Ágústa Ósk Óskarsdóttir, sem er 32, er ein af konunum fimm sem tekur þátt í átakinu 10 árum yngri á 10 vikum sem Smartland Mörtu Maríu stendur fyrir í samvinnu við Þorbjörgu Hafsteinsdóttir, höfund bókarinnar og bókaútgáfuna Sölku. Ágústa Ósk er söngkona og söngkennari með kennsluréttindi frá Complete Vocal Technique í Danmörku. „Ég vinn meira við það að kenna í augnablikinu, en það er alltaf eitthvað að gera í bakröddum og svo dúllast ég við að spila með kallinum mínum.“ Hún stundar nám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og segist una sér vel. Ágústa á tvö börn og tvö stjúpbörn og játar að það sé oft líf og fjör á heimilinu. „Við erum stundum sex í heimili og stundum bara tvö, en ég nýt þess vel. Þegar Ágústa Ósk er spurð út í áhugamál sín segist hún hafa mikinn áhuga á handavinnu og auðvitað tónlist. „Ég er einmitt að fara að vinna í versluninni Föndru í sumar. Það má því segja að ég sé mjög heppin því ég fæ tækifæri til að vinna við áhugamál mín.“ Ágústa segist hafa ákveðið að skrá sig í átakið því hana hafi langað mikið að ná fullkomnum tökum á mataræðinu.