Nú hefur bæst við listann af þeim efnum sem kvenkyns hlauparar mega ekki innbyrða til að bæta árangur sinn. Í raun er ekki um efni að ræða heldur nokkuð mun áþreifanlegra, nefnilega karlmenn.
Alþjóðleg nefnd um frjálsar íþróttir ákvað í lok ágúst að met í kvennahlaupum myndu aðeins gilda ef um væri að ræða kvennahlaup. Var þetta ákveðið til að afnema hagsmuni karlmanna af því að geta komið á ákveðnum hlaupahraða sem væri of mikill fyrir konur til að ráða við. Vekur þetta fólk vissulega til umhugsunar um hvað það þýði nákvæmlega að slá heimsmet. Til að mynda um það hvort kona hafi ekki slegið met ef hún hleypur af sér karlkyns keppinauta sína og kemur fyrst í mark. Eins hvers vegna það sé talið gott að karlmenn fylgi eftir hlaupahraða hver annars og gefi þá frekar í en verra þyki ef kona fylgir í fótspor karlkyns hlaupara.
Um þetta hafa spunnist miklar umræður í hlaupaheiminum og met sem kvenkyns hlauparar hafa slegið eru samkvæmt þessu ekki gildandi lengur. Hafa skipuleggjendur helstu maraþona heims eins og í New York, Berlín og London gagnrýnt þessa ákvörðun. Þykir það bæði ruglandi og ósanngjarnt að stysti tíminn sé ekki endilega met.
„Ásetningur nefndarinnar var að gera greinarmun á afreki kvenna sem slá met þegar þær hlaupa með körlum og þeim sem slá met þegar þær hlaupa eingöngu með konum. En það er yfirleitt talið erfiðara. Við vildum sýna fram á að konur gætu staðið á eigin fótum og þær þyrftu ekki karlmanna við til að slá heimsmet. En raunin er sú að hlaupatími kvenna er að meðaltali tveimur mínútum styttri þegar karlmenn ákvarða hraðann. En að kalla eitt afrek best í heimi og annað heimsmet gerir almenning augljóslega mjög ringlaðan,“ segir Mary Wittenberg, framkvæmdastjóri New York-maraþonsins og félagi í nefndinni. Kemur þetta fram á vefsíðu bandaríska tímaritsins New York Times.