Akkúrat rétti tíminn til að breyta til

Ásta Guðrún Óskarsdóttir á útskriftarsýningu Ljósmyndaskólans. Hún sýndi verkið sitt …
Ásta Guðrún Óskarsdóttir á útskriftarsýningu Ljósmyndaskólans. Hún sýndi verkið sitt Nafnlaus, kona á sýningunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásta Guðrún Óskarsdóttir starfaði lengi í veitingageiranum þar sem hún meðal annars átti eigin veitingastað. Fyrir nokkrum árum stóð hún á krossgötum og ákvað að nýta tækifærið og fara í nám. Ásta Guðrún var að klára nám við Ljósmyndaskólann.

Ég var á tímamótum eftir að hafa selt veitingastaðinn minn Kopar við gömlu höfnina í Reykjavík. Veitingastaðinn rak ég og átti ásamt meðeigendum til ársins 2019, þá var tekin ákvörðun um að breyta til og takast á við ný ævintýri. Ég ákvað því að elta gamlan draum og skella mér í listnám,“ segir Ásta Guðrún um þá ákvörðun um að hefja nám í ljósmyndun.

„Ég vann í veitingarekstri í 16 ár, ég rak og átti tvo veitingastaði á árunum 2011 til 2019. Þó svo að ljósmyndun og veitingarekstur séu að mörgu leyti ólík þá nýtist öll sú reynsla vel í náminu. Skipulagið og vinnusemin kemur að góðum notum.“

Hvernig er að fara í skóla með fjölskyldu?

„Ég hafði haft áhyggjur af því að fara aftur í nám þar sem ég er með greindan athyglisbrest, en námið er mjög lifandi og skemmtilegt svo það hélt mér vel á tánum. Það gekk bara mjög vel að tvinna saman skóla og fjölskyldulífið, en ég hef reynt að skipuleggja mig og nýtt tímann vel á skólatíma. Ég myndi þó segja að lykillinn væri að hafa góðan stuðning heima fyrir. Ég hef verið svo lánsöm að maðurinn minn hefur stutt mig vel í gegnum námið.“

Ásta Guðrún elskar að taka nærmyndir af náttúrunni og taka …
Ásta Guðrún elskar að taka nærmyndir af náttúrunni og taka myndefnið úr samhengi. Hún segir fegurðina leynast víða. Ljósmynd/Ásta Guðrún Óskarsdóttir

Börnin kveiktu neistann

Ásta Guðrún segist lengi hafa haft áhuga á hönnun og list en það var seinna sem hún byrjaði að einbeita sér að ljósmyndun.

„Ég tók eitt ár á hönnunarbraut í Iðnskólanum en datt síðan óvart inn í veitingageirann, sem passaði minni orku vel. Eftir að ég sagði skilið við þann geira fannst mér kominn tími til að leita að listnámi sem hentaði mér. Ljósmyndun kom til tals en þar áður hafði ég ekki mikið verið að mynda, áhugi minn fyrir ljósmyndun magnaðist eftir að ég eignaðist strákana mína, ég fékk þráhyggju fyrir því að frysta öll dýrmætu augnablikin úr okkar lífi saman, síðan smitaðist þetta út í fleiri hluti og hefur þróast síðan.

Ég var svo heppin að fá góða myndavél í jólagjöf og ákvað að sækja kvöldnámskeið í Ljósmyndaskólanum til að máta námið við mig og líkaði það vel. Þar lærði ég inn á grunntækni og gat undirbúið mig betur fyrir námið.“

Ásta Guðrún segir að fyrst um sinn hafi námið verið krefjandi þar sem hún hafði lítinn grunn í ljósmyndun. Henni gekk þó vel og var hún sérstaklega ánægð með námið og skólann. „Það er frábært að fá svona góða upplifun, viðmótið er einstaklega gott og góður starfsandi,“ segir hún.

Verkið heitir Fisk-verkun. Með verkinu velti Ásta Guðrún fyrir sér …
Verkið heitir Fisk-verkun. Með verkinu velti Ásta Guðrún fyrir sér mikilvægi íslensks sjávarfangs, sem hefur leikið stórt hlutverk í samfélagi okkar og sögu. Hún myndaði sjávarfangið í fiskvinnlu og fór í gegnum allt ferlið og setti fram með sinni listrænu tjáningu. Ljósmynd/Ásta Guðrún Óskarsdóttir

Ólík reynsla og bakgrunnur er styrkur

Hvað er það við ljósmyndun sem heillar þig?

„Það sem heillar mig mest við ljósmyndun er hversu fjölbreytt og skapandi hún er, það er hægt að fara í svo margar áttir. Þegar ég byrjaði í náminu lærðum við að taka myndir á filmu og gera prent í myrkraherberginu, sem var virkilega skemmtileg upplifun og ótrúlega góður grunnur til að byggja ofan á.“

Hvernig listamaður ert þú?

„Ég sé mig sem fjölbreyttan og opinn listamann sem dreymir um að skapa list sem vekur fólk til umhugsunar og áhrifa. Það hefur verið einstaklega gaman að fá að kynnast kennurum skólans sem eru sjálfir starfandi listamenn og hef ég fengið mikinn innblástur frá þeim.“

Hvað fannst þér skemmtilegast í náminu?

„Hversu fjölbreytt það er og hversu margar ólíkar leiðir hægt er að fara með ljósmyndamiðilinn. Ég hef leikið mér mikið með alls konar útfærslur, ég bjó til klippiverk í lokaverkefninu mínu sem var til sýnis á útskriftarsýningu okkar úr Ljósmyndaskólanum í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Með verkinu mínu Nafnlaus, kona vil ég vekja athygli á birtingarmynd kvenna í almenningsrými og nafnleysi þeirra. Styttur af konum í Reykjavík sýna flestar hlutgervingu kvenna; þær eru konur við vinnu, konur með barn eða gyðjur. Með verkinu skapa ég nýjan veruleika fyrir nafnlausu konurnar úr fortíðinni og fæ föt og öryggið uppmálað frá karlmannsstyttunum lánað.“

Ásta Guðrún skoðaði birtingarmynd kvenna í útskriftarverkinu sínu Nafnlaus, kona.
Ásta Guðrún skoðaði birtingarmynd kvenna í útskriftarverkinu sínu Nafnlaus, kona. Ljósmynd/Ásta Guðrún Óskarsdóttir

Hefðir þú vilja fara í námið tvítug eða var þetta akkúrat rétti tíminn?

„Ég held að þetta hafi verið akkúrat rétti tíminn fyrir mig til þess að fara í þetta nám. Ég held að ég hafi bara ekki verið tilbúin í námið fyrr. Ég hef fengið svo dýrmæta reynslu af vinnumarkaðnum og veit núna hvað það er sem ég leita eftir. Ég held að námið sé samt fyrir allan aldur og mér finnst gaman að finna fyrir því hversu breytt aldursbilið er í skólanum, ég held að það styrki bekkina að hafa einstaklinga með ólíka reynslu og bakgrunn. Ég tel mig einstaklega heppna með minn bekk; við náum ótrúlega vel saman, sem er ekki sjálfgefið. Það er svo mikilvægt að vera með góðan hóp fólks í kringum sig sem hittist og gefur hvert öðru uppbyggilega gagnrýni á verkin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál