„Heilbrigðiskerfið okkar er í rusli“

Helgi Pétursson.
Helgi Pétursson. Ljósmynd/Aðsend

Helgi Pétusson, formaður Landssambands eldri borgara og einn af stofnendum Gráa hersins, ætlar ásamt félögum sínum að berjast til síðasta blóðdropa fyrir elsta hóp landsins. Hann segir baráttumálin vera að mjakast áfram þótt enn þá sé langt í land að Ísland verði góður staður til að eldast á. 

Það þekkja flestir Helga Pétursson úr hljómsveitinni Ríó Tríó, eins starfaði hann sjálfur lengi á fjölmiðlum.

Hann er lífsglaður og skemmtilegur maður sem er fljótur að skipta um gír þegar kemur að málefnum eldra fólks í landinu. Þar stendur hann í lappirnar og segir hlutina eins og þeir eru, í sannleika sagt er umhverfið alls ekki nógu gott fyrir eldra fólkið okkar í landinu.

„Landssambandið er samtök 55 félaga eldri borgara um allt land með um 30 þúsund félagsmenn. Grái herinn er svo baráttuhópur inn í LEB sem berst fyrir bættum kjörum eldra fólks og umbótum á öllum þáttum daglegs lífs þeirra sem eiga svo sannarlega skilið að fá að lifa með fullri reisn.“

Með fjölhæfa reynslu af fjölmiðlum sjálfur

Það er ýmislegt í gangi í lífi Helga núna og er hann að vinna að margvíslegum verkefnum sem tengjast LEB með sínu góða samstarfsfólki.

„Ég er alinn upp í Kópavogi, en hef fengist við fjölmiðlun mest alla mína starfsævi með tónlistina í íhlaupum. Ég vann á blöðunum til að byrja með og síðan á Ríkisútvarpinu, svo seinna vann ég við þáttagerð fyrir Ríkissjónvarpið. Ég var í nokkur ár á Stöð 2 og vann á Dagblaðinu gamla frá stofnun þess í nokkur ár.“

Helgi fór til Bandaríkjanna árið 1980 þar sem hann lærði blaðamennsku í American University í Washington DC. Hann býr því yfir góðri menntun og er með fjölhæfa reynslu þegar kemur að fjölmiðlum.

„Þessi reynsla hefur hjálpað okkur að koma málefnum Gráa hersins á framfæri í fjölmiðlum, eins virðist vera vitundarvakning í samfélaginu í dag þar sem fólk er forvitið um málefni okkar.“

Hvað getur þú sagt mér um tilurð Gráa hersins?

„Við stofnuðum hann nokkur með áhuga á málefnum eldra fólks og ég held að hann hafi orðið kveikja að verulegri viðhorfsbreytingu gagnvart eldra fólki og kjörum þess.“

Gott að eldast ef heilsan er góð

Hvernig er annars að eldast?

„Maður er alltaf sá sami svo framarlega sem heilsan er góð. Hún er náttúrlega aðalmálið. Svo má segja að maður verði öruggari með aldrinum. Maður veit sitt virði og getur litið til baka sáttur í sálinni og einnig litið fram á við og verið svona nokkurn veginn klár fyrir það sem eftir er.“

Helgi segir mikla viðhorfsbreytingar vera að eiga sér stað hjá yngra stjórnmálafólki í landinu, sem gerir sér grein fyrir því að slæm kjör, slæmur aðbúnaður og léleg þjónusta, afskiptaleysi og beinlínis kæruleysi í málum er varða gamalt fólk gengur ekki áfram.

„Unga fólkið okkar ætlar ekki að lenda í þessu sjálf. Kjör eldri borgara geta ekki verið með þeim hætti sem þau eru í dag, það eru margir sem hafa það gott en mjög margir sem hafa það mjög skítt. Það eru sem dæmi 18.000 einstaklingar sem þurfa að lifa á 300.000 krónum fyrir skatt.

Það er ekki mannsæmandi kjör, svo síður sé. Eins viljum við að verulegar breytingar verði gerðar á heilbrigðiskerfinu og viljum leggja áherslu á að heilsugæslan verði miðpunkturinn í þjónustu við alla.“

Eldri borgarar eru alls konar

Helgi segir að félögin séu enn þá að berjast við ímyndarvanda.

„Eldri borgarar geta verið frá 85 ára að aldri til 100 ára. Það er elsta fólkið okkar sem þarf mestu þjónustuna.

Fólkið okkar sem liggur inni á hjúkrunarheimilunum og við ætlum að berjast fyrir til síðasta blóðdropa.

Svo er annar hópur sem er frá 60 ára til 85 ára. Það er hópur af fólki sem er oft og tíðum fullfrískt og er á fleygiferð í lífinu og ætlar að halda því áfram.

Það er ekki fólkið í landinu sem er að klikka á þjónustu við eldri borgara heldur kerfið og stjórnmálamennirnir.

Það var ekki undirbúið fyrir þann mikla fjölda sem var að fara á eftirlaun. Öldrun þjóðarinnar er ekki vandamálið, heldur er það kerfið. Það er leitt að dramatískur heimsfaraldur þurfi að koma til að sýna okkur að heilbrigðiskerfið okkar er í rusli.“

Nóg til af rokkurum á hans aldri

Hvernig hefur lífið verið sem þekktur tónlistarmaður?

„Það var mjög gaman að vera í Ríó Tríó að spila á kontrabassa. Við gáfum út 23 plötur. Það getur haft sína kosti og galla að vera heimsfrægur á Íslandi. Ég get litið á feril minn sem tónlistarmaður með töluverðu stolti. Við gerðum þetta vel og skildum eftir okkur áhugaverða tónlist. Gallarnir við að vera frægur er að maður þekkist um allt land.“

Er ekki bara málið að búa til gott rokklag til að syngja baráttumálin inn í hjörtu landsmanna?

„Jú það gæti verið góð hugmynd. Það er alla vega til nóg af rokkurum á mínum aldri. Maður þarf bara að kalla þá saman og búa til band.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda