Hafa ber í huga að í þessari grein er fjallað um kynhvöt karla og kvenna út frá því hvernig hún birtist almennt hjá meirihluta fólks. Kynhvöt einstaklinga er auðvitað mismunandi og þótt karlar séu almennt séð með meiri kynhvöt en konur, geta konur líka verið með mikla kynhvöt og karlar litla. Rannsóknir við Kinsey stofnunina leiddu í ljós að 37% karla hugsa um kynlíf einu sinni á hverjum 30 mínútum - á meðan einungis 11% kvenna hugsa jafn oft um það.
Mikið af testosterone veldur því að kynhvöt karla er sterk og því eru þeir þegar kemur að kynlífi, alltaf tilbúnir. Allt fram undir fertugt eiga konur það til að kvarta yfir því að karlmaðurinn sé sífellt að þrýsta á um kynlíf, en þetta veldur oft gremju á báða bóga. Konan á það til að segja að maðurinn sé að „nota" hana. Það er hins vegar ekki fyrr en undir fertugt sem kynhvöt hennar verður jafnmikil og stundum meiri en karlanna. Á vissan hátt er þessi aukna kynhvöt leið náttúrunnar til að ýta undir þörf hennar til að nýta sér síðasta tækifærið, áður en kemur að tíðahvörfum, til að fæða barn. Karlmenn sem eru á svipuðum aldri verða oft undarandi yfir þessum hlutverkaskiptum og margir kvarta yfir því að eiga bara alltaf að „standa sig á stundinni". Fæst pör skilja þessar sveiflur í eigin kynhvöt og hvort um sig gerir ráð fyrir því að annað skilji þarfir hins, en það er ekki þannig sem náttúran lagði þetta upp. Því er gott að lesa sér til um kynlíf og breytingar á löngun til þess, sem eru eðlilegar á lífsferli fólks.
Þar sem löngun karla og kvenna til kynlífs sveiflast svona, ganga flest pör í gegnum það að hafa mismikla löngun á mismunandi tímum vikunnar, mánaðarins eða ársins. Þótt í tísku sé að gera ráð fyrir því að nútíma konur og karlar séu jafn áhugasöm um kynlíf eða að venjuleg pör séu í fullkomnu jafnvægi kynferðislega - eru málin ekki svo einföld í raunveruleikanum. Þrátt fyrir tilvísun okkar til hjartans þegar við tölum um ást, er testosterone aðalhormónið sem skapar tilfinninguna sem við köllum kynhvöt og ástin er því sambland af efna- og orkulegum viðbrögðum í líkamanum. Hjá konum skipta sálrænir þættir eins og traust, nánd og almenn vellíðan miklu í að skapa þær kringumstæður sem losa þann hormónakokteil sem til þarf í heilanum til að þær vilji stunda kynlíf. Menn geta hins vegar losað um þennan kokteil hvenær sem er, hvar sem er.
Rannsóknir sem gerðar voru á bandarísku háskólasvæði leiddu í ljós að þegar aðlaðandi kona spurði karlmann hvort hann væri til í að fara í rúmið með henni, svöruðu 75% karlmannanna játandi. Hins vegar svaraði engin kona játandi þegar aðlaðandi karlmaður spurði hana hins sama.
Heimildir: Why Men Don‘t Listen & Women Can‘t Read Maps eftir Alan og Barbara Peas.
HÉR eru fleiri greinar eftir Guðrúnu.