Vann sig í þrot og klessti á vegg

Hrund Gunnsteinsdóttir hefur persónulega reynslu að því að vinna sig …
Hrund Gunnsteinsdóttir hefur persónulega reynslu að því að vinna sig í þrot. Katherine Loveless

Kulnun í starfi, eða „Burn Out“ virðist vera vaxandi vandamál hérlendis. Blessunarlega virðist fólk þó vera meðvitaðra um vandann, en á morgun fer fram málþing undir heitinu „Endurmetum velgengni“ þar sem bók Ariönnu Huffington, Þriðja miðið, verður rædd. Á fundinum mun Árelía Eydís Guðmundsdóttir halda framsögu, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er fundarstjóri, en Hrund Gunnsteinsdóttir situr ásamt þeim í pallborði. Hrund hefur komið víða við og meðal annars starfað hjá Sameinuðu þjóðunum auk þess sem hún lauk nýverið við gerð heimildamyndarinnar InnSæi - the Sea Within ásamt Kristínu Ólafsdóttur. Þess að auki hefur hún persónulega reynslu af því að vinna sig í þrot, eða klessa á vegg líkt og hún orðar það sjálf.

Hvað er svona merkilegt við bók Ariönnu Huffington, Þriðja miðið?

„Ég held að bókin nái til fólks af því hún fjallar um hluti sem svo margir eru að díla við, en fáir hafa kannski talað um eins opinskátt og markvisst og hún gerir. Arianna Huffington naut mikillar velgengni í starfi, hún var á fleygiferð um heiminn og kleif upp metorðastigann. Vinnan fór smám saman að taka yfir, Arianna setti sjálfri sér engin mörk og endaði á því að hrynja í gólfið og slasa sig af ofkeyrslu. Þessi reynsla fékk Ariönnu til að hugsa hlutina upp á nýtt. Svipað og fjölmargir aðrir eru að gera í heiminum í dag. Við lifum víst ekki til að vinna og fá viðurkenningu frá fólki sem við þekkjum ekki.“

Hrund hefur sjálf reynslu af því að ofkeyra sig, en hún náði að vinna sig í þrot fyrir nokkrum árum. Hún segist í kjölfarið hafa farið í störukeppni við sálu sína og ákveðið að vera samferða sjálfri sér það sem eftir væri.

„Áður en ég varð þrítug klessti ég á vegg. Ég var að vinna fyrir Sameinuðu þjóðirnar við uppbyggingarstarf í Kósóvó skömmu eftir stríð, árið 2001, þar sem verkefnin sem blöstu við voru alltaf mikilvægari en mín eigin heilsa. Ég keyrði mig áfram alla daga vikunnar, setti mig í spor þeirra sem áttu um sárt að binda og kunni ekki að setja mér mörk. Líkaminn varaði mig við, oftar en einu sinni, en ég hélt ótrauð áfram þangað til ég klessti á vegg og þurfti að horfast í augu við sjálfa mig.“

 „Ég hóf ákveðinn lífróður, til að finna neistann aftur og jörðina undir fótunum. Ég leit inn á við og rifjaði upp hvað það væri sem ég brenn fyrir, hvað það er sem nærir mig og hver gildin mín eru. Ég þurfti að gjöra svo vel að hægja á mér um tíma. Ég leitaði mikið í sköpunarkraftinn sem ég hafði gleymt um tíma og hugsaði líka mun betur um hvíld, mataræði og hreyfingu.“

Vaxandi vandi

Hrund segir margt benda til þess að kulnun sé að aukast meðal ólíkra hópa, allt frá nemendum til reynslumikilla stjórnenda. Enda fari vandamálið ekki í manngreinarálit.

„Ástæðurnar geta verið margar, en í grunninn er það ákveðin aftenging sem á sér stað, við sjálf okkur. Til dæmis tekst fólk á við of mikið álag í vinnu eða persónulegu lífi í of langan tíma. Stundum brennur fólk út af því það finnur sér ekki farveg í starfi sínu, það fær ekki útrás fyrir það sem býr innra með því og það finnur fyrir vanmætti. Smám saman dregur af fólki. Sumir tala um að hafa þurft að „skilja sjálfa sig eftir fyrir utan vinnuna” og vera einhver annar en þau eru í vinnunni.“

Þess að auki er heimurinn á fleygiferð, líkt og Hrund bendir á, og samfélagslegar breytingar býsna róttækar. „Krafan um að vera stöðugt nettengd, til taks og að sýna betri árangur í dag en í gær er að buga marga. Einhvers staðar las ég að táningar upplifðu meiri kvíða en kynslóðirnar á undan. Ein helsta ástæða fyrir örorku og veikindum í heiminum í dag er þunglyndi sem orsakast gjarnan af kvíða og stressi,“ segir Hrund, og bætir við að fólk gleymi stundum að það er ekki nóg að anda út, heldur þurfi líka að anda inn.

„Við þurfum tíma til að endurhlaða batteríin, og tíma til að hanga, hugsa og veita nærumhverfi okkar athygli. Velja hvað það er sem við tökum inn. Við þurfum að hreinsa hugann eftir áreiti og upplýsingaflæði allan liðlangan daginn. Við getum ekki bara dvalið í hausnum, við þurfum líka að hlusta á hjartað og líkamann,“ játar hún.

Úreltur mælikvarði

Íslendingar hafa löngum hreykt sér að því að vinna mikið, vera duglegir og eljusamir auk þess sem vinnuvikan er lengri hérlendis en víða á nágrannalöndunum. Hrund játar að áður fyrr hafi hún sjálf hugsað svona, en viðurkennir nú að þessi þankagangur kunni ekki góðri lukku að stýra.

„Ef mælikvarðinn á árangur er fjöldi unninna stunda og há laun, þá erum við á villigötum. Við afköstum ekki meira og gæðin batna ekki þótt vinnudagurinn sé lengri. Ég hélt það samt einu sinni og þurfti að klessa á vegg til að átta mig á að það er bara rugl.“

Að mati Hrundar er þetta ekki sér-íslenskt fyrirbæri, heldur sé þennan þankagang að finna víða. „Þetta er mikið til umræðu til dæmis í Bandaríkjunum þar sem vinnumenningin er að mörgu leyti ómanneskjuleg og fæðingarorlof er oft bara tvær vikur. Þar eru margir að taka þessa hluti til endurskoðunar, meðal annars Arianna Huffington, sem til að mynda bannar starfsfólki Huffington Post að svara vinnusíma eða póstum um helgar og í fríum. Við erum samt svo skilyrt til að vinna of mikið að starfsfólkið hennar brýtur oft þetta „bann”,“ segir Hrund, en bætir þó við að þetta sé þó ekki klippt og skorið.

„Þegar ég vann fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Genf skoðuðum við þessar vinnutölur auk þess sem ég átti samtal við starfsmann Hagstofunnar á Íslandi á þessum árum, í kringum 2004. Hann sagði mér að hluti af ástæðunni fyrir mörgum vinnustundum væri meðal annars vegna þess hversu algeng sjálfboðavinna er hérlendis. Hann benti á skátahreyfinguna, íþróttahreyfinguna og stjórnmálaþátttöku sem fólk gerir utan launaðrar vinnu. Mikið af þessu ólaunaða starfi gefur fólki mikla ánægju, sem má ekki vanmeta.“

Spurning um hugarfar

„Ef þú hefðir sagt mér að ég væri að nálgast einhver þolmörk á sínum tíma hefði ég örugglega ekki hlustað á þig . Ég hefði þurft að fara nákvæmlega þá leið sem ég fór, af því mér fannst ég vita betur - þú veist, mér gekk svo vel,“ segir Hrund og brosir.

„Ég held þetta sé spurning um hugarfar og meðvitund fyrst og fremst hjá okkur sjálfum. Alla vega svona þegar stress eða kulnun er á byrjunarstigum. Við þurfum ekki bara að setja okkur sjálf mörk, heldur þekkja mörkin okkar. Þekkir þú þín? Engin okkar er krani sem gefur af sér endalaust hreint vatn. Það þarf þessa hringrás í öllu sem við gerum. Annars brennum við í báða enda. Eða þornum upp,“ segir Hrund, sem segir þetta enn mikilvægara í erli nútímans.

„Börnin okkar eru svo opin og næm fyrir of litlum svefni, áreiti, kröfum og væntingum sem gerðar eru til þeirra. Skólar og foreldrar ættu að kenna börnum að þekkja mörkin sín, tengja inn á við, þekkja sjálf sig og eigin tilfinningar. En til þess að kenna þeim þurfum við að kunna það sjálf ekki satt? Erum við að setja gott fordæmi fyrir börnin okkar? Framtíð barnanna okkar er óþekkt, meðal annars vegna þess að  tækniþróunin er að breyta samfélögum, samskiptum og vinnumarkaði svo hratt. 65% skólakrakka í dag eiga í framtíðinni eftir að vinna störf sem enn hafa ekki verið fundin upp. Börnin okkar koma líklega til með að hafa mun meiri þörf fyrir að þekkja samspil síns innri og ytri heims, og hafa tilfinningagreind til að velja þá leið sem þeim hentar hvað best í lífinu.“

Eftir að hafa keyrt sig í þrot hefur Hrund þurft að læra að taka það rólega og hugsa vel um líkama og sál.

„Ég hreyfi mig, fer út í náttúruna, hugleiði, les skáldskap, hitti vini eða fjölskyldu, fer í leikhús, teikna - eða legg mig í smá stund eins og pabbi minn gerði alltaf einu sinni þegar hann kom heim í hádeginu. Ef ég finn fyrir miklu álagi þá frekar legg á frá mér vinnu og geri eitthvað skemmtilegt, reyni að hlæja svolítið kannski, frekar en að kveljast yfir verkefninu. Svo kem ég aftur við skrifborðið og hugurinn er skýr. Afköstin verða meiri, ekki minni. En svo er það bara líka þetta að reyna að vera í núinu, veita því athygli sem ég veiti athygli. Þá er ég ekki bara í takt við sjálfa mig heldur líka við sköpunarkraftinn sem er svo mikilvægt hreyfiafl í lífi okkar allra“ bætir Hrund við að endingu.

Fundurinn fer fram í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, á milli 8.30 og 10.00. Allir eru velkomnir, en nauðsynlegt er að skrá sig til leiks. Skráning fer fram hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda