út í Hrísey, en varð ekki að ósk minni. Hins vegar tók ég ekki nema einhverja átta ökutíma áður en að prófinu kom, sem væri í sjálfu sér ágætt fyrir einstakling sem hefur alist upp á vinnuvélum eins og flest sveitabörn en reyndist heldur knappt fyrir manneskju með skerta rýmisgreind og stundum athyglisgáfu.
Ástæðan fyrir þessari tímafæð var ekki önnur en sú að allir prófdómarar bæjarins voru í sumarfríi og því von á einum að sunnan, svokölluðum sérfræðingi að sunnan, sem gat ekki bara komið þegar Miss Daisy þóknaðist að læra að skipta um dekk, þess vegna lærði ég heldur aldrei að skipta um dekk, nema munnlega, veit ekki hvernig það á hins vegar eftir að gagnast mér upp á Holtavörðuheiði um miðjan vetur með sprungið framdekk, ein og hrakin. Nú nú prófinu sjálfu lauk ég með þeirri umsögn að ég væri slakur bílstjóri, sorglega léleg að bakka í stæði en með ríka ábyrgðarkennd sem myndi eflaust fleyta mér eitthvað áfram, vildi óska að þetta hefði líka verið látið duga í stærðfræðiprófunum hér í denn.
Í þá daga átti ég ekki bíl enda í sjálfu sér óþarfa fjárfesting fyrir barnlaust par með eðlilega hreyfigetu en þó kom fyrir að við fengum Impresuna hans pabba lánaða eða réttara sagt, maðurinn minn fékk hana lánaða þar sem pabbi afhenti honum jafnan lyklana með samúðarblik í augum. Á þessum árum bjuggum við í blokkaríbúð í Smárahlíð og einn sólríkan sumardag þegar fuglarnir sungu og fíflarnir dönsuðu með, ræsti ég Impresuna góðu og hélt hnarrreist af stað út í umferðina, það gekk stóráfallalaust fyrir sig, ég skilaði mér heim, lagði bílnum við blokkina og hélt inn í hús með björgina úr Bónus. Þegar ég kom aftur út að sækja síðasta pokann, stóð bíllinn, Impresan hans pabba, á miðju planinu eins og henni hefði upphaflega verið lagt við verslunarmiðstöðina í Sunnuhlíð en geimskip komið og numið hana á brott og hent henni niður á bílaplanið fyrir framan blokkina mína. Ég klóraði mér lengi í hausnum og var í þann mund að hringja í almannavarnir þegar ég áttaði mig á því að ég hafði skilið silfurdrossíuna hans pabba eftir í frígír….. af því að ég hélt að þannig ætti að leggja bílum, ekki í fyrsta gír, alls ekki í bakkgír, heldur frígír. Nú vitið þið hvað gerist ef maður leggur bíl og skilur hann eftir í frígír.
En vissu þið þá að það sama gerist ef maður leggur hjónabandi sínu í frígír, ef að hjónabandið fær að hvíla í tilfinningalegum frígír þá er einmitt mjög líklegt að það endi út á miðju plani, svolítið eins og það hafi verið numið á brott af geimverum og hjónin standa eins stúlkan forðum á planinu og klóra sér í hausnum, hugsa „hvernig gat þetta gerst?“ Tiflinningalegur frígír í hjónabandi er t.d. þegar við tjáum ekki væntingar okkar, vonir og þrár, vonbrigði og gremju en vonumst samt til þess að makinn skilji okkur og bíðum því með samanbitnar varir eftir því að hlutirnir batni. Þegar þeir batna ekki (sem þeir gera sjaldnast ef við þegjum) fyllumst við gremju en gremja er seigfljótandi efni, svipað hrauni sem vellur niður hlíðar eldfjallsins eftir að gos er hafið, þegar gosi lýkur kólnar hraunið en hverfur ekki, stundum er það selt sem minjagripur. Hefurðu hugsað út í það að sem foreldri þætti þér aldrei ásættanlegt að ala barnið þitt upp í einhvers konar frígír eða hlutlausum eins og hann er oft kallaður, flestir foreldrar og uppalendur hafa ákveðið markmið með uppeldi sínu og það markmið miðar að því að ala upp hamingjusaman einstakling með heilbrigt sjálfstraust og ríka siðferðiskennd.
Við eigum líka að hafa markmið með hjónabandi okkar. Það á ekki bara að reka út á haf eins og mannlaus bátur. Það á að hafa stefnu og markmið. Sumir halda að hjónbandið sé eins og líkamsklukkan sem lætur okkur vita hvenær við þurfum að nærast og hvílast en það er mikill misskilningur, hjónbandið er frekar eins og skeiðklukka það tekur tíma og fyrirhöfn og krefur okkur skipulagningar. Það gerist nefnilega ekkert af sjálfu sér í hjónabandi, stundum þarf meira að segja að skipuleggja kynlífið, já frekar en að sleppa því af því að, þó að það hljómi ekkert æðislega rómantískt að skipuleggja það þá hljómar það væntanlega enn verr, að sleppa því, ekki satt?
Þess vegna þurfum við stundum að tala um það hvenær og jafnvel hvar heppilegast sé að stunda kynlíf af því að sem tveir ólíkir einstaklingar þá höfum við ekki alltaf sömu þarfir á sama tíma. Ég er ekki að tala um eitthvert excelskjal gott fólk, bara heiðarlegt samtal. Svo þarf líka að skipuleggja fríin svo að þau verði markviss og góð, tölum fyrirfram um hvað við viljum gera og fá út úr fríunum svo að gremjan fari ekki að vella niður hlíðarnar. Góð frí þar sem við vitum hvað okkur langar að gera saman eru nefnilega vítamínsprauta fyrir hjónabandið, þau efla samstöðu og nánd milli hjónanna. Og ef einhver hér inni stendur í þeirri meiningu að frí séu ofmetin nú þá er hann augljóslega ekki í neinum frígír, en líklega í handbremsu.
Hjónabandið er ekki meðfæddur hæfileiki, það er áskorun sem krefst hugsunar í hverju skrefi, eins og allt sem getur fært þér það mesta og besta í þessu lífi. Þess vegna er svo mikilvægt að vera stöðugt á vaktinni, vera svolítið forsjáll, sjá fyrir þann vanda sem hugsanlega gæti komið upp ef hlutirnir eru ekki ræddir eða skipulagðir og muna að góður maki er gulli betri,“ segir Hildur Eir Bolladóttir en hér er hægt að lesa hugleiðingar hennar.