Anna Rósa

Anna Rósa Róbertsdóttir grasalæknir.
Anna Rósa Róbertsdóttir grasalæknir.

Anna Rósa grasalæknir og íslenskar lækningajurtir, notkun þeirra, tínsla og rannsóknir er ný bók úr smiðju hennar. Þegar hún er spurð að því hvernig íslenskar jurtir geti bætt líf okkar segir hún að þær séu margar hverjar steinefnaríkar og gott sé að nota þær við hósta, hálsbólgu og meltingarkvillum.

„Lækningajurtir geta linað ýmsa kvilla en aldagömul reynsla er á bakvið margar af íslensku lækningajurtunum. Sem dæmi má nefna fjallagrös sem frá ómuna tíð hafa verið notuð til matar og lækninga á Íslandi. Þau eru t.d. steinefnarík og löng hefð er fyrir því að nota þau gegn hósta, hálsbólgu og margskonar meltingarkvillum,“ segir Anna Rósa.

Bókin fjallar um sögu, notkun, tínslu og rannsóknir á íslenskum lækningajurtum. Hún er prýdd fjölda glæsilegra ljósmynda en heilsíðumyndir eru af öllum jurtunum sem eru sérstaklega teknar með það í huga að auðvelda lesenda að þekkja og greina jurtir. Í bókinni er einnig töluverð áhersla á sögu jurtanna og m.a. vísað í gamla íslenska texta sem oft eru bráðskemmtilegir. Einnig er fjallað um vinnsluaðferðir t.d. hvernig á að búa til te, seyði, tinktúrur og hóstasýróp og gefnar uppskriftir.

Hvað er það helsta sem fólk fer á mis við þegar það kann ekki að nýta sér náttúruna?

„Mér finnst þeir fara á mis við ánægjuna sem felst í því að tína jurtirnar og vinna sjálfir úr þeim. Oft er þetta miklu einfaldara en fólk heldur en bókin kennir einmitt einfaldar vinnsluaðferðir sem allir geta lært. Ég held líka að það sé mikil forvörn fólgin í lækningajurtum gegn ýmsum kvillum og svo má ekki gleyma því að það er mikill sparnaður í því að búa til sitt hressingarte sjálfur.“

Er hægt að ná sér í jurtir yfir vetrartímann?

„Ekki þegar frost er komið í jörðu og snjór. Fram að því er hægt að grafa upp rætur en hinsvegar er hægt að rækta margar krydd-og lækningajurtir í eldhúsglugganum.

Hver er besta lækningajurtin sem finnst í íslenskri náttúru?

„Þetta er svolítið eins og að gera upp á milli barnanna sinna. En að öðrum ólöstuðum held ég að vallhumall sé ein fjölhæfasta íslenska lækningajurtin. Hann er t.d. notaður til að stöðva blæðingar, draga úr bólgum og gegn kvefi og flensu ásamt því að vera talinn geta lækkað blóðþrýsting.“

Hvers vegna skrifaðir þú bók um jurtirnar?

„Upphaflega byrjaði ég að skoða heimildir og skrifa fyrir sjálfa mig en svo sá ég fljótt að mikið af því efni átti erindi til almennings. Eftir að hafa unnið sem grasalæknir í tæp tuttugu ár og haldið fjölda námskeiða er ég líka komin með ákveðna reynslu og margir búnir að spyrja mig hvort ég ætlaði ekki að gefa út bók. Mér fannst einnig vanta upplýsingar um rannsóknir á íslenskum lækningajurtum en samantekt á bæði íslenskum og erlendum rannsóknum birtist í fyrsta skipti á prenti í bókinni og liggur mjög mikil heimildarvinna þar að baki.“

Anna Rósa skrifaði bókina fyrir almenning með það í huga að fólk geti nýtt sér hana til gagns, búið sér til jurtate til hressingar. „Í bókinni eru líka kaflar sem útskýra vinnsluaðferðir og hvernig á að tína og þurrka jurtir. Þetta er bók fyrir alla unnendur íslenskra náttúru sem vilja læra meira um algengar jurtir sem sumar hverjar er mjög auðvelt að finna og tína.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda