Leitar að sjálfri sér í Los Angeles

Sif Jóhannsdóttir skrifar frá Kaliforníu.
Sif Jóhannsdóttir skrifar frá Kaliforníu.

„„Komdu með krakkann í vinnuna“ dagur í dag. Það þýðir að eiginmaðurinn er með ormana 2 á skrifstofunni fyrir hádegi og mamman situr með dásamlegan kaffibolla á útikaffihúsi í borg englanna.

Ég er að byrja á nýju verkefni. Verkefnið er kallað „Sif finnur sjálfa sig“. Þetta er eiginlega björgunarleiðangur. 9 mánuðir sem heimavinnandi húsmóðir með 2 börn hefur valdið því að ég er ekki lengur viss um það hver ég er. Metnaðarfulla týpan sem vaknaði til vinnu á hverjum morgni er horfin. Meira að segja metnaðurinn sem ég hafði til heimilisstarfanna og barnauppeldisins í upphafi 9 mánaðanna er horfinn. Ég rétt dröslast í gegnum daginn, held í horfinu og reyni að halda geðheilsunni. Suma daga gengur það en aðrir dagar eru langir og strangir. Ég á erfitt með að muna hvað það er sem drífur mig áfram, hvað það er sem ég brenn fyrir, hvað  það er sem nærir sálina mína. Þannig að björgunarleiðangurinn snýst um þetta. Finna aftur kraftmiklu Sif sem vaknaði orkumikil á hverjum degi og hlakkaði til þeirra verkefna sem dagurinn hafði upp á að bjóða,“ segir Sif Jóhannsdóttir í sínum nýjasta pistli. 

„Í gær sendi ég út tölvupósta og ákall um hjálp í leit að námi sem heillar. Vinna er ekki í boði í bili vegna pappírsmála í landi frelsisins. Möguleikarnir í 8 milljóna manna borg eru hreinlega of margir og reynist erfitt að finna nálina í heystakknum. Þess utan kostar nám hér hand- og fótlegg svo það er eins gott að velja vel. Það er ekki bara einn háskóli, það eru yfir 100. Námsleiðirnar skipta þúsundum. En ef ég klára eins árs diplómu og færi mig þá yfir á námsmanna vísa þá má ég vinna í eitt ár á eftir og í kjölfarið ætti græna kortið að vera komið og ég frjáls undan vinnubanninu í kjölfarið.  Diplóman sem heillar mest snertir „iðnaðinn“ eins og hann er kallaður hér í borg. Iðnaðinn sem býr til kvikmyndir og sjónvarpsefni. Sjáiði þetta ekki fyrir ykkur? Sif Johannsdottir movie producer/tv producer. Þetta hefur góðan hljóm, það verður að viðurkennast. Ég hélt að það yrði leikur einn að græja þetta en hef komist að öðru. Í fyrsta lagi er samkeppnin um störfin brjálæðisleg. Í öðru lagi þá eru verkefnin að flytjast meira og meira frá LA, iðnaðurinn er á undanhaldi í upprunalandi sínu. Aðrar borgir og önnur lönd eru að draga iðnaðinn til sín með loforðum um skattaafslátta og hlutur LA í framleiðslunni minnkar stórkostlega ár frá ári og þar með verkefnin sem í boði eru. Í þriðja lagi eru launin og vinnutíminn í byrjun ekki sérlega fjölskylduvæn. Vinnudagarnir ef maður fær vinnu eru oftast um 16 klukkustundir.“

Sif ætlar ekki að gefast upp í leitinni að lífskraftinum. 

„Kraftmikla Sif hefði ekki látið draga úr sér. Þess vegna þarf ég bráðnauðsynlega að hitta á hana. Ég bind vonir við að þegar dæturnar eru komnar í skólana sína með haustinu þá birtist ofurkvendið aftur og sparki í rassinn á letihlussunni. Til vonar og vara er ég byrjuð á vítamínkúr og kaffidrykkjan að sjálfsögðu komin í sitt fyrra horf eftir 30 daga kúrinn.  Þetta er allt í áttina ...“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda