„Fólk gleymir að rækta ástina“

Þórhallur segir að mikilvægt sé að einstaklingar í sambandi gefi …
Þórhallur segir að mikilvægt sé að einstaklingar í sambandi gefi sér tíma fyrir hvort annað. Ljósmynd/Einkasafn

Séra Þórhallur Heimisson, starfaði sem prestur og sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju í ein 19 ár til ársins 2012, en býr núna í Falun í Svíþjóð og starfar þar sem sóknarprestur í sænsku kirkjunni. Hann hefur með prestsstörfum rekið hjónaráðgjöf og haldið úti hjónanámskeiðum undanfarin 18–20 ár heima og erlendis. Þórhallur er kvæntur og á fjögur börn. Stærsta áhugamál hans er fjölskyldan, ferðalög og langhlaup. Hann segir meðal annars að fólk gleymi því að það þarf að rækta ástina og hjónabandið. 

Aðspurður hvaða vandamál væru algengust í samböndum og hjónaböndum segir hann að það sé að fólk gleymi að rækta ástina. „Í raun og veru get ég sagt að í öll þau bráðum tuttugu ár sem ég hef unnið við sambúðarráðgjöf, þá hefur stærsti vandinn verið sá sami: Fólk gleymir því að það þarf að rækta ástina og hjónabandið. Í annríki dagsins er svo margt annað sem fólk setur í forgang í lífinu, vinnan, börnin, áhugamálin, vinirnir. Margir þurfa auk þess að glíma við ýmiskonar vandamál. Það geta verið fjármálin, áfengismisnotkun, sjúkdómar, stress og margt fleira. Svo ætlum við okkur svo mikið, stundum miklu meira en við ráðum við. Þannig líður tíminn og einn góðan veðurdag uppgötvar parið að ástin, sem einu sinni var, er horfin út um gluggann. Parið hættir að tala saman, hættir að stunda kynlíf, hættir í raun að vera par. Þau þekkjast ekki lengur í raun og veru, hafa vaxið frá hvort öðru og sambandið er í raun gufað upp.

Hafa samfélagsmiðlar mikil áhrif? Ef þú ert að spyrja um Facebook og Twitter og hvað þetta allt heitir, þá getur það auðvitað haft mikil áhrif ef fólk vill frekar hanga í tölvunni með sýndarveruleikavinum en að hitta maka sinn í raunheimi. Ég hef ekkert á móti Facebook til dæmis, en við verðum að passa okkur að verða ekki eins og konan sem gerði allt til að svæfa eiginmanninn á kvöldin – svo hún gæti læðst í Facebook.“

Settu sambandið í forgang

Aðspurður hvað hann ráðlegði pörum og hjónum að gera til að bæta sambandið sagði hann það í raun vera einfalt. „Að setja sambandið í forgang. Muna að rækta ástina, taka ekki hvort öðru eins og gefnum hlut. Gefa sér tíma hvort fyrir annað – og muna um leið að ef viljinn er fyrir hendi hjá báðum er allt hægt. Margir segja til dæmis að ef makinn myndi halda framhjá, þá væri sambandið endanlega búið. En það er alls ekki svo. Mjög oft er hægt að sættast, fyrirgefa og byrja upp á nýtt. Það getur tekið langan tíma og kostað mikla vinnu – en er sem sagt ekki vonlaust eins og margir halda.“

Hann sagði einnig að það væri mikilvægt að „gleyma því ekki að við erum ólík, karlar og konur, og þurfum líka okkar frelsi. Ekki kæfa hvort annað heldur styrkið hvort annað í að rækta hæfileika ykkar og drauma.“

Þórhallur heldur úti hjóna- og sambúðarnámskeiðum í safnaðarheimili Háteigskirkju en á námskeiðinu er lögð áhersla á hvernig best er að styrkja og dýpka sambandið og tengslin innan fjölskyldunnar. 

Bera námskeiðin árangur? „Ég held að ég geti svarað því játandi með góðri samvisku. Ótrúlega mörg pör hafa farið þarna í gegn og ég hef aldrei fengið nema jákvæð viðbrögð. Og jafnvel þegar staðan er sú að parið skilur, þá hjálpar námskeiðið þeim að takast á við nýjar aðstæður.“

„Allt hefur breyst síðustu 18 ár - og um leið ekkert“

Námskeiðið hefur verið haldið í 18 ár, hvað finnst þér hafa breyst á þessum 18 árum? „Það hefur allt breyst – og um leið ekkert. Netmiðlarnir, atvinnuástandið, fjármálin, fjölmiðlarnir – eiginlega allt samfélagið hefur breyst. En um leið er kjarninn sá sami hvað varðar fjölskylduna og hjónabandið eða sambúðina – þessi að við erum að leita að ástinni og þurfum að hlúa að henni þegar við höfum fundið hana. Það sem kannski hefur breyst mest til batnaðar er að nú er fólk miklu duglegra að leita sér aðstoðar en þegar ég var að byrja. Um leið er togað í okkur úr enn fleiri áttum en fyrr.“

Hann segir að það fari ekki eftir kyni hvort annar einstaklingurinn sé meira tilbúinn til að bjarga sambandinu heldur fari það eftir einstaklingum. „Karlar og konur eru í raun  ekki svo ólík eins og margir halda, þegar öllu er á botninn hvolft hvað þetta varðar. Staðalímyndin segir annað, en það er ekki mín reynsla,“ sagði Þórhallur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda