Í gærkvöldi frumsýndi RÚV nýja íslenska skemmtiþáttinn Orðbragð þar sem umsjónarmennirnir, Bragi Valdimar Skúlason og Brynja Þorgeirsdóttir snúa upp á íslenska tungu. Það er óhætt að segja að þátturinn hafi slegið í gegn. Smartland bað Braga Valdimar að snara nokkrum enskum orðum sem eru að festast í málinu, yfir á íslensku.
Vart væri hægt að finna betri mann í verkið og eru nýyrði hans með þeim betri og munum við framvegis nota þessi orð eftir bestu getu.
Vintage: Erfitt orð í þýðingu. Þýðir eitthvað gamalt og gott. Eitthvað sígilt sem helst í tísku. „Sítíska“ jafnvel. Sbr. „Hvar náði hipsterinn í þennan mölétna sítískuhatt?“
Turn- off: Við eigum orðið „afhuga“ það virkar ekki vel sem nafnorð. Gætum líka notað „slökkvelsi“. Sbr. „Nýi íslenskuþátturinn var algert slökkvelsi.“
Plus-size: Við eigum náttúrulega orðið „yfirmáta“. Sbr. „Eigið þið nokkuð aðhaldsklæði fyrir yfirmátakonu eins og mig?“. (Ef ég væri ekki svona kurteis myndi ég líka stinga upp á „yfirfljótandi“ eða „framúrskarandi“.)
Dominatrix: Við eigum auðvitað orðið ráðskona, sem væri fullkomið en hefur aðra merkingu. Eins nær orðið drottning þessu afskaplega vel. „Drottnína“ mögulega? Eða „yfirgnæfa“. Sbr. „Nýja yfirgnæfan mín er alger tæfa.“
Guilty Pleasure: Ég hef séð „sakbitin sæla“ notað yfir þetta. Það er fínt. Gætum líka notað „sælusök“. Sbr. „Paint með Roxette er mín helsta sælusök.“
Twerking: „Tvinka“ svipað og að „vinka“. Sbr. „Skinkan tvinkaði mér af dansgólfinu.“