„Ég hef þurft að leggja mikla vinnu í að heila þau sár og byggja mig upp“

Elísabet Skagfjörð hlaut nýverið styrk úr Leiklistarsjóði Brynjólfs Jóhannessonar.
Elísabet Skagfjörð hlaut nýverið styrk úr Leiklistarsjóði Brynjólfs Jóhannessonar. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna

Elísabet Skagfjörð fann öryggi og gleði í leiklist sem unglingur þegar grunnskólinn var ekki staður sem hán leið vel á. Í dag er Elísabet í draumanáminu en hán stundar meistaranám í leiklist við Liverpool Institute for Performing Arts, listaskóla sem Bítillinn Paul McCartney stofnaði.

Elísabet hlaut nýverið styrk úr Leiklistarsjóði Brynjólfs Jóhannessonar. „Markmið sjóðsins er að styrkja unga leikara, 35 ára og yngri, til að mennta sig erlendis og auðga þar með íslenskt leikhúslíf. Svo sannarlega mikill heiður fyrir mig að fá þennan styrk og þá sérstaklega á 50 ára afmæli sjóðsins,“ segir Elísabet.

Foreldrar Elísabetar eru bæði mikið listafólk og segir Elísabet að það hafi verið óhjákvæmilegt að hán færi í einhverskonar listnám.

„Ég fylgdi mömmu oft þegar hún var að syngja einhvers staðar og ég fór með pabba á æfingar þegar hann var að leikstýra. Ég held að ég hafi verið með leikhúsbakteríuna frá því ég var lítið. Ég var alltaf að sýna heima; syngja Spice Girls fyrir mömmu eða setja upp klukkutímalangt brúðuleikhús í stofunni.

Ég fór í Sönglist sem táningur og ég man svo skýrt eftir því að upplifa í fyrsta sinn einhvers konar öruggt rými þar sem ég fékk bara að vera ég. Ég átti ekki marga vini í grunnskóla og var lagt í einelti alla mína grunnskólagöngu en í leiklistinni endurheimti ég mig á einhvern hátt og eignaðist marga vini sem mörg hver eru enn góðir vinir mínir í dag. Ég fór síðan í dansnám í Listdansskóla Íslands og var í kjölfarið ótrúlega heppið að fá að starfa í Borgarleikhúsinu í nokkur ár og taka þar þátt í stórum söngleikjauppfærslum þar sem ég söng og dansaði með flottasta listafólki landsins sem var algjör skóli út af fyrir sig; reynsla sem ég mun búa að um ókomna tíð.“

Elísabet í leikritinu Karíusi og Baktusi.
Elísabet í leikritinu Karíusi og Baktusi. Ljósmynd/Aðsend

Draumurinn var að fara út

Elísabet útskrifaðist sem leikari frá Listaháskóla Íslands árið 2018. „Upphaflega ætlaði ég erlendis í nám og leit á prufurnar í LHÍ sem einhvers konar æfingu fyrir prufurnar í leiklistarskólum á Englandi en þegar ég komst inn eftir strangar og erfiðar prufur þá var það mikill sigur og kom ekki annað til greina en að samþykkja plássið.“

Það má því segja að Elísabet hafi verið að láta gamlan draum rætast þegar hán fór í framhaldsnám til Englands.

„Mig hefur lengi langað til að búa í útlöndum og mig hefur langað að bæta við mig námi frá því ég útskrifaðist úr LHÍ svo það lá beinast við að sameina þetta tvennt og sækja um nám erlendis. Það er auðvitað erfitt að flytja til annars lands og sækja um landvistarleyfi og þess háttar en það var bara svo margt spennandi sem beið mín hinum megin að ég gat ekki beðið eftir að fara. Mér leið bara alveg frá því ég hóf umsóknarferlið árið 2022 og þangað til ég flutti út eins og þetta væri 100% það sem ég ætti að gera,“ segir Elísabet.

Aðstaðan í Liverpool Institute for Performing Arts er eins og fjarlægur draumur listnema á Íslandi.

„Skólinn er stofnaður af Paul McCartney og það eru yfir 20 námsbrautir í boði svo það er mikið líf í skólanum. Ég var í átta manna bekk í LHÍ á Sölvhólsgötu þar sem slegist var um rýmin en er núna í skóla þar sem eru hátt í 700 nemendur sem stunda þar nám og 4% þeirra sem sækja um hljóta pláss. Þjónustan sem skólinn býður upp á og aðstaðan er til fyrirmyndar. Það er mikið samstarf milli deilda, allur nýjasti tæknibúnaður til staðar, 350 sæta leikhús í byggingunni, hljóðver, myndver og smíðaverkstæði svo eitthvað sé nefnt.“

Ertu týpan sem verður alltaf að læra og sækja sér fróðleik?

„Ég held að það sé mjög góður og líka mjög mikilvægur eiginleiki að hafa að vilja sækja sér fróðleik. Sérstaklega í leiklist. Ekki bara akademískan fróðleik heldur líka bara að víkka sjóndeildarhringinn almennt. Hlusta á sögur annarra og skapa rými fyrir sögur sem eru frábrugðnar þínum eigin. Leikhúsið er mjög mikilvægur miðill til að skapa það rými finnst mér og það eru ákveðnar sögur sem heyrast minna en aðrar, og sumar alls ekki neitt, sem mér finnst að þurfi að skapa rými fyrir. Leikhúsið verður að vera fyrir öll og spegla fleira fólk og fleiri sögur.“

Bekkur Elísabetar í skólanum í Liverpool.
Bekkur Elísabetar í skólanum í Liverpool.

Hélt alltaf áfram

Þrátt fyrir velgengni í námi hefur Elísabet mætt mótvindi í lífinu og þurft að hafa fyrir árangrinum.

„Ég var lagt í einelti alla mína grunnskólagöngu. Mér var strítt aðallega út af því hvernig ég leit út. Seinna var mér strítt þegar ég gerði eitthvað sem þótti óhefðbundið eins og að æfa á trommur og vera í leiklist. Það skipti eiginlega engu máli hvað ég gerði, hverju ég klæddist, hvernig ég reyndi að breyta mér – ég gat ekki unnið. Þannig að ég held að ég hafi ákveðið frekar snemma að gera bara það sem mig langaði. Ég hélt alltaf áfram að gera það sem ég hafði áhuga á. Ég vildi ekki gefa neinum það vald að taka frá mér það sem ég hafði hvað mesta ánægju af að gera. Eineltið hefur vissulega haft mikil áhrif á mig og mitt líf. Ég hef þurft að leggja mikla vinnu í að heila þau sár og byggja mig upp.

Í LHÍ fannst mér ég tapa ákveðnum parti af sköpunar- og leikgleðinni minni. Það var margt sem ég setti spurningarmerki við varðandi kennsluaðferðirnar þar. Síðan árið 2017 kemur metoo-byltingin og þá þurfti virkilega að endurskoða ýmsa innviði. Sú bylting setti margt í samhengi fyrir mig varðandi kennsluhætti í skólanum á þeim tíma sem ég var þar (2015-2018).“

Elísabet á sviði.
Elísabet á sviði. Ljósmynd/Aðsend

Elísabet segir að það hafi tekið tíma að koma út sem kvár eftir útskrift. „Bransinn er nú þegar erfiður og það getur verið mikil samkeppni og það kom oft upp þessi ótti eins og „hvað ef ég fæ ekki vinnu sem leikari ef ég kem út?“ En ég tvíefldist eftir að ég kom út og fólkið í kringum mig tók eftir því. Það var eitthvert týnt púsl sem komst loksins á sinn stað þegar ég kom út. Það getur verið erfitt að fóta sig og finna sér pláss þegar það er skortur á ákveðinni víðsýni í samfélaginu og bransanum. Við verðum að leyfa okkur að hugsa út fyrir okkur sjálf. Bæði hvað varðar hvaða sögur við setjum á svið og hvaða fólk við veljum til að segja sögurnar.“

Hvernig nærð þú markmiðum þínum?

„Ég er alltaf með skýr markmið og skýr skref sem mér finnst ég þurfa að taka til að komast þangað sem ég vil fara. En stundum heldur man að leiðin að markmiðunum verði að líta ákveðið út og að það sé bara ein rétt leið en ef maður leyfir sér að vera í einhvers konar flæði og treysta að man komist á leiðarenda þá kannski lítur leiðin allt öðruvísi út en þú hélst. Það eru yfirleitt fleiri lyklar og fleiri gjafir á leiðinni sjálfri heldur en á leiðarendanum.“

Bekkur Elísabetar í skólanum í Liverpool.
Bekkur Elísabetar í skólanum í Liverpool. Ljósmynd/Naheema Shafau

Hlakkar til að taka í höndina á Paul McCartney

Hvernig er lífið í Englandi?

„Það er bara frábært. Skólinn á eiginlega hug minn allan en ég hlakka til að geta skoðað mig betur um eftir útskrift. Liverpool er æðisleg borg. Það er allt í göngufæri og hún er alls ekki jafn yfirþyrmandi eins og London getur verið. Ég sakna þess samt að komast ekki í sund og svo sakna ég auðvitað fjölskyldunnar minnar.“

Nærðu að njóta þess að búa erlendis?

„Námið er mjög stíft og svo ótrúlega margt sem við gerum bara á einu ári svo ég hef kannski ekki gefið mér mikið rými eða tíma til þess að ferðast um landið eða fara til dæmis til London í leikhús. Það kemur að því. Eftir útskrift kannski. Þegar ég er búið að taka í höndina á Paul McCartney og fá plaggið í hendurnar,“ segir Elísabet að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál