Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem sagt upp á veitingastað sem nú er farinn á hausinn. Hún er hrædd um að hún fái ekki greiddan uppsagnarfrest.
Sæl,
Ég var að vinna á veitingastað í nokkra mánuði en var sagt upp fyrir nokkrum vikum. Núna frétti ég af því að veitingastaðurinn væri farinn á hausinn og mér sagt að ég gæti ekki fengið greiddan uppsagnarfrestinn. Er eitthvað sem ég get gert?
Kveðja, ein frekar ósátt
Sæl,
Þegar fyrirtæki fara í gjaldþrot er skipaður skiptastjóri yfir þeim til þess að sjá um málefni þrotabúsins og skipta eignum þess. Allir þeir er telja sig eiga réttindi á hendur þrotabúi þurfa því að lýsa kröfum í búið, með svokallaðri kröfulýsingu. Gott væri fyrir þig að fá lögmann til að útbúa slíka kröfulýsingu. Hér á landi er starfræktur Ábyrgðasjóður launa en hann ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrissjóðsiðgjöld í bú vinnuveitanda. Það skilyrði þarf að liggja fyrir að skiptastjóri hafi viðurkennt kröfuna sem forgangskröfu. Það er því skiptastjóri sem sendir umsögn um kröfuna til ábyrgðasjóðsins sem sér um greiða hana. Allar líkur eru á því að þú getir fengið þau laun sem þú átt inni hjá fyrrverandi vinnuveitanda þínum eftir þessari leið.
Kveðja,
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu Björk spurningu HÉR.