„Selfie-stöngin kom að góðum notum. Þetta er svo hallærislega fyndið að það er eiginlega ekki hægt annað en að vera í góðu stuði þegar svona mynd er tekin,“ segir rithöfundurinn Hjördís Hugrún Sigurðardóttir. Hjördís er formaður Stuðverks - skemmtifélags verkfræðikvenna en Stuðverk heimsótti Opna háskólann í HR nýlega. Rúmlega 50 meðlimir félagsins komu saman og fræddust um þá símenntun og endurmenntun sem stendur til boða fyrir sérfræðinga og stjórnendur í atvinnulífinu.
Hjördís gaf út bókina Tækifærin ásamt móður sinni, Ólöfu Rún Skúladóttur, í fyrra. Bókin inniheldur viðtöl við íslenskar konur sem sinna áhugaverðum störfum um allan heim.
„Líkt og hún Áróra Helgadóttir, heilbrigðisverkfræðingur í þróunardeild Össurar, segir í bókinni okkar þá er ákveðni og vilji til að tileinka sér nýja þekkingu mikilvægur eiginleiki í síbreytilegum heimi. Við Stuðverkskonur vorum því ekki lengi að þiggja það góða boð að mæta í heimsókn í Opna háskólann í HR og hrista aðeins upp í heilasellunum á nýju ári.“
Hjördís greip í selfie-stöngina og tók skemmtilega mynd af hópnum.