„Eftir stóð ég andlega nakin“

Rakel er í dag með fleiri tól til að takast …
Rakel er í dag með fleiri tól til að takast á við verkefni sem lífið býður upp á.

Rakel Sigurðardóttir, andlegur einkaþjálfari, þakkar fyrir allt sem hún hefur gengið í gegnum. Rakel kom buguð út úr ströngu leiklistarnámi en sá ljósið þegar hún upp götvaði andlega einkaþjálfun. Í dag nýtir hún áföll sín og erfiðleika til að miðla til annarra í starfi sínu.

Andleg einkaþjálfun er nýtt fyrir mörgum. „Andleg einkaþjálfun er djúp og markviss andleg vinna. Andleg einkaþjálfun er sett upp sem 12 mánaða þjálfun, þar sem hver mánuður ber sinn fróðleik. Ástæða fyrir lengd þjálfunarinnar er sú að við vitum öll að langvarandi lífsstílsbreytingar taka tíma þó svo flestir sæki í skyndilausnir,“ segir Rakel.

„Í þessari þjálfun fer fram mikil endurforritun og hugarfarsbreyting. Við byrjum í algjörri grunnvinnu, byrjum á byrjunarreit; æskunni. Skoðum okkur, skiljum okkur og vinnum okkur þaðan upp. Við byrjum að sjá heiminn á allt annan hátt, á jákvæðari og gagnlegri hátt. Við horfum alltof mikið svart og hvítt á allt í kringum okkur, erum föst í fortíðinni eða framtíðinni, böðum okkur í neikvæðni og erum svo hissa að okkur líði ekki nógu vel. Dæmið gengur ekki alveg upp svona. Allir þeir andlegu einkaþjálfarar sem eru þarna úti, sem fjölgar á hverju ári, hafa sjálfir farið í gegnum þjálfunina og þekkja andlega vanlíðan af einhverju tagi sjálfir og hafa unnið úr sínu.“

Rakel mælir heilshugar með því að verða andlegur einkaþjálfari og segir hún hvern sem er geta lært fagið. „Þetta er skemmtilegasta og gagnlegasta nám sem ég hef farið í. Gaman er að segja frá því að nýtt nám í kennaranáminu í andlegri einkaþjálfun hefst 24. janúar 2024. Ég hvet ég alla áhugasama til að kynna sér málið á andlegeinkathjalfun.is.“

Rakel Sigurðardóttir er andlegur einkaþjálfari.
Rakel Sigurðardóttir er andlegur einkaþjálfari.

Klessti á vegg

„Ég bjó í þrjú ár í London og var þar í leiklistarskóla. Á þessum árum gekk alls konar á í mínu lífi sem reyndi á, einnig reyndist námið mér krefjandi og opnaði allar þær dyr sem ég hafði lokað í gegnum tíðina. Leiklistarnám er ótrúlega hollt nám að því leyti að þú ert í sjálfskoðun í þrjú ár, neyðist til að kynnast þínum ljósu og dökku hliðum og hrófla í bakpokanum þínum hressilega. Í mínu tilfelli var bara opnað á allt og eftir stóð ég andlega nakin að loknu námi og ég kunni ekki að halda öllum þessum boltum á lofti í mínu daglega lífi þó svo ég kynni það á sviði.

Ég flutti heim fljótlega og klessti á vegg, andlega buguð. Lífið leiðir okkur alltaf áfram, við sjáum það ekki alltaf strax af hverju og sjáum heldur ekki alltaf jákvæðu afleiðingarnar. Þegar ég var þarna andlega buguð og þurfti hjálp sá ég kennaranámið í andlegri einkaþjálfun auglýst, það talaði svo sterkt til mín, ég kýldi á það og hef ekki séð eftir því. Besta ákvörðun sem ég hef tekið, það opnaði alls konar fallegar dyr sem ég hafði ekki hugmynd um að væru til. Það er það fallega þegar við sleppum tökunum, treystum og leyfum lífinu að leiða okkur áfram, þá opnast dyr sem við höfðum ekki hugmynd um að væru til.“

Rakel þurfti að læra að vera hún sjálf.
Rakel þurfti að læra að vera hún sjálf.

Erfið reynsla verður að styrk

Rakel kláraði námið í andlegri einkaþjálfun í lok ársins 2021 og síðan þá hefur hún fengist við mörg skemmtileg verkefni sem andlegur einkaþjálfari.

„Ég kenndi í kennaranáminu, ég hef haldið fyrirlestra og námskeið. Ég hef fengið í þjálfun til mín fullt af dýrmætum kúnnum sem hafa stigið svo sterkt í kraftinn sinn og unnið úr sínu, dýrmætt að verða vitni að því. Einnig fór ég ásamt tveimur öðrum andlegum einkaþjálfurunum til Balí, þar vorum við með tvær sjálfsræktarferðir fyrir konur,“ segir Rakel. Næsta ferð verður farin 10. til 18. apríl og hvetur Rakel ævintýraþyrstar konur til að skrá sig.

Andlegur einkaþjálfari mætir skjólstæðingum sínum á jafningjagrundvelli.

„Ég nýti mína reynslu af áföllum og erfiðleikum til að miðla til annarra. Við erum öllu saman í þessu, allir eru að eiga við sitt en það getur verið erfitt að sjá það þegar glansmyndin er allsráðandi og við felum allt bak við grímuna. Stígum fram, biðjum um hjálp og stöndum sterkari saman. Erfiðleikar og krefjandi tilfinningar, sem unnið er rétt með, standar seinna meir sem styrkur. Ég þakka fyrir allt sem ég hef gengið í gegnum, án þess væri ég ekki sú sem ég er í dag.

Ég kem fram eins og ég er klædd og mæti mínum kúnnum nákvæmlega þar sem þeir eru. Ég er opin um mína reynslu, miðla henni til annarra og ég er ennþá í dag að eiga við mín verkefni, þannig er bara lífið. En andleg einkaþjálfun gefur þér stórt verkfærabox sem auðveldar þér þegar þú færð til þín krefjandi verkefni.“

Rakel í sjálfsræktarferð á Balí.
Rakel í sjálfsræktarferð á Balí.

Hvað er stærsta verkefni sem þú hefur tekist á við?

„Ég hef fengið alls konar verkefni til mín og öll hafa þau sinn tilgang en ég held að leiklistarnámið hafi verið mitt stærsta verkefni þar sem svo margt gerðist á þessum árum sem hafði auðvitað áhrif á þessi leiklistarskólaár. En þessi ár breyttu mér og þroskuðu mig alveg gífurlega og stækkuðu sjóndeildarhringinn. Ég er ævinlega þakklát fyrir þessa reynslu og þessi ár.“

Þorði ekki að vera hún sjálf

Hvað er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Vertu alltaf þú sjálf. Ég fékk reyndar þetta ráð í leiklistarnáminu þar sem ég hóf það nám feimin og faldi alla mína fallegu liti. Eftir fyrstu önnina tók skólastjórinn mig á tal og sagði þessa einföldu setningu: „always be yourself, that's your power“ eða vertu þú sjálf, þar liggur styrkur þinn. Þetta eru sterk skilaboð fyrir listafólk því í leiklistarnámi er verið að skapa einstaka leikara, ekki leikhóp þar sem allir eru eins. Þetta á líka við um lífið, hvernig ætlastu til að laða til þín þitt fólk og þín tækifæri ef þú ert alltaf að fela þig, takmarka þig og reyna að vera eins og næsti maður? Ég var lengi að þora að standa með mér, þora að vera ég og segja mitt. Þess vegna var þetta besta ráð sem ég þurfti á að halda á þessum tíma og hefur verið mitt mottó síðan.

Það er sorglegt að fara í gegnum lífið og vera einhver annar en maður er sem þú getur hvort sem er aldrei orðið. Er þá ekki betra að vera 100% maður sjálfur og laða að sér þá sem eiga heima hjá þér og í þínu lífi? Fögnum því að við erum alls konar, það gerir lífið svo miklu miklu litríkara og skemmtilegra.“

Lífið er gott.
Lífið er gott.

Hænuskref eru mikilvæg

Fólk hugsar oft um að hreyfa sig og borða hollar á nýju ári, vanmetur það stundum andlega heilsu?

„Sem betur fer er orðin mikil vakning um mikilvægi andlegrar heilsu. En já, áherslan er ennþá meiri á líkamlega heilsu, hreyfingu og hollt mataræði. En allt þetta er jákvætt, hreyfing og hollt mataræði getur auðvitað ýtt undir andlega vellíðan. En það allra mikilvægasta er að skoða rótina, af hverju viltu byrja að borða hollar? Til að grennast, til að huga að heilbrigði eða til að fá samþykki? Mín skoðun er að best sé að byrja á andlegu heilsunni, þegar hún er komin með góðan grunn er hitt allt mun auðveldara.“

Hvað afleiðingar getur streita og slæm líðan haft í för með sér?

„Vanlíðan fyrst og fremst. En streita getur verið mjög skaðleg eins og flestir eru líklega farnir að taka eftir í sínu nærumhverfi. Andleg vanlíðan, áföll og fleira getur haft mikil og djúpstæð áhrif á heilsu okkar. Líkamleg veikindi geta verið afleiðing andlegra veikinda og akkúrat öfugt líka; andleg veikindi geta verið afleiðing líkamlegra veikinda. Þetta helst allt í hendur.“

Rakel nýtur alls þess sem lífið hefur upp á að …
Rakel nýtur alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

Hvar á fólk að byrja ef það vill setja andlega þáttinn í fyrsta sæti á nýju ári?

„Bara byrja nógu rólega. Við eigum það til að vilja umbreyta öllu 1. janúar og ætlum að sigra heiminn á korteri. Stoppum strax þar, tökum eitt hænuskref í einu. Þegar þú ert búin að taka mörg hænuskref ertu komin með styrk til að stækka skrefin. Mikilvægt er einnig að flækja ekki hlutina, ekki horfa á allan stigaganginn, horfðu bara á eina tröppu í einu. Það er svo ótrúlega margt hægt að gera til að byrja. Byrjaðu á að gera hluti sem veita þér gleði sem eru yfirstíganlegir, setja á góða tónlist meðan þú ert að þrífa, skella þér í göngutúr með upplífgandi hlaðvarp, taktu stutta hugleiðslu og lengdu svo hugleiðsluna hægt og rólega. Eða einfaldlega kynntu þér alla þá frábæru starfsemi sem er þar úti, það er til fullt af yndislegu fólki sem vinnur við að hjálpa fólki. Finndu þann sem talar til þín. Mikilvægast er að byrja, ekki hvernig, bara byrja.“

Það er mikið rætt um að Íslendingar taki mikið af kvíða- og þunglyndislyfjum. Telurðu að það sé hægt að minnka það með andlegri meðhöndlun?

„Lyf eru oft og tíðum lífsnauðsynleg. Þau geta einnig verið mjög góður stökkpallur fyrst um sinn en mín skoðun er sú að við getum valið svo miklu fleiri leiðir en bara lyf. Andleg meðhöndlun ætti auðvitað að vera með þegar lyf eru notuð, svo hægt sé að sleppa tökum á þeim hægt og rólega.“

Hreyfing þáttur af andlegu jafnvægi

Það er auðvelt að mæla árangur í hreyfingu en hvernig er það þegar kemur að andlegri líðan?

„Það er vissulega öðruvísi mæling en það er vel hægt að mæla hana. Ég mæli árangur andlegrar þjálfunar út frá því hvernig mér líður í sjálfri mér. Þegar neikvæðar hugsanir verða jákvæðar, þegar sjálfstraustið hefur aukist og ég trúi á mig sjálfa, þegar mér líður vel í aðstæðum sem mér leið áður fyrr ekki vel í. Þetta er allt mæling á andlegum árangri. Einnig geturðu auðveldlega séð árangur á fólki, þegar fólk er allt í einu farið að standa með sjálfu sér, farið að setja mörk, þorir að vera það sjálft og fer óhikað sína eigin leið. Ó já, það er sko andlegur árangur.“

Er mikilvægt að hreyfa sig líka?

„Já hreyfing er mikilvæg, þetta helst allt í hendur, svefn, andleg heilsa, hreyfing og mataræði, þetta þarf allt að vera í jafnvægi fyrir góða heilsu. Ef einn hlekkurinn er laus er heilsan ekki eins sterk. Ég hreyfi mig mjög mikið, ég finn að ef ég hreyfi mig ekki reglulega þá hefur það áhrif á mitt andlega jafnvægi. Spinning og göngutúr eru fyrir mér eins og hugleiðsla, ég næ að endurhlaða mig líkamlega og andlega. Aðalmálið er bara að finna sinn takt, þá hreyfingu sem hentar þér og veitir þér gleði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál