Með autt blað í fyrsta sinn í lífinu 49 ára

Magni Bernhardsson ákvað nýlega að selja Kírópraktorstofa Íslands og er …
Magni Bernhardsson ákvað nýlega að selja Kírópraktorstofa Íslands og er hættur störfum. Ljósmynd/Aðsend

Magni Bernhardsson kírópkraktor stendur á tímamótum í lífinu. Hann verður fimmtugur í sumar og er búinn að selja Kírópraktorstofu Íslands sem hann hefur rekið í 14 ár. Upp úr stendur allt það frábæra fólk sem hann kynnst í gegnum tíðina. 

„Ég ætla að taka mér smá frí, huga að heilsunni og fjölskyldunni. Hlaða batteríin og sjá hvað kemur til mín með tíð og tíma. Það er sérstakt að vera að detta í fimmtugt á árinu og vera með autt blað fyrir framan sig. Það held ég að hafi ekki gerst á lífsleiðinni,“ segir Magni þegar hann er spurður hvað tekur við.

Magni segist vera í núinu og ekki með of miklar áhyggjur af framtíðinni, eina sem hann veit er að hann ætlar ekki að starfa aftur sem kírópraktor. „Ég er hættur í þeim bransa,” segir hann. 

Aðspurður segist Magni ekki hafa farið með fyrstu flugvél til Tenerife þegar hann setti kírópraktorskóna á hilluna. Þess í stað leggur hann ofuráherslu á heilsuna.

„Ég er búinn að fara í gegnum fjögur brjósklos og tvær bakaðgerðir og það hefur sett strik í reikninginn. Ég hef engan áhuga á að stunda fagið ef ég get ekki sinnt því almennilega og af fullum krafti. Ég vildi frekar hætta en að vera við hliðina á sjálfum mér, ég sýni kúnnum mínum það mikla virðingu að ég myndi aldrei gera það,“ segir hann. 

Þakklátur fyrir fólkið

Hvað hefur staðið upp úr á ferlinum?

„Ég er búinn að vera 15 ár í þessum bransa, 14 ár með Kírópraktorstofu Íslands. Það sem stendur upp úr er ótrúlega mikið af góðu og skemmtilegu fólki sem maður hefur hitt í gegnum þessi ár. Það sem er erfiðast við að hætta í kírópraktík er að hitta ekki áfram þetta fólk sem eru margir hverjir orðnir vinir manns. Kúnni númer eitt hjá mér var hjá mér fyrir ekki svo löngu. Maður hefur verið að sjá um fjölskyldur og svo eignast börnin þeirra börn. Það er ótrúlegur heiður að hafa fengið þetta traust. Það er það sem ég er þakklátastur fyrir og á sama tíma er líka erfiðast að kveðja fagið út af því.“

Framtíðin er björt

Um 17 þúsund viðskiptavinir hafa nýtt þjónustu Kírópraktorstofu Íslands að sögn Magna. Það fólk þarf ekki að hafa áhyggjur. Helga Björg Þórólfsdóttir og Matthías Arnarson kírópraktorar keyptu stofuna af Magna en þau hafa starfað lengi með honum. Áfram á stofunni verður einnig Jón Arnar Magnússon, kírópraktor og fyrrverandi tugþrautarkappi.

Magni segir að nú sé tími nýrrar kynslóðar og framtíðin í kírópraktík á Íslandi er björt. „Það eru 30 til 40 krakkar að koma úr námi næstu árin og Kírópraktorstofa Íslands mun halda áfram að taka inn nema en ég var hættur að taka inn nema, það er gott fyrir fagið að það sé samastaður fyrir þessa krakka hér á Íslandi.“

Magni tekur með sér gríðarlegt þakklæti og mikla ánægju úr faginu. Hver og einn kúnni hefur veitt honum ánægju. „Ég var spurður að því af ungum nema á sínum tíma hvernig ég tæklaði erfiðu viðskiptavinina. Ég þurfti virkilega að hugsa mig um af því ég var ekki með neinn erfiðan kúnna, þetta var allt æðislegt fólk. Ég virkilega meina það. Ég fer sáttur frá borði en það er samt skrítið,“ segir Magni að lokum með autt blað fyrir framan sig. 

Helga Björg Þórólfsdóttir er nýr eigandi Kírópraktorstofu Íslands en hún …
Helga Björg Þórólfsdóttir er nýr eigandi Kírópraktorstofu Íslands en hún hefur lengi starfað á stofunni. Ljósmynd/Aðsend
Matthías Arnarson er einnig nýr eigandi Kírópraktorstofu Íslands. Hann starfaði …
Matthías Arnarson er einnig nýr eigandi Kírópraktorstofu Íslands. Hann starfaði einnig á stofunni. Ljósmynd/Aðsend



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál