Þrátt fyrir að vera auralitlir námsmenn réðu Jón Steinsson og Emi Nakamura sér húshjálp hér á árum áður. Það jók á skuldir parsins en þýddi að þau gátu nýtt tíma sinn betur í náminu og til lengri tíma litið kæmi það til góða. Þetta var ákvörðun sem tekin var út frá hreinni hagfræði.
Jón og Nakamura eru bæði hagfræðingar í dag. Jón er dósent í hagfræði við Columbia-háskóla í New York og hefur látið að sér kveða í íslenskri umræðu um hagfræði og hagstjórn. Þau eru í viðtali við tímarit New York Times þar sem þau fjalla um dásemd þess að útvista verkefnum.
Bæði eru þau önnum kafin í störfum sínum auk þess að vera nýbakaðir foreldrar. Leynivopn þeirra er því að forgangsraða verkefnum og útvista þeim tilbreytingasnauðu sem taka til dæmis tíma frá fjölskyldulífinu. Í fyrra réðu þau sér einkakokk sem eldar fimm heilsusamlegar máltíðir á viku. Áður elduðu þau sjálf en ákváðu að tíminn með syninum væri verðmætari.
Þá hafa þau greitt fólki fyrir að setja saman húsgögn úr Ikea (þó svo að þjónustan sé dýrari en húsgögnin) og greitt fyrir ýmsa einkakennslu, s.s. við að hlaða tónlist af geisladiskum inn á tölvu. Ennfremur réðu þau manneskju til að fara yfir gamlar fjölskyldumyndir og velja þær bestu.
Í greininni segir að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir verðmæti tímans. Þó svo það virðist peningasóun að greiða fólki fyrir að kaupa inn eða fara með bílinn í skoðun þá er viðkomandi greiðandi að græða tíma sem hann getur notað í vinnu sem tryggir kannski stöðuhækkun eða launahækkun. Þetta er fjárfesting í framtíðinni.