Bubbi Morthens er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í podcasti Sölva. Í viðtalinu ræða Sölvi og Bubbi um allt milli himins og jarðar og koma meðal annars inn á stöðuna í samfélaginu núna. Bubbi segist telja að við séum að nálgast þann punkt að ekki sé lengur hægt að bjóða fólki upp á að mega ekki stunda vinnu sína.
„Ég er svo heppinn að ég er á heiðurslaunum Alþingis, þannig að ég er með laun, en kollegar mínir, stærstur hluti þeirra, eru bara í frjálsu falli að verða gjaldþrota. Það eru bráðum komnir átta mánuðir án þess að hafa nokkrar tekjur….Þegar að það er sagt við einhvern: „Þú mátt ekki vinna“, sem er það sem ríkið er að gera, taka af þér lífsviðurværið, hvað á þá að gera? Þetta er alveg galið ástand. Svo er alls konar afleidd atvinnustarfsemi líka í kringum listirnar og það fólk er að missa störfin sín líka. En ef ég leyfi mér að tala um þetta að þá er bara sagt að ég eigi að halda kjafti af því að það sé verið að borga launin mín frá ríkinu.“
Spurður um hvort við verðum ekki að fara að læra að lifa með faraldrinum án þess að breyta öllu segist Bubbi á þeirri skoðun.
„Það gæti verið komið að þeim tímapunkti núna. Við getum ekki haldið hópum frá því að stunda atvinnu sína í eitt eða tvö ár. Það er ekki hægt. Ég held að við séum að koma að þeim tímapunkti að verða að finna lausnir.“
Sjálfur passar Bubbi sínar eigin sóttvarnir mjög vel og leggur áherslu á að hann sé á engan hátt að gera lítið úr því að fólk passi sig.
„Bara í morgun þegar ég fór í ræktina..ég spritta mig áður en ég fer inn og svo aftur inni í salnum og svo spritt á öll tækin og svo hendurnar þess á milli og svo þegar ég er búinn að æfa og svo aftur þegar ég fer út. Svona heldur dagurinn áfram, þannig að það mætti stundum halda að þessi fræga fyrirsögn: „Bubbi Fallinn“ sé loksins að raungerast!“
Bubbi er eins og flestir vita einn þekktasti tónlistarmaður Íslandssögunnar og eftir hann liggja nærri 50 hljómplötur. Í þættinum fara hann og Sölvi yfir ótrúlegan feril Bubba, nýja lífið í sveitinni, mikilvægi þess að halda sér í líkamlegu og andlegu formi, sögur af djamminu í den og margt margt fleira.
Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.