Þingkonan Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skráði sig í Ungfrú Ísland en verið er að endurvekja keppnina eftir hlé. Svona lítur samningurinn út sem keppendurnir þurftu að skrifa undir 2009. Árið 2009 var Arnar Laufdal framkvæmdastjóri Ungfrú Ísland.
Samningur um þátttöku í Fegurðarsamkeppni Íslands 2009
Keppandi _____________________ kt. ______________________ samþykkir með samningi þessum að afsala sér eftirfarandi réttindum:
1.Réttinum til að sækja mál gegn keppninni, starfsfólki hennar, samstarfsfyrirtækjum, kostunaraðilum, og öðrum, hvað sem kann að koma upp á í samstarfi við þessa aðila.
2.Réttinum til að sækja bætur, hvaða nafni sem þær nefnast, til Arnars Laufdal, hvaða óhöppum sem keppandi gæti orðið fyrir í tengslum við þátttöku í keppninni. (Til dæmis ef lausar loftplötur eða heilt hljóðkerfi dytti í höfuð keppanda við æfingar á Broadway, en keppnisstaðurinn er einnig í eigu Arnars Laufdal keppnishaldara.)
3.Höfundarrétti á myndum, vídeói, texta og öllu öðru efni sem keppandi býr til í aðdraganda keppninnar eða eftir hana. Slíkt má Arnar Laufdal nota til að búa til myndir, gjafavörur, eftirmyndir o.s.frv. án höfundargreiðslna.
4.Réttinum til að semja um auglýsinga- eða kynningarstörf, framkomu í sjónvarpi, útvarði, á internetinu eða í kvikmyndum, nema fyrir milligöngu Arnars Laufdal, í þrjú ár eftir keppnina. Hafi fjölmiðlar beint samband við keppanda skal hann kurteislega neita að svara en vísa á Arnar Laufdal, sem jafnframt tekur 30% af brúttótekjum fyrir hvert verkefni keppanda.
5.Réttinum til að blogga annars staðar en á sérstakri netsíðu keppninnar nema með skriflegu leyfi Arnars Laufdal.
6.Réttinum til að vita hvað nákvæmlega felst í undirskrift við samning þennan, þar sem Arnar Laufdal getur að geðþótta breytt einhverjum skilmálanna ef slík breyting mun að hans mati stuðla að farsælu keppnishaldi.
7.Réttinum til að haga sér illa eða ósiðlega að mati Arnars Laufdal í þrjú ár eftir keppnina.
8.Réttinum til að velja og hafna ráðleggingum Arnars Laufdal varðandi framkomu og velferð keppanda.
9.Réttinum til að taka útlitsbreytingum eða missa andlega eða líkamlega heilsu í þrjú ár eftir keppnina.
Þar með talin þyngdaraukning vegna lyfjagjafar, ólétta, læknisbann við sólbekkjaböðum vegna sortuæxlis, og geðhvarfasýki.
10.Réttinum til að ráðfæra mig við aðra um efni þessa samnings.