Neysluhyggjupælingar

Nína Guðrún Geirsdóttir.
Nína Guðrún Geirsdóttir.

„Ég hef verið að hugsa mikið um neyslu. Ég hef aldrei búið við skort af neinu tagi og aldrei þurft að hafa sérstakar áhyggjur af peningum blessunarlega. Ég var í menntaskóla þegar kreppan skall á og hef aðeins heyrt út undan mér af breytingunum sem áttu sér stað í kjölfar hennar árið 2008, bæði hér á landi sem og erlendis. Þegar margir hófu að endurhugsa neyslu sína og lífstíl. Efnahagurinn einfaldlega leyfði ekki þá neyslu sem margir höfðu vanið sig á fyrir kreppu. Í dag hangir önnur yfirvofandi krísa yfir okkur, nema nú af öðrum toga,“ segir Nína Guðrún Geirsdóttir á bloggsíðu sinni: 

Áratug síðar er kreppan orðin að fjarlægri minningu. Margir búa við mun betri kjör en þá og kaupmáttur hefur aukist verulega. Aftur erum við byrjuð að eltast við það sem er stærra, betra og nýrra. Rithöfundurinn Yuval Noah Harari segir í lokaköflum sínum í bókinni Sapiens: A Brief History of Humankind að vöxtur sé einfaldlega ein af undirstöðum vestrænnar siðmenningar. Fyrir löngu löngu síðan var gróði nefnilega talinn grunsamlegur, jafnvel syndsamlegur. Með tímanum áttaði fólk sig á að kakan gæti í raun stækkað og mikilfenglegur vöxtur fór af stað, sem við sjáum ekki fyrir endann á í dag. Gróði og neysla varð tákn um velmegun.

Kapítalismi hefur reynst mannkyninu ágætlega, fært okkur nytsamlegar búbætur, þægindi og ýtt undir merkilegar uppgötvanir. En traustið til gróða er algjört. Gróði er nauðsynlegur til að viðhalda kerfinu, svo framleiðendur búa til vörur sem endast í stuttan tíma og endalausar tegundir af vörum sem duga okkur nú þegar. Og við erum hinir fullkomnu neytendur. Við kaupum hluti og græjur sem við þurfum í raun ekki, til að vera með eða vegna þess að þau lofa hamingju. Við sjáum vini okkar gera þetta, auglýsingar og fjölmiðlar hafa beint eða óbeint áhrif á okkur. Brotnaði eitthvað? Kauptu nýtt! Ný árstíð? Ný föt! Komið að fríinu? Fljúgðu burt! Það telst eðlileg þróun og það er kerfið eins og við þekkjum það. Lausnin við öllu virðist vera að kaupa meira.

Ég bý í Bandaríkjunum þar sem margir eyða frídögunum sínum í verslunarmiðstöðvum og keyra bókstaflega allar vegalengdir, enda vegakerfið hannað á þá vegu sem er efni í annan pistil. Í grunninn er hugmyndin um sjálfsást og að gera vel við sig beintengd við kaup og eyðslu. Dagur einhleypra (Singles day), sem byrjaði sem nokkurs konar grín í Kína fyrir nokkrum árum, varð fljótt stærsti netsöludagur heims. Á árinu 2017 hafði vefsalan náð 100 milljörðum á aðeins þremur mínútum.

Æ fleiri rannsóknir sýna fram á að jörðin er komin að þolmörkum sínum. Við í hinum vestræna heimi lifum eins og við eigum aðra plánetu einhvers staðar annars staðar sem við getum öll flutt til þegar þessi getur ekki hýst okkur lengur. Það er þó óþarfi að sjá bara svart.  Þróunarfræðingurinn og prófessorinn Jason Hickel hefur kallað eftir því að við hugsum nýjar leiðir við að skilgreina gróða og vöxt. Það sé vel hægt, en til þess þarf hugarfarsbreytingu innan bæði samfélagsins og atvinnulífsins. Þessi þróun er nú þegar hafin auðvitað. Framsýn fyrirtæki eru farin að hugsa út fyrir hefðbundin gróðamódel og íhuga hvernig þau geti skapað virði í samfélagi framtíðarinnar. Það breytir því ekki að stærstu mengandi fyrirtæki heimsins borga lítið fyrir skaðann sem þau valda. Ef aðeins væri hægt að láta þau endurhugsa hvernig meta eigi gróða og settur væri á mun hærri umhverfisskattur, yrði brátt arðvænlegra að byrja að framleiða með sjálfbærum hætti.

Nýtt kerfi

Ný kynslóð vekur hjá manni vonir um að hægt sé að snúa þessari þróun við, samanber hin 15 ára Greta Thunberg sem hefur helgað líf sitt umhverfisaktívisma. Hennar kynslóð á mögulega auðveldara með að breyta neyslu sinni, m.a. vegna þess að hún hefur heilt yfir ekki upplifað skort af neinu tagi og hefur komist að því á eigin skinni að hlutir veita manni ekki hamingju. Búddisminn segir að mikið af okkar sársauka eigi rætur sínar í því að vilja sífellt meira. Í vestrænum löndum hefur skilgreining á velgengni verið mæld í eignum og stöðu og því „eðlilegt“ að vilja meira. Þekking er annað lykilatriði. Í dag hafa langflestir aðgang að upplýsingum og stóraukið gagnsæi veldur því að fólk og fyrirtæki geta vart lengur lýst yfir sakleysi sínu eftir allt. Stórfyrirtæki eru kölluð á teppið mun oftar en áður. Sem neytendur berum við ákveðna ábyrgð. Það er óhugnanlegt að við séum ekki með stjórnina og örfá fyrirtæki geti haft áhrif á afdrif allra jarðarbúa. Við getum þó stutt við fyrirtæki sem fara sjálfbærari leiðir og keypt minna frá fyrirtækjum sem gera það ekki. Eða bara keypt minna.

Allajafna virðumst við þó þokast nær nýju kerfi. Núverandi kerfi snýst um að stækka við sig, eiga meira, tölur og gróða. Nýtt kerfi leggur áherslu á sjálfbærni, mínimalisma, sanngirni og deilihagkerfi. Þetta eru andstæður sem munu að öllu jöfnu takast á næstu áratugina því ferlið er flókið og teygir anga sína í alla kima samfélagsins. Förum aftur að lifa eins og við búum við kreppuástand, því þessi kreppa er grafalvarleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda