Leið ömurlega eftir rútuslys í Tansaníu

Auður Guðmundsdóttir.
Auður Guðmundsdóttir.

Auður Guðmundsdóttir í Stjörnuþjálfun er alsæl með árangurinn sem hún náði í lífstílsbreytingunni. Stjörnuþjálfun lauk formlega á laugardaginn. Áður en átakið byrjaði fóru stelpurnar í baðfatamyndatöku. Nú er búið að mynda skvísurnar aftur eftir átak og munu myndirnar birtast í næstu viku.

Auður er himinlifandi með árangurinn sem hún náði. Hún saknar ekki kílóanna og hefur sjaldan litið betur út.

„Í dag líður mér stórkostlega og ég lít til baka yfir farinn veg með stolti og er ekkert smá ánægð með sjálfa mig, þetta gat ég! Ég missti 6,5 kg, lækkaði um 8% í fitu og það fóru af mér 34 cm í heildina! Ég lít í spegilinn á nærfötunum og er ánægð með það sem ég sé, ég get hlaupið 7 km án þess að stoppa (ef ekki fleiri, hef ekki látið reyna á það) og ég get gert 20 góðar armbeygjur í röð!“

„Áður en ég byrjaði í Stjörnuþjálfun leið mér ömurlega, og ég held að ég hafi bara alls ekki verið langt frá því að verða þunglynd. Ég gekk í gegnum hræðilega lífsreynslu í byrjun árs þegar ég lenti í rútuslysi þegar ég var á leiðinni í sjálfboðaliðastarf í Tansaníu. Á öðrum deginum mínum úti var ég á leiðinni í rútu til þorpsins þar sem ég ætlaði að eyða næstu 3 mánuðum af lífi mínu og vinna á munaðarleysingjaheimili fyrir ungar stelpur. Ég var búin að hlakka mikið til ferðarinnar og mikill undirbúningur fór í hana. Á leiðinni klessti rútan mín á aðra rútu í framúrakstri og báðar rúturnar ultu útaf veginum. Ég var heppin og slasaðist einungis lítillega, en ég get ekki sagt að allir hafi verið svo heppnir. Líf sumra í rútunni endaði þarna þennan dag og ég er ólýsanlega þakklát fyrir að það var ekki mitt líf! Þetta var hræðilegt áfall að lenda í þessu, og það hjálpaði ekki til að ég var í framandi landi þar sem ég þekkti ekkert og engan. Ég tók þess vegna ákvörðun um að það væri lítið gagn í mér þarna í svona ástandi og ákvað að fara heim.

Ég sá alls ekki eftir þeirri ákvörðun þó svo það hafi verið erfitt að taka hana. Ég var búin að ferðast alla þessa leið og það var mjög erfitt að fara bara heim því ég er ekki þekkt fyrir að gefast upp. En í þessu tilfelli var eiginlega ekki annað í boði. Þegar ég var komin heim leið mér mjög illa og átti í stríði við margar vondar tilfinningar eins og vonbrigði, hræðslu og sorg. Mér leið einnig illa í skrokknum og var stöðugt illt í bakinu og í mjöðminni og ég gat lítið hreyft mig. Rólegur göngutúr með hundinn var meira að segja meira en ég þoldi. Ég fitnaði mikið á þessum tíma og datt algjörlega úr formi, sem var þó ekki mikið fyrir. Því fylgdi síðan enn meiri vanlíðan. Ég byrjaði smátt og smátt sjálf að hreyfa mig þegar meiðslin löguðust en ég náði engum árangri.“

„Í byrjun hausts var ég algjörlega búin að fá nóg af því að líða svona og ég varð bara að fara að gera eitthvað í þessu. Þá rakst ég á auglýsingu inni á Smartlandi sem sagði: viltu komast í Hollywoodform? eða eitthvað álíka og skráði mig til leiks! Og hér er ég :) Þetta var eins og himnasending! Ég er hamingjusamari og í betra formi en nokkru sinni fyrr og það sem meira er og besti parturinn við þetta allt saman er að ég er ung og á allt lífið framundan og ég hlakka til að eyða því heilbrigðum og fallegum stjörnuþjálfuðum kroppi,“ segir Auður á bloggi sínu.

HÉR er hægt að lesa það í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál