Það er aldrei of seint að skipta um starfsvettvang eða skella sér í nýtt nám. Fjölmargir þekktir Íslendingar hafa öðlast frægð fyrir eitt en haldið svo áfram á allt annarri braut. Smartland tók saman lista yfir nokkra sem hafa breytt um stefnu.
Sölvi Blöndal
Eftir farsæl ár í hljómsveitinni Quarashi hellti Sölvi sér út í hagfræðina og hefur undanfarin ár starfað hjá GAMMA.
Unnur Birna Vilhjálmsdóttir
Unnur Birna öðlaðist frægð þegar hún var valin ungfrú Ísland og síðar ungfrú heimur. Þrátt fyrir skyndilega heimsfrægð hélt hún áfram í lögfræðináminu og starfar nú sem lögmaður.
Helga Vala Helgadóttir
Helga Vala starfaði sem lögmaður áður en hún settist á þing fyrir Samfylkinguna. Áður en Helga Vala fór í lögfræði lærði hún leiklist og útskrifaðist sem leikkona frá Leiklistarskóla Íslands.
Baldur Stefánsson
Baldur fór úr GusGus yfir í fjármálageirann og starfar nú sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar hjá Kviku.
Davíð Þór Jónsson
Davíð Þór kom víða við áður en hann nam guðfræði og gerðist prestur. Hann sló í gegn með Steini Ármanni í Radíusbræðrum og var ritstjóri Bleikt og blátt.
Ásdís Rán Gunnarsdóttir
Ásdís Rán hefur notið mikillar velgengni sem fyrirsæta en fyrir nokkrum árum skellti hún sér í nám og er nú með þyrluflugmannspróf.