„Meðan ég bjó erlendis í nokkur ár, og einnig eftir að ég flutti heim, fór ég að sjá ýmislegt í íslensku samfélagi með öðrum augum en ég hafði áður gert. Þegar búið er í öðru og ólíku landi verður maður nokkurs konar gestur í eigin landi þegar komið er „heim“ í heimsókn og maður skynjar hlutina á annan hátt. Á þar máltækið að glöggt sé gests augað vel við,“ segir Jóna Ósk Pétursdóttir í sínum nýjasta pistli á Smartlandi Mörtu Maríu. Jóna Ósk er höfundur bókarinnar, Frábær eftir fertugt.
„Eitt af því sem ég áttaði mig sérstaklega á er hversu risastór þáttur vinnan er hjá flestum Íslendingum. Þá á ég ekki við hversu mikilvægt það er auðvitað að hafa vinnu heldur hversu algengt það er að fólk skilgreini sjálft sig fyrst og fremst út frá starfi sínu. Og það að vera rosalega upptekinn í vinnu þykir alveg ferlega flott. Því uppteknari sem þú ert og því lengur sem þú ert í vinnunni því duglegri og flottari einstaklingur ertu. Okkur hefur verið innrætt að vinnan göfgi manninn og allt það. Þetta er afar sterkt í þjóðarsálinni og byggist á gömlum dyggðum. Vinnusemi og dugnaður hafa ætíð þótt miklir mannkostir og flestir trúa að því meira eða lengur sem þeir vinni því meiri verði afköstin. Hér er þó ekki verið að tala um einstaklinga sem þurfa að vera í 2 til 3 störfum til að ná endum saman.“
Jóna Ósk bendir á að fólk afkasti ekki meira þó það vinni lengur.
„Eðlilegt er að halda að með lengri vinnutíma verði afköstin meiri. Það er bara rökrétt, ekki satt? Ekki aldeilis – því það er víst alveg kolrangt. Samkvæmt öllum rannsóknum og tölum um framleiðni erum við langt langt á eftir nágrannaþjóðum okkar. Við vinnum til dæmis lengri vinnuviku en flestar aðrar þjóðir í heiminum. Já þið lásuð rétt; lengur er flestar aðrar þjóðir. En öll þessi vinna skilar sér samt engan veginn því afköstin eru svo miklu minni hjá okkur en öðrum. Það er erfitt að kyngja þessu en þetta er alveg dagsatt.
Það þykir svo flott að vera alltaf í vinnunni og vera alveg rosalega upptekinn. Dyggðin er alveg að drepa okkur. Að vera „upptekinn“ sendir þau skilaboð út í samfélagið að þú sért mikilvægur og duglegur einstaklingur. Eitthvað sem er einstaklega mikils metið í okkar samfélagi. En merkilegast er samt að við trúum því algjörlega að við afköstum miklu með þessum langa tíma sem við eyðum í vinnunni. Síðan er líka svo notalegt að geta alltaf sagst vera svo upptekinn þannig að allir átti sig örugglega á því hversu mikilvægur maður er.“
Hún veltir því fyrir sér hvort við séum alls ekki eins dugleg og við höldum sjálf.
„Ef þetta er skoðað ofan í kjölinn er ekkert óeðlilegt að spyrja hvort við Íslendingar séum raunverulega ekki eins dugleg og við viljum vera láta? Erum við kannski bara letihaugar upp til hópa? Eða nýtum við sjálfan vinnutímann ekki nógu vel?
Samkvæmt sérfræðingum er staðreyndin víst sú að við höldum okkur ekki jafn vel að verki og aðrar þjóðir, sem þýðir auðvitað að við nýtum tímann ekki nógu vel. Við erum því ekki jafn dugleg og við sjálf höldum. Á meðan Norðmenn vinna 1400 tíma á ári vinnum við hér á landi tæpa 1900 tíma. Engu að síður er framleiðni okkar miklu lægri en þeirra. Í vissum atvinnugreinum erum við meira að segja með næstum því 50% lægri framleiðni. Hvernig má það vera? Við sem erum svona töff og alltaf í vinnunni.“
Jóna Ósk segir að rannsóknir sýni fram á það að meiri vinna skili minni framleiðni.
„Rannsóknir benda til þess að á vissum tímapunkti þá skili meiri vinna minni framleiðni. Skilaboðin eru einföld; styttri vinnutími og að halda sér við efnið skila meiri afköstum. Það er ekkert skrýtið að ungt fólk flykkist til Noregs þar sem vinnudagurinn er styttri og enginn þarf að vera í þessum töffaraleik að vinna sem lengst.
Það er eflaust erfitt fyrir marga sem lifa fyrir vinnuna að kyngja þessu. En sú hugsun að maður öðlist lífshamingju fyrst og fremst í gegnum mikla vinnu er orðin úrelt. Við verðum að bíta í það súra epli að við erum ekkert sérstaklega dugleg – við bara höldum það af því við erum alltaf í vinnunni. Ég held reyndar að það unga fólk sem er nýkomið á vinnumarkaðinn, sem og næsta kynslóð, muni breyta þessu. Að öllum líkindum verða þau samt kölluð letingjar af þeim sem eldri eru og telja mikla vinnu vera hina mestu dyggð. Þetta unga fólk skilgreinir sig á annan hátt en eldri kynslóðir. Þau skilgreina sig meira út frá sjálfum sér og út frá tímanum utan vinnu, en ekki út frá starfinu sjálfu. Þau munu því líklega leitast við að sníða vinnuna að lífi sínu en ekki lífið að vinnunni. Alveg eins og það ætti að vera.“