Hefur lært að treysta lífinu

Þóra Karítas leikstýrir verkinu Orð gegn orði í Þjóðleikhúsinu.
Þóra Karítas leikstýrir verkinu Orð gegn orði í Þjóðleikhúsinu. Árni Sæberg

Þóra Karítas Árnadóttir er ekki við eina fjölina felld en hún er leikkona, leikstjóri, rithöfundur, handritshöfundur og framleiðandi. Þóra hefur lært að treysta lífinu og reyna ekki að taka stjórn á því sjálf. 

„Í leikstjórastarfinu fæ ég að nota mismunandi hliðar í sjálfri mér“

Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?

„Með því að gefast ekki upp á draumum mínum, vera trú mínum gildum og líklega hæfilegu blandi af elju, þrjósku og ástríðu.“

Út á hvað gengur starfið?

„Starfið sem ég er í augnablikinu er leikstjórn en ég sinni líka framleiðslu á sjónvarpsþáttum sem eru í bígerð svo starfið gengur út á að skipuleggja og halda vel utan um verkferlið og velja með sér gott starfsfólk og halda utan um teymið hverju sinni.“

„Í leikstjórastarfinu fæ ég að nota mismunandi hliðar í sjálfri mér en leikstjórastarfið felur í sér fullt af mótsagnakenndum hlutum sem ríma vel við mig og ég gleðst yfir að vera loksins sest í leikstjórastólinn með ýmiss konar lífsreynslu í farteskinu. Í því starfi fæ ég að hugsa út og hanna sýningar í heild og stýra vinnuflæðinu, ég reyni að halda vel utan um fólkið sem ég vinn með um leið og ég einbeiti mér að því að styrkja vinnu leikarans.“

„Vinnan veitir mér útrás fyrir sköpunargleði, góðan félagsskap og hugarró.“

Hverjar voru helstu áskoranirnar á leiðinni?

„Að skapa mér hæfilega mörg verkefni til að geta verið sjálfstætt starfandi í góðu jafnvægi og flæði.“

Reynir að tæma ekki tankinn

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Já, þá hef ég leitað í nudd, jóga eða það sem ég hef þurft að gera í það sinn til að hlaða batteríin. Ég hef vonandi lært af reynslunni og legg áherslu á að hvíla mig og fyrirbyggja það að tæma tankinn. Ég reyni að safna í orkubrunninn um helgar og fara svo af og til í ræktina, pottinn og sund. Þá hef ég lært að treysta alltaf lífinu og reyna aldrei að taka stjórn á því sjálf eða hafa áhyggjur af því að ég væri að klúðra einhverju. Lífið leynir á sér og hefur vit fyrir manni og eitthvað sem maður telur kannski hafa verið mistök eða rangt val er af ástæðu.“

Þóra Karítas er með marga bolta á lofti og því getur verið mis krefjandi að skipuleggja dagana og fer það eftir því að hverju hún er að vinna hverju sinni.

„Ég skipulegg ekki endilega daginn. Ég er með svo ólík verkefni að glíma við. Ég kíki í dagbókina á kvöldin eða morgnana, mæti á þá fundi sem ég þarf og vinn þess á milli að handritum eða verkefnum sem ég er að takast á við og læt svo bara vaða.“

„Þegar ég er í tökum þarf ég að skipuleggja dagana vel og þegar ég leikstýri skipulegg ég vikurnar í samvinnu við sýningarstjóra en elti leikaravinnuna til að skipuleggja hvern dag fyrir sig jafnóðum og hann líður.“

„Það er tilbreyting fyrir mig að koma á vinnustað eins og Þjóðleikhúsið. Það ríki góður andi og það er gott að fá að einbeita sér að einu verkefni og leggja önnur til hliðar og þar er líklega eitt besta mötuneytið í bænum,“ segir Þóra.

Morgnarnir eru annasamir hjá Þóru líkt og hjá öðrum. „Morgunmatur oftast á hálfgerðum hlaupum, stundum skutl í skóla, stundum út að labba með hundinn og svo í vinnu. Ef ég gef mér tíma fer ég einstaka sinnum í ræktina á morgnana og vinn svo bara heima eða á kaffihúsi að verkefnum dagsins sem fela þá í sér skrif eða skipulagningarvinnu vegna framleiðsluverkefna og einbeiti mér að því sem er efst á lista hverju sinni.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Oftast reyni ég að halda mig innan þess ramma já. Það er samt misjafnt eftir því hvað ég er að gera hverju sinni, stundum eru allir sofnaðir og ég held tek einn eða tvo klukkutíma í að klára hluti sem brenna á mér. Þegar ég skrifaði skáldsögu var eins og bókin vekti mig alltaf klukkan fimm á morgnanna á lokasprettinum til að ná að klára það sem ég þurfti að gera og ef ég er að skrifa verð ég stundum að fylgja flæðinu og bregðast við því sem er aðkallandi með því að setjast niður og vinna.“

Leikstýrir verki sem hefur haft áhrif á kerfið

Þóra Karítas leikstýrir nú verkið Orð gegn orði eftir Suzie Miller sem sýnt verður í Kassanum í Þjóðleikhúsinu en Ebba Katrín Finnsdóttir fer með aðalhlutverkið. 

„Þetta er skemmtilegt og vel skrifað dramatískt verk. Þetta verk er skrifað af lögmanni sem vann með brotaþolum í réttarkerfinu um árabil og hún vildi nota leikhúsið sem málpípu til að hafa áhrif því hún hefur þá trú að listin geti haft umbreytingaráhrif og þetta verk er nú sem hluti af dómaraþjálfun á Írlandi og hefur orðið til þess að lögum hefur verið breytt til að reyna að meðhöndla betur þau mál í kerfinu sem snúa að þolendum í kynferðisbrotamálum,“ segir Þóra. 

Þóra Karítas framleiðir sjónvarpsþætti og leikstrýrir um leið.
Þóra Karítas framleiðir sjónvarpsþætti og leikstrýrir um leið. Ljósmynd/Saga Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál