Lilja, sögupersónan úr bókinni Makalaus, eftir Tobbu Marinós, er nú komin aftur á kreik en þó bara á öðrum fæti. Í nýjustu bók Tobbu, Lýtalaus, er Lilja í endurhæfingu eftir bílslys og vefur starfsfólki og vistmönnum heilsustofnunarinnar í Hveragerði um fingur sér eins og henni einni er lagið. En hún kemst líka að því að þar getur rómantíkin blómstrað eins og annars staðar.
„Ég held að maður finni ástina alltaf á ólíklegustu stöðum. Þetta er svipað og þegar þú ferð út og ætlar að finna árshátíðarkjól þegar þú átt pening en finnur ekkert fyrr en þú átt engan pening. Ég hef líka heyrt þónokkrar sögur af fólki sem hefur kynnst á heilsuhælum þannig að ótrúlegustu aðstæður virðast geta af sér ástarsambönd,“ segir Tobba.
Tobba segist búast sterklega við því að aðdáendur Lilju verði fegnir að heyra að hún hafi lifað af bílslysið. En hún fékk þónokka harðorða pósta eftir síðasta þáttinn af Makalaus þar sem svo virtist sem Lilja hefði látist eftir að keyrt var á hana.
„Útgáfupartíið er í dag og ég er mjög spennt fyrir því. Síðan verð ég veislustjóri í brúðkaupi hjá vinkonu minni á laugardaginn svo það er nóg að gera og mikið stuð þessa helgina,“ segir Tobba sem var á harðahlaupum við að ganga frá undirbúningi fyrir haustkynningu Skjás eins þegar blaðamaður sló á þráðinn til hennar.