Kristín Sif Björgvinsdóttir, útvarpsstjarna á K100, er ekki ein af þeim sem ætlar í framboð til forseta Íslands. Kristín Sif er ánægð með þann stað sem hún er á í lífinu og er ekki að sækjast eftir nýju starfi.
„Það hafa ýmsir menn komið að máli við mig síðustu misseri og skorað á mig..... Að gefa EKKI kost á mér sem forseti Íslands og eftir vel ígrundað mál hef ákveðið að bregðast við því ákalli og mun EKKI gefa kost á mér,“ skrifar útvarpsstjarnan á léttu nótunum en hún er þekkt fyrir að vera skemmtileg í morgunþættinum á K100.
Margir forsetaframbjóðendur eiga það sameiginlegt að tala um að „margir hafa komið á máli við þá“ áður en þeir tilkynna framboð. Með þessum orðaleik gerir Kristín Sif góðlátlegt grín að þessum vinsæla frasa. 62 einstaklingar eru nú að safna meðmælum til að verða kjörgengir.